26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (4549)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umr., ég hef áður tekið fram afstöðu mína til 4. liðarins í þessu frv., að ég er honum andvígur. En mér þykir rétt, í sambandi við brtt. 1212 og 559, að benda á það, að ef þær eru samþ., er að minni hyggju gerður verulegur munur á í þessu efni frá því, sem er í frv., og ríkissjóði bundnar meiri byrðar heldur en ella. Ef frv. yrði samþ. með brtt. 1212, virðist mér augljóst, að til uppbóta komi einnig sú ull, sem félli til á sumrinu 1945.

En af hinu leiðir, að skuldbindingar ríkissjóðs ná miklu lengra en til 15. sept. 1945, sem l. miðast við, því að ekki er hægt um það að segja, hvenær vörur, sem framleiddar hafa verið eða framleiddar yrðu á þeim tíma, yrðu seldar til útlanda.

Nú held ég, að enginn geti á móti því mælt, að ástæðan til þess, að tekið var að greiða útflutningsuppbætur. var sú, að venjulegir markaðir fyrir þessar vörur hafa lokazt, og því bæri að bæta bændum það. En þess er að gæta að ef styrjöldinni lýkur hér í Evrópu segjum í vor eða næsta sumar, þá verða þessir markaðir opnir. En ef þessi brtt. verður samþ., gilda uppbótagreiðslurnar áfram, þó að vörurnar verði seldar á sínum gamla, eðlilega markaði, ef ekki næst það verð, sem þarf til þess að jafnast á við það, sem reiknað hafði verið út af sex manna nefndinni.

Mér þótti rétt að vekja athygli á þessu, að hér er um verulega breyt. að ræða frá því, sem í frv. greinir.