21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (4583)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Það er nú allt það fyrsta að hefja umr. um málið, því að brtt. var verið að útbýta núna og nál. ekki komið enn.

Frv. er sem kunnugt er borið fram af hv. fjhn. Ed. eða meiri hl. hennar, samkv. beiðni hæstv. fjmrh.

Að efni til fjallar frv. um að leggja skuli sérstakt gjald á útflutningsverðmæti fiskafla þeirra skipa, sem veiða og flytja fiskinn sjálf á erlendan markað, og þetta er miðað við s.l. ár, 1944. Það er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs af þessum l. verði rösklega 2 millj. kr. Fjhn. þessarar d. var sammála um að mæla með, að frv. næði fram að ganga að efni til óbreytt, en n. taldi rétt að ræða við tollstjórann í Rvík um formshlið málsins, þar sem hann,. eins og kunnugt er, mun verða að fjalla um meiri hlutann af innheimtu þeirra tekna, sem hljótast af samþykkt frv.

Eins og frv. kemur frá hv. Ed. er gert ráð fyrir, að þeir menn eða félög, sem hér um ræðir, geri sérstakt framtal, jafnhliða framtali til skatts, um fisksölu sína erlendis árið 1944.

Tollstjóri hefur talið þetta óþarft og til þess eins fallið að gera framkvæmdirnar seinlegri og erfiðari en vera þurfi.

Eins og hv. þm. mun kunnugt, gera skipstjórar á þeim skipum, sem sigla með eigin afla á erlendan markað, skýrslu fyrir hverri sölu að aflokinni hverri ferð. Samkv. þessum skýrslum skipstjóra er útflutningsgjald lagt á fiskinn, og tollstjóri hefur talið eðlilegra og einfaldara í framkvæmd að miða einnig þennan skatt við þessa skýrslu, en bíða ekki eftir síðasta uppgjörinu.

Það er upplýst, að aflamagn, og þá um leið verð, verður svo að segja það sama samkvæmt þessum skýrslum og hinum endanlegu skýrslum Fiskifélagsins. Smávegis munur hefur þó komið fram á þessum tveimur framtölum, en hann er svo óverulegur, að það er ekki talið skipta neinu máli.

Samkvæmt 2. gr. frv. er gengið út frá því, að þetta gjald leggist aðeins á þann fisk, sem veiddur er á þeim skipum, er sjálf flytja hann á erlendan markað.

Tollstjóri hefur bent á, að það komi alloft fyrir, að slík skip kaupi fisk í íslenzkum höfnum til viðbótar eigin afla. Þess vegna þykir rétt að bæta við 3. gr. frv. ákvæði um, hvernig með skuli farið, þegar skip siglir bæði með eigin afla og afla, sem það hefur keypt í íslenzkri höfn. Þær reglur, sem lagt er til, að bætt verði við 3. gr. frv., eru í samræmi við þá reglu, sem höfð hefur verið varðandi útflutningsgjöld, þegar eins hefur staðið á, að skip hafa siglt bæði með eigin afla og keyptan fisk. Þá hefur útflutningsgjaldið verið lagt á samkv. kaupverði aflans hér heima, en síðan skipt eftir þeim reglum, sem um getur í viðbótinni við 3. gr.

Þá er lagt til, að 6. gr. frv. verði umorðuð. Upphaflega var svo ráð fyrir gert, að um innheimtu þessa gjalds og lögtaksrétt fari samkv. l. um tekju- og eignarskatt, nr. 6 frá árinu 1935. Þetta taldi tollstjóri óþarft og að það mundi heldur verða til trafala. Samkv. þessu yrði að innheimta gjöldin á manntalsþingum, og kæmu þau inn á skattaskrár. Þetta mundi valda því, að innheimtan færi fram á mismunandi tíma og á mismunandi stöðum, sem varla eru þó fleiri en 4: Hafnarfjörður, Reykjavík, Patreksfjörður og Akranes, og að þetta mundi dragast nokkuð fram eftir árinu og rétt sé að láta gjöldin falla í gjalddaga ekki síðar en 1. maí, og taldi tollstjóri þó, að vel mætti hafa hann fyrr á árinu, og væru þá sett ákvæði um dráttarvexti.

Ég ætla, að þessar breytingar, sem eru eingöngu formlegar, þurfi ekki frekari skýringa við. Fjhn. var sammála um að mæla með þeim og einnig sammála um meginefni frv., þar sem augljóst er, að þau fiskiskip, sem flytja veiði sína sjálf á erlendan markað, hafa haft allmiklu betri afkomu en önnur fiskiskip á s.l. ári. Þykir því rétt, að þau taki þátt í að mæta tekjuþörf ríkissjóðs með því að skila honum nokkru af þeim hagnaði frá s.l. ári.

Ég sé hér till. frá hv. þm. Borgf., sem n. hefur ekki haft tækifæri til að athuga og ég get ekki gert að neinu leyti að umræðuefni hér, því að ég hef ekki haft tíma til að lesa hana. Ég vænti þess, að hv. þm. muni gera grein fyrir henni.