22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (4613)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Í frv. því, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er lagt til að nema úr gildi 2. kafla l. um laun opinberra starfsmanna, þann kafla þeirra l., sem fjallar um launaákvæði. Enn fremur hefur verið lagt til að nema úr gildi launaákvæði um skipun barnakennara og enn fremur ýmis önnur launalög.

Í stað þeirra l., sem lagt er til, að numin séu úr gildi, er hér borinn fram sérstakur lagabálkur um launakjör starfsmanna ríkisins. Eins og kunnugt er, þá voru þau launal., sem við eigum nú við að búa, afgreidd á Alþ. 1919, á fyrsta ári eftir, að fyrri heimsstyrjöld lauk. Þau l. höfðu verið undirbúin af sérstakri mþn., sem skipuð var á árinu 1914 og vann sitt verk á árinu 1915 og fram til 1919.

Eins og sést á þessum ártölum, þá er það ljóst, að launal. hafa verið samin, meðan fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi, og afgreidd á fyrsta ári eftir styrjöldina, einmitt á þeim tíma, þegar mest umrót var á fjármálaástandi þjóðarinnar og verðlagi öllu. Það lætur því að líkum, að l. muni bera þess nokkur merki, á hvaða tíma þau eru orðin til.

Þeim, sem stóðu að samningu launal.- frv., og eins hv. alþm., sem fjölluðu um það á sínum tíma, var það fullkomlega ljóst, að þegar unnið var að undirbúningi l. og þau síðan afgreidd hér á Alþ., þá stóðu yfir alveg sérstakir tímar. Mönnum var þá fullljóst, að ekki væri hægt að reikna með því verðlagi og fjármálaástandi, sem þá var hér í landi, og að þar væri ekki um varanlegt ástand að ræða, heldur um sérstaka verðsveiflu, sem líklegt væri, að breytast mundi, þegar frá liði.

Það þótti því ekki tiltækilegt, þegar launal. voru afgreidd á árinu 1919, að miða sjálf launaákvæðin við það verðlag, sem þá var hér í landi, heldur var horfið að því ráði að miða launaákvæðin sjálf við það ástand, sem hér hafði verið í verðlagsmálum árin áður en styrjöldin brauzt út, en þar til víðbótar ætti að koma nokkur hækkun, sem talið var, að mundi að fullu svara til þeirra tíma, sem koma mundu að afliðinni heimsstyrjöld.

Það varð að ráði, þegar l. voru lögð fyrir Alþ., að ákveða 25% ofan á vísitöluna, sem þá gilti, og þótti sanngjarnt að miða við það í framtíðinni. Það má geta þess, að í meðferð þingsins var gengið fram hjá þessu, án þess að um verulega breyt. væri að ræða, að orð sé á gerandi. Nú hefur það verið og var ljóst eftir fyrra stríðið, að sú áætlun, sem þingið hafði miðað launal. við, kom ekki til að standast að styrjöldinni lokinni. Þessi 25%, sem áætlað var að leggja ofan á vísitöluna, reyndust ekki í samræmi við laun og verðlag og þóttu því ófær. Vísitalan reyndist árið 1919 vera 348 stig, 436 stig 1920, 331 stig 1921, og á árunum 1922 til 1929 sveiflaðist vísitalan fram og aftur frá 226 upp í 331. Á seinustu árum fyrir yfirstandandi styrjöld reyndist vísitalan 271 stig.

Af þessu er ljóst, að launaákvæði launal. frá 1919 hafa í rauninni aldrei reynzt í neinu samræmi við þær áætlanir, sem upphaflega var byggt á. Þær forsendur, sem Alþ. reisti þessi l. á á sínum tíma, hafa algerlega brugðizt og grundvöllur l. ekki orðið eins og til var ætlazt. Þetta hefur mönnum verið ljóst og það frá því fyrst eftir, að farið var að framkvæma lögin.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að bæta úr þessu og til þess að mæta þeim halla, sem opinberir starfsmenn hafa orðið fyrir, þar sem þau fyrirheit, sem þeim voru gefin með launal., hafa ekki rætzt. Sumar og jafnvel flestar hafa þessar ráðstafanir orðið til þess að bæta að nokkru úr þeim ágöllum, sem hér hafa orðið, en aðrar af þeim ráðstöfunum hafa í rauninni orðið til þess að gera illt verra og skapa ósamræmi milli starfsmanna . ríkisins innbyrðis. Sú fyrsta ráðstöfun, sem gerð var til þess að bæta úr þessu, var sú, að Alþ. ákvað að greiða starfsmönnum ríkisins launauppbót, miðaða við vísitöluna. Að þessu varð að vísu nokkur og talsverð bót, en hins vegar galli einn á þessu í framkvæmdinni, sem lá fyrst og fremst í því, að þessi vísitala, sem hér var farið eftir, var byggð á nokkuð veikum grundvelli og að ákveðið var, að ekki skyldi greiða uppbót af launum nema undir vissu marki, og auk þess hækkaði eða lækkaði vísitalan af greiddri uppbót hlutfallslega. Þó að þannig væri að þessari greiddu uppbót nokkur hjálp, þá vantaði mikið á, að hún væri fullnægjandi til að mæta því óréttlæti, sem opinberir starfsmenn hafa orðið fyrir við það, að launal. komu ekki til með að svara til þeirra krafna, sem gert var ráð fyrir í upphafi, þegar l. voru sett.

Það hafa enn fremur verið gerðar ýmsar aðrar ráðstafanir til að bæta opinberum starfsmönnum upp þennan halla, sem þeir hafa beðið. Það, sem er sérstaklega áberandi í þessu máli, fyrir utan greidda uppbót, er, að talsvert hefur verið farið inn á þá braut að greiða einstökum starfsmönnum aukaþóknun fyrir ýmis störf. Sum þessara starfa hafa beinlínis verið hluti af því starfi, sem starfsmaðurinn átti að vinna, og aukaþóknunin eingöngu til að sniðganga lagaákvæðin, en önnur störf hafa verið meira og minna tilfundin.

Þessar uppbætur og launuðu aukastörf hafa að sjálfsögðu hjálpað talsvert þeim, sem hafa fengið þau, og að sjálfsögðu komið þeim til góða, en ekki er það almenn bót á launal., heldur þvert á móti skapar það ósamræmi og óeðlilega hlutdrægni milli einstakra starfsmanna og hefur þannig orðið til þess að skapa óánægju hjá einstökum starfsmönnum. Þess hefur einnig mjög orðið vart á afgreiðslu Alþ. á ýmsum launamálum og framkvæmdum í sambandi við ýmsar lagasetningar, að nauðsyn væri talin á því, að eitthvað væri betur búið að launakjörum embættismanna en launal. hafa gert ráð fyrir. Sérstaklega hefur það komið fram í því, að embætti, sem mönnum hafa verið veitt, eftir að launal. voru sett, falla ekki undir l. sjálf. Hafa störf þessi annaðhvort verið launuð skv. úrskurði Alþ. eða ráðherra verið falið að ákveða þessi laun. En niðurstaðan hefur allajafna verið sú, hvort sem þing eða ráðherrar hafa ákveðið, að laun þessara starfsmanna hafa farið langtum hærra en laun þeirra, sem taka laun skv. launal. Hefur þetta að sjálfsögðu einnig orðið til að auka glundroða og ósanngirni hjá þeim starfsmönnum. sem tekið hafa laun skv. launalögunum.

Þegar launamálan:, sem skipuð var á árinu 1943, fór að athuga þessi mál, komst hún að þeirri niðurstöðu, að glundroðinn í þessum málum væri nú slíkur, að í landinu væru hvorki meira né minna en 77 l. um launakjör starfsmanna hins opinbera. Og öll eru þessi l. sett, án þess að nokkrar sérstakar ráðstafanir séu gerðar til þess að hafa þar samræmi á. Aðbúnaður hins opinbera við starfsmenn sína, að því er laun þeirra varðar, hefur frá því 1919, er l. um laun þeirra voru sett, verið þannig, að í fyrsta lagi voru þau byggð á grundvelli, sem fær ekki staðizt, og síðan þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til að bæta úr þessu, ýmist verið ófullnægjandi eða ósanngjarnar, þannig að þær skapa misrétti milli starfsmanna hins opinbera.

Alþingi hefur löngu verið þetta ljóst, og á þingi 1933 var svo komið, að ákveðið var að skipa sérstaka mþn. með fimm mönnum til að athuga öll þessi mál og koma fram með ný launal., þar sem reynt væri að samræma laun opinberra starfsmanna. Þessi n. vann ákaflega mikið verk við að kynna sér þessi mál, safna skýrslum og gögnum og útbúa ýtarlegt frv. Það frv. var afhent ríkisstj. síðari hluta ársins 1934, en hún lagði það ekki fyrir Alþ. Einn nm. í þessari n., hv. 1. þm. Árn., lagði frv. fyrir Alþ. 1935 og aftur 1936, án þess að það fengi afgreiðslu.

Það, sem gerzt hefur í þessu máli, síðan þessi n. hóf starf sitt, er það, að einstakar launastéttir hafa fengið nokkrar uppbætur á laun sín, án þess að heildarendurskoðun fram til ársins 1943 hafi farið fram á þessum l. Það má sérstaklega benda á, að 1938 voru laun kennara við Menntaskólann hækkuð um 750 krónur á ári, en þeir höfðu verið með lakast launuðu embættismönnum ríkisins. Árið 1940 var háskólakennurum, safnavörðum og verkfræðingum veitt tveggja þús. króna launauppbót. 1941 fengu sýslumenn og bæjarfógetar sams konar uppbót. 1942 voru laun presta og héraðslækna bætt nokkuð. Árið 1943 var samþykkt að greiða starfsmönnum hins opinbera 25 til 30% hækkun á nokkurn hluta launa þeirra. En jafnframt því er skorað á ríkisstj. að láta endurskoða launal. og útbýta heildarskýrslu um málið.

Með bréfi, dags. 12. júlí 1943, skipar fjmrh. mþn. til að undirbúa þetta frv. Sjö menn áttu sæti í n., einn frá hverjum þingflokki, tveir starfsmenn hins opinbera og einn án tilnefningar.

Þegar þessi n. tók til starfa, hafði fjmrn. unnið mjög þýðingarmikið undirbúningsstarf við að safna skýrslum o.fl. Þessi milliþinganefnd skilaði frv. sínu í desember 1943 til ríkisstjórnarinnar ...........

Þá varð það að ráði, að við fjórir þm. í þessari d., hver úr sínum flokki, skyldum bera frv. fram, eins og það kom frá mþn. Okkur er að sjálfsögðu ljóst, að þótt við berum frv. fram, eins og n. hefur látið það fara frá sér, þá má mjög um það deila, hvort einstökum starfsmönnum er skipað í flokka eins og vera skyldi og laun á ákveðnum flokkum ákveðin eins og vera ber. Við flm. frv. höfum þess vegna áskilið okkur rétt til að hafa óbundnar hendur um einstök atriði, en erum sammála um, að sjálfsagt hafi verið að koma fram með þetta frv. nú og vinna að því, ef hægt er, að það yrði afgr. á þessu þingi.

Ég býst við, að þegar menn athuga þetta frv., þá verði það fyrsta, sem spurt er um, hvaða útgjaldaauka þessi l. hafi í för með sér og hvort ríkissjóði sé ekki bundinn of þungur baggi með því að samþ. frv. nú, eins og það er í stórum dráttum. Það hefur verið gerð áætlun um, hversu mikil grunnkaupshækkun verði hjá starfsmönnum ríkisins, ef þetta frv. yrði samþ., miðað við þau grunnlaun, sem ríkið borgaði starfsmönnum sínum árið 1942. Samkvæmt þessari áætlun, þá hefði frv. í för með sér fyrir ríkissjóð grunnkaupshækkun, sem nemur 1362891 kr. Sú lækkun, sem leiddi af ýmsum ákvæðum frv., mundi nema 269331 kr. Heildargrunnkaupshækkun hjá ríkinu í sambandi við þetta frv. yrði þá 1093560 kr.

Ef athugað er, hvort farið sé hér fram á hækkun, sem talizt geti eðlileg eða sanngjörn frá almennu sjónarmiði, miðað við þá aðstöðu í launamálum, sem starfsmenn hins opinbera eiga við að búa samanborið við aðra þegna þjóðfélagsins, þá fæ ég fyrir mitt leyti ekki séð, að með nokkru móti sé hægt að segja, að hér sé farið fram á ósanngjarna hluti. Mér virðist þvert á móti, hvernig sem á þetta mál er litið, að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri með hliðsjón af öllu, sem er að gerast í kringum okkur nú, en að þeir, sem að samningu þessa frv. stóðu, hafi stillt kröfum sínum mjög í hóf og sýnt fyllstu sanngirni. Ef maður lítur á þetta frá almennu sjónarmiði, þá er löngu viðurkennt, að laun opinberra starfsmanna, sem laun taka samkvæmt launalögum, séu og hafi verið það lág, að vart geti talizt lífvænlegt, og ekki sé hægt að segja, að laun þeirra hafi verið í nokkru samræmi við laun annarra starfsmanna þjóðarinnar, sem með nokkurri sanngirni verða bornir saman við þá, sem hér eiga hlut að máli. Þetta er að sjálfsögðu mjög hættulegt fyrir þjóðfélagið, og hefur það áreiðanlega mjög oft komið að sök, því að það er gefinn hlutur, að þegar ríkið getur ekki boðið þegnum sínum, sem það þarf að hafa í þjónustu sinni, sambærileg laun við aðra og ekkert líkt því, þá verður afleiðingin sú, að ríkið getur ekki átt völ á að fá í þjónustu sína hina hæfustu menn, og er það í sjálfu sér mjög hættuleg braut að fara inn á.

Ef maður athugar dálítið þær tölur; sem fyrir liggja og hægt er að miða við hér, þá verður það sérstaklega vel ljóst, hversu mjög öllu er stillt hér í hóf og hversu mikla sanngirni menn hafa sýnt, að því er mér virðist, við samningu þessa frv. í höfuðdráttunum.

Í þessu sambandi vil ég minnast á launalögin frá 1919. Þau voru undirbúin af n., sem starfaði frá 1915 og var skipuð um það bil, sem fyrri heimsstyrjöldin var að byrja. Tilefnið til þeirrar nefndarskipunar var það, að starfsmenn hins opinbera höfðu fyrir löngu kvartað undan, hversu lág laun þeirra væru og mjög í ósamræmi við laun annarra þegna þjóðfélagsins. Þessi krafa hinna opinberu starfsmanna hafði verið athuguð og rædd. Niðurstaðan varð sú, að menn almennt viðurkenndu, að kröfur þeirra og umkvartanir væru á réttum rökum reistar, og til þess að mæta þessum kröfum og verða við þeim var þessi n. skipuð 1914 til þess að undirbúa launalög. Tilgangurinn og grundvöllurinn með skipun n. var því sá, að því er yfirlýst var af öllum aðilum, að undirbúa launalög, sem fælu í sér hækkun og endurbætur á launum opinberra starfsmanna. Það er því vert að athuga, eins og ég hef lítillega minnzt á áður, hvernig til hefur tekizt um þessa fyrirhuguðu hækkun á launum opinberra starfsmanna.

Eins og ég sagði áðan, þá voru launalögin miðuð við verðlagið 1914 að viðbættum 25%. Nú hefur reynslan sýnt, að frá því 1919 hefur vísitalan alltaf verið um og meira en tvöfalt hærri en þessi 125 stig, sem launalögin eru byggð á, stundum upp í og yfir þrefalt hærri. Það er og viðurkennt, að sú dýrtíðaruppbót, sem opinberir starfsmenn fengu á laun sín, hefur hvergi nándar nærri nægt til að mæta þessari hækkun. Útkoman úr þessu öllu verður því sú, að í stað þess að hækka og bæta laun starfsmanna hins opinbera, eins og til var ætlazt 1919, hafa laun þeirra lækkað og versnað, og er þá ekkert tillit tekið til vaxandi krafna, sem menn hafa gert til lífsþæginda, síðan launalögin voru sett. Má því segja, að þarna hafi mjög illa til tekizt og mætti ekki seinna vera en nú, að eitthvað verði úr þessu reynt að bæta.

En þótt ósamræmið, sem opinberir starfsmenn hafa átt við að búa, hafi verið mikið árin 1919–1939, þá hefur það að sjálfsögðu verið miklu meira síðan 1939, og er það beinlínis sannanlegt með tölum, því að þá hækka laun almennings í landinu ákaflega mikið, án þess að nokkur svipuð eða hliðstæð hækkun eigi sér stað hjá opinberum starfsmönnum síðan 1939. Eins og kunnugt er, hafa almennir starfsmenn aðrir en starfsmenn hins opinbera undantekningarlaust fengið greidda fulla dýrtíðaruppbót á öll sín laun. Starfsmenn hins opinbera hafa hins vegar orðið að sætta sig við að fá ekki fulla dýrtíðaruppbót nema á nokkurn hluta launa sinna, enda þótt allir aðrir en starfsmenn ríkisins hafi síðan 1939 fengið launahækkun frá 45 og upp í 120%. Er um þetta skýrsla, sem fylgir þessu frv. nú. Starfsmenn ríkisins hafa hins vegar orðið að sætta sig við að fá 25 og mest 30% grunnkaupsuppbót á nokkurn hluta launa sinna. Er af þessu ljóst, að hér hefur orðið mikil röskun á hlutfallinu á kjörum opinberra starfsmanna og þeirra, sem taka laun sín annars staðar, og bætist þetta ofan á það óréttlæti, sem starfsmenn ríkisins áttu við að búa fyrir árið 1939.

Í sambandi við þær tölur um grunnkaupshækkun, sem skýrsla liggur fyrir um, sem er allt frá 45 og upp í 120%, þá vil ég benda á það, að sú grunnkaupshækkun, sem farið er fram á í þessu frv., nemur ekki nema liðlega 11%. Krafa opinberra starfsmanna um launahækkun miðað við 1939 er því í rauninni ekki önnur en sú, að fest verði, að vísu með útreikningi, þannig að grunnkaup hækki, sú 25–30% hækkun, sem fengizt hefur á nokkurn hluta launanna, og bætt ofan á 11%. Liggur í augum uppi, að hér er mjög hóflega í hlutina farið og sanngjarnar kröfur gerðar, þó að ekki sé miðað við annað en þá 45–120 % hækkun, sem aðrir starfsmenn í þessu landi hafa fengið á laun sín.

Mér virðist því, þegar á þetta mál er litið í heild og athugað, til hvers var ætlazt með l. frá 1919 og hvernig það fór allt, og sú röskun, sem síðan 1939 hefur orðið á hlutfallinu milli starfsmanna hins opinbera og annarra starfsmanna í þessu landi, þá sé ómögulegt að segja annað en hér sé sýnd fyllsta sanngirni.

Það hefur verið athugað í þessu sambandi, hversu mikill hluti af tekjum og útgjöldum ríkisins laun starfsmanna þess hafa verið áður og hvernig hlutfallið yrði nú, ef þetta frv. yrði að l. Árið 1936 voru laun opinberra starfsmanna 33,24% af heildartekjum ríkisins, en samkvæmt þessu frv. yrðu laun opinberra starfsmanna 29,96 % af heildartekjum ársins 1942. Hér yrði því um hlutfallslega lækkun að ræða. Nákvæmlega það sama kemur fram, ef athugað er, hvernig þetta kemur út miðað við gjöldin. Árið 1936 eru laun opinberra starfsmanna 33,25% af gjöldunum, en 1942 mundu þau vera 29,6% miðað við þetta frv., þannig að þarna er um hreina hlutfallslega lækkun að ræða, svo að einnig frá þessu sjónarmiði virðist ríkissjóður ekki hafa yfir verulega miklu að kvarta.

Ef maður athugar einstaka launaflokka í þessu frv. og sérstaklega, hver hækkun yrði í hverjum flokki, þá verður það fyrst fyrir, að hjá barnakennurum nemur þessi hækkun stærstri heildarupphæð fyrir ríkissjóð. Samkvæmt uppgjöri, sem fram fór í sambandi við þetta, hefur komið í ljós, að útgjaldahækkun ríkisins, þ.e.a.s. grunnkaupshækkunin, samkvæmt þessu frv. mundi til barnakennaranna einna nema 625556 krónum, en við þessa tölu er þó það að athuga, að í henni eru talin öll laun kennaranna, bæði þau, sem ríkissjóður greiðir, og eins það, sem bæjar- og sveitarfélög greiða, svo og öll hlunnindi, sem kennurunum eru ætluð, svo sem húsnæði, ljós, hiti og þjónusta. Er til þess ætlazt í frv., að þetta verði dregið frá, og að óbreyttum þeim l., sem nú gilda, mundi hluti ríkissjóðs af launahækkun til kennaranna nema 451103 kr., og er það meira en helmingur þeirrar hækkunar, sem frv. gerir á launaútgjöldum ríkisins.

Ástæðan fyrir því, að kennararnir vega svo mikið í þessu uppgjöri, er ekki sú, að laun þeirra séu hækkuð meira en annarra eða til ósamræmis við laun annarra eða að hér sé um sérstaklega stórt átak að ræða í þeirra málum, heldur af því, að kennararnir eru langfjölmennasta launastétt ríkisins. Tala kennara 1942 mun hafa verið 462 alls. Einmitt í þessum mikla fjölda kennara liggur þessi stóra tala. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir, að laun kennara verði í byrjun 6000 kr. og hækki upp í 7800 kr. Ég þykist ekki þurfa að gera neina sérstaka grein fyrir því, að kennurum sé áreiðanlega ekki oflaunað, þó að byrjunarlaun þeirra verði 6000 kr. Mættu þessi laun sjálfsagt að skaðlausu vera talsvert hærri. En hækkunin til þeirra vegur svo mikið sem ég sagði vegna þess. hvað margir þeir eru. og vegna þess, að þeir hafa áður haft svo lág laun, að þeir eru í rauninni einhver lægst launaða stétt ríkisins, og verður það að teljast óheppilegt og jafnvel stórhættulegt fyrir þjóðina, þannig að Alþ. ætti, eingöngu með hagsmuni þjóðarinnar sjálfrar fyrir augum, að telja skyldu sína og alveg óhjákvæmilega ráðstöfun að bæta laun kennara a.m.k. eins og farið er fram á í þessu frv. Öllum er ljóst, svo að ekki er sérstaklega þörf um að ræða, hversu ákaflega þýðingarmikið starf kennaranna er fyrir uppeldi þjóðarinnar og fyrir þann undirbúning, sem þeir eiga að veita börnum þessa lands undir að mæta erfiðleikum lífsins. Það er þess vegna afar þýðingarmikið, að í þessa stétt veljist helzt ekki aðrir menn en þeir, sem eru vel til þess fallnir og hafa hlotið sérstaka undirbúningsmenntun og þjálfun, enda er nú svo komið, að námstími kennara er fjögur ár í kennaraskóla og þar á undan gagnfræðanám eða m.ö.o. námstími kennaranna, áður en þeir geta tekið við starfi sínu, er orðinn sex ár. Er sannarlega ekki of mikið að launa þeim mönnum, sem ríkið telur nauðsynlegt að fái slíkan undirbúning undir störf sín, og eiga síðan að gegna jafnþýðingarmiklu starfi og kennarar, eins og hér er gert ráð fyrir.

Það er líka alveg sérstaklega að athuga í þessu máli, að geri Alþ. ekki einhverjar og það róttækar ráðstafanir til þess að bæta hag kennara og það verulega, frá því sem verið hefur, þá er alveg víst, að hér er voði fyrir dyrum og hann stór. Má þar t.d. benda á, að s.l. ár, þegar skólar áttu að fara að byrja, var ekki hægt að fá um 70 kennara í þær föstu kennarastöður, sem nauðsynlegt var að fá menn til að gegna. Það hefur einnig komið í ljós, að í kennaraskólanum eru nú ekki meira en 50 nemendur á hverju ári, en áður voru um 100. Er ljóst, að hér mun enn halla til hins verra frá því, sem þó hefur verið til þessa, með útvegun á mönnum í kennarastöður. Þetta er svo alvarlegt mál fyrir þjóðfélagið, að það er alveg óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir í sambandi við þetta og gera það nú þegar, og þær verða með engu móti gerðar á annan hátt en þann að bæta kjör kennaranna, þannig að hæfir menn vilji leggja þann starfa fyrir sig. Ég vænti því, að menn geti orðið sammála um og að öllum sé ljóst, að nauðsynlegt er að gera nú þegar þessar ráðstafanir.

Þetta var þá um stærsta útgjaldaliðinn í sambandi við þetta frv., útgjaldalið, sem er meira en helmingur af þeim útgjöldum, sem frv. leggur á ríkið.

Um aðra einstaka liði frv. ætla ég ekki að fara mörgum orðum, en vil þó aðeins minnast á nokkra þeirra.

Útgjaldahækkun vegna lækna nemur samkvæmt frv. 47787 kr. á grunnlaun. Ég fyrir mitt leyti verð að segja, að ég furða mig dálítið á því, að þessi upphæð skuli ekki vera hærri en raun ber vitni, því að það er kunnugt og þó alveg sérstaklega frá síðasta þingi, hvílík vandræði og erfiðleikar hafa verið á því að fá lækna til að gegna læknishéruðum úti um land. Það er viðurkennd staðreynd, að þessir erfiðleikar stafa fyrst og fremst af því, að kjör lækna úti um land hafa ekki verið þannig, að menn hafi viljað gegna læknisembættum þar. Er alveg óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að bæta úr þessu, þannig að hægt sé að fá lækna í hin dreifðu læknishéruð, en slíkt verður með engu móti gert öðru en því að bæta kjör þeirra manna, sem óskað er eftir í þessi störf. Mér finnst sú uppbót, sem hér er ætlazt til, að komi á grunnlaun lækna, ákaflega lág og að hætta sé á, að hún muni ekki reynast fullnægjandi.

Þá er hækkaður kostnaður vegna prestastéttar landsins, 77915 kr. Um þann lið vil ég aðeins taka fram, að eins og kunnugt er, hafa prestar verið ákaflega illa launaðir og það svo, að þeir hafa verið í hópi þeirra lægst launuðu af starfsmönnum ríkisins. Virðist því ekki annað sjáanlegt en nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að bæta úr því. Virðist mér, að meðan ríkið heldur uppi kirkju og kristindómi í landinu, þá geti ekki talizt með öllu vansalaust að launa ekki þá menn, sem við það starf vinna, þannig, að þeir séu af því fullsæmdir, enda hefur prestastétt þessa lands verið einhver gagnmerkasta stétt landsins fyrr og síðar og lagt einna drýgstan skerf til íslenzkrar menningar fyrr á öldum. Mætti svo verða áfram, ef sæmilega væri búið að henni. Eins og kunnugt er, þá eru nú fjöldamörg brauð prestlaus, a.m.k. 20, af því að ekki hafa fengizt menn til að gegna þeim, og verður ekki úr þessu bætt nema með bættum kjörum presta.

Launahækkun til hjúkrunarkvenna er áætluð samtals 88868 kr. Þær hafa hingað til verið þannig launaðar, að mikill skortur hefur verið á þeim. Þær verða að ganga undir nokkuð langt nám og eiga síðan að gegna mjög ábyrgðar- og þýðingarmiklum störfum: Er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að til slíks starfs veljist ekki nema hæfar konur. Hingað til hefur það verið þannig, að mjög hefur verið erfitt að fá stúlkur til þessa náms. Vantar því nú mjög tilfinnanlega hjúkrunarkonur, og mun það fara versnandi, ef ekki eru gerðar ráðstafanir til að bæta kjör þeirra, þannig að fleiri fáist til að gegna þessu starfi en verið hefur.

Ég hef þá minnzt á nokkra af launaflokkunum og aðeins tekið þá, sem hæst ber. Hina, sem minna ber á, hef ég ekki séð ástæðu til að ræða sérstaklega, enda er þar ekki um neinar verulegar upphæðir að ræða. En ég vænti þess, þegar þetta frv. er athugað í heild og einstakir launaflokkar, þá geti menn orðið sammála um, að hér sé um óhjákvæmilegar og nauðsynlegar réttarbætur að ræða.

Um sjálft frv. í heild get ég verið stuttorður. Frv. er þannig byggt, að starfsmönnunum er skipt í 14 flokka. Hæstu launin eru 14000 kr., en lægstu byrjunarlaun 3600 kr. Það má deila um það, hvort skiptingunni sé heppilega fyrir komið. Verður slíkt athugað í n. Sú deila gæti orðið óendanleg, en ég vildi mega vænta þess, að ágreiningur um það, í hvaða flokk skuli skipa einstökum launamönnum, þurfi ekki að bregða fæti fyrir málið. Bezt er, ef hægt væri að koma frv. í gegn með sem hóflegustum breyt., en ef síðar kæmi í ljós, að á því væru alvarlegir gallar, yrði reynt að leiðrétta þá. Í frv. er tekið upp það nýmæli, að laun, sem starfsmenn ríkisins taka, skuli vera heildarlaun, en lagðar niður þóknanir fyrir aukastörf. Það er ekki nema sjálfsögð regla, sem ætti að vera búið að taka upp fyrir löngu. En að farið hefur verið inn á þá braut að greiða fyrir aukastörf, stafar af því, hvernig launal. hafa verið. Ef launastiginn er færður í rétt horf, er ekki þörf á slíku lengur.

Í 41. gr. er gert ráð fyrir, að full dýrtíðaruppbót skuli greidd öllum, sem laun taka samkv. þessum l. Er þar um reglu að ræða, sem mér finnst sjálfsagt að taka upp, einkum þegar þess er gætt, að þeir, sem taka laun hjá öðrum, hafa fulla og óskerta uppbót án tillits til hæðar launa, og ef sú regla er ekki tekin upp nú, helzt ósamræmið, sem verið hefur milli starfsmanna ríkisins og annarra. Yrði því erfiðara að fá hina hæfustu menn.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir þessu máli, en hef ekki farið nánar út í einstök ákvæði frv., enda á það ekki við við 1. umr.

Loks vil ég leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.