21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (4584)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Pétur Ottesen:

Ég hef á þskj. 1169 flutt tvær brtt. við þetta frv. Önnur þeirra er við 2. gr. frv., en hin er við 3. gr. þess, þar sem lagt er til að umorða þá grein.

Eins og þetta frv. liggur hér fyrir. og það hefur þegar hlotið samþykki í Ed., þá er gert ráð fyrir, að það verði tekið ákveðið gjald, 2%, af andvirði þess fisks, sem þau skip, sem um ræðir í þessu frv., hafa aflað og flutt sjálf á erlendan markað.

Ég hef flutt hér brtt. við 2. gr., þar sem ég legg til, að þeir einstaklingar eða félög, sem beðið hafa halla á árinu 1944 af þeim rekstri, er l. þessi taka til. séu undanþegin þessum gjöldum, enda færi þeir aðilar sönnur á það fyrir ríkisskattanefnd, að um halla á rekstrinum hafi verið að ræða.

Mér finnst það því mjög hart, að einstaklingur eða félag, sem hafa rekið útgerð sína með halla, skuli ekki vera undanþegin þessu gjaldi. Með tilliti til þessa hef ég flutt þessar brtt. á þskj. 1169, og eru málavextir þannig, að ég tel ekki gerlegt að leggja viðbótarskatt á taprekstur.

Það gildir allt öðru máli þar, sem mikill gróði hefur safnazt fyrir, en þegar um taprekstur er að ræða, horfir þetta allt öðruvísi við, enda eru þá að engu orðnar þær forsendur. sem þetta er byggt á.

Ég vænti því, að hv. deild geti fallizt á að samþ. hina fyrri brtt. mína. Um hina brtt. mína, við 3. gr., er það að segja, að hún er umorðun, sem felur í sér, að umboðslaun og annar sölukostnaður erlendis skuli dreginn frá. áður en skattur er lagður á, og er brtt. svo hljóðandi:

„Við 3. gr. Greinin orðist svo: Heildarsöluverð samkv. 2. gr. telst sú upphæð, sem erlendur kaupandi greiðir fyrir fiskinn, þegar frá hafa verið dregin umboðslaun og annar sölukostnaður erlendis.“

Mér virðist það full sanngirniskrafa að haga þessu þannig, að þessi hluti kostnaðar sölu aflans sé undanþeginn skatti. Og vil ég geta þess, að mér finnst. að brýn þörf þurfi að vera fyrir, ef það á að leggja þennan skatt á útgerðina, þegar litið er á ástandið og skipastólinn. Flestir togararnir eru gamlir og litlir, og þegar taka skal upp samkeppni við erlend ríki með togara af nýjustu gerð, verður sú samkeppni hörð, ef ekki dauðadæmd.

Það er því mjög illt að þurfa nú að nýju að skerða aðstöðu þeirra, sem að útgerðinni standa, til þess að færa þennan hluta útgerðarinnar í það horf, að hann verði samkeppnisfær.

Ég vænti því, að brtt. mínar séu þess eðlis, að þær verði samþykktar.