21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (4585)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Hér er um að ræða eitt af þeim skattafrv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þingið eða fengið flutt. Hér er farið inn á nýja leið í tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Það er sem sé lagt til, að tekinn verði skattur af veltu fyrirtækja án tillits til hagnaðar eða taps, og tel ég þetta mjög varhugaverða stefnu, enda ólíkt því, sem áður hefur verið, þar sem aðrir skattar eru miðaðir við það, að tekjur séu fyrir hendi.

Þó gegnir öðru máli um þennan skatt en veltuskattinn, því að flest fyrirtæki, sem hér um ræðir, hafa verið rekin með gróða. Vegna þess að mér er ljós þörf ríkissjóðs til tekjuöflunar, vildi ég ekki leggjast á móti þessu í fjhn., en skrifaði undir með fyrirvara, því að mér finnst þetta varhugaverð leið.

Hv. þm. Borgf. hefur flutt hér tvær brtt., og finnst mér sú fyrri a.m.k. eiga rétt á sér.