22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (4614)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Eins og tekið er fram í grg., skipaði fjmrh. n. samkv. ályktunum, sem gerðar voru á Alþ., til að endurskoða launal. Hún skilaði áliti í marz s.l. Mér er engin launung á, að ég tel hina mestu nauðsyn á setningu nýrra launal. Það er ekki af því, að ég telji, að starfsmenn hins opinbera séu sérlega illa launaðir, þegar allt kemur til alls, heldur er það hið mikla ósamræmi í l., sem verður að lagfæra.

Þessi mál eru orðin mjög flókin og kvartanir af hálfu launþega tíðar. En vegna þess, hvernig nú standa sakir, og í sambandi við hina miklu óvissu, sem ríkir um verðlag í landinu, var ríkisstj. ekki viðbúin að flytja frv. launan. nú. Meðan enginn veit, hvort haldið verður í hemilinn á dýrtíðinni eða atvinnuvegirnir og peningagildið fært í kaf af ótakmarkaðri verðbólgu, er ekki rétt að ákveða neitt til frambúðar í þessu efni. Ég hef látið í ljós, að ég skyldi, strax og líkindi væru fyrir stöðvun dýrtíðarinnar, leggja fram frv. sem þetta, en ástæðan til þess, að ég hef ekki gert það, er sú, sem ég hef nú sagt.

Ég mun ekki fara út í einstök atriði frv. Hv. frsm. hefur gert því mjög góð skil. Aukin útgjöld ríkissjóðs mundu nema um einni millj. að grunnlaunum eða um þrem millj. með dýrtíðaruppbót, og stærsti liðurinn er hækkun á launum kennara. Það má deila um, hvar hverju embætti eigi að skipa í launabálk, en slíkt á vitaskuld ekki að hindra framgang launal., enda er engu slíku til að dreifa af hendi ríkisstj. Alþ. mun segja til um, hvort nú sé rétta stundin að kollvarpa gömlu launal. og setja ný.