22.02.1945
Neðri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Hv. þm. Borgf. lýsti, sem eðlilegt var, eftir áliti fjhn. á brtt. hans. Því miður get ég ekki flutt hér álit n. Eins og hv. þm. er kunnugt, eru allmörg stórmál hjá þessari n. Hún sat á rökstólum frá kl. 5 í gær til kl. 3 í nótt við að afgr. launal. og fleiri mál.

Þessar brtt. frá hv. þm. Borgf. voru að vísu nokkuð ræddar á fundi n. Og það get ég sagt, að þær hlutu ekki stuðning n. Það, sem ég að öðru leyti segi um þessar brtt., segi ég frá eigin brjósti, en ekki í umboði n.

Um fyrri liðinn er það að segja, að ég fæ ekki skilið, að á honum geti verið þörf. Það er ekki sennilegt. að þau fiskiskip, sem hafa veitt fisk og flutt afla sinn á erlendan markað 1944, hafi verið rekin með tapi. Hitt virðist upplýst, að þau skip öll hafi verið rekin með miklum hagnaði. Læt ég svo útrætt um þá brtt.

Í síðari brtt. er gert ráð fyrir að draga frá heildsöluverði aflans umboðslaun og annan sölukostnað erlendis, áður en skatturinn er lagður á. Þetta mundi út af fyrir sig leiða til þess að lækka nokkuð þær tekjur, sem af þessum skatti mundu fljóta, en aðalatriðið er það þó ekki. ef allt færi fram með felldu. En mér virðist í það minnsta, að þarna sé verið að opna leiðir til þess, sem frekar kynnu að verða til þess að draga mjög úr áhrifum þessa skatts.

Ég mun því greiða atkv. móti báðum þessum brtt., og ég get endurtekið það, að af þeim umr., sem fóru fram í fjhn. um þessar brtt., virðist það vera ljóst. að n. vill ekki gera þær að sínum till. og mæla með þeim sem slíkum.