22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (4615)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Það má telja framgang þessa máls öruggan, ef marka má af því, að flm. eru úr öllum flokkum, en ég vil mjög taka undir ræðu hæstv. fjmrh., að það sé varhugavert, þó að nauðsynlegt sé að bæta kjör embættismanna, að gera það einmitt nú, meðan ekkert er vitað um, hvort það tekst að skapa þjóðinni í heild betri tekjur en fyrir stríð. Allir vita, að það er að því unnið, ekki bara á Alþ., heldur á meðal allra ráðamanna þjóðarinnar, að hækka svo lífskjör almennings, að þau verði ekki á sama stigi og var fyrir stríð. En fyrr en þetta er hægt, er hæpið að setja launal., sem byggð eru á öðrum launum í landinu. Fari svo, sem vel getur orðið, að laun öll þurfi að lækka, verða þessi laun ekki lækkuð nema eftir því, sem stöður losna og þarf að veita þær á ný. Það er betri leið að tryggja mönnum nú, sem starfa hjá ríkinu, á annan hátt eðlileg laun, þar til séð er, hvað verður í framtíðinni.

Ég vil benda á, að það er engan veginn trygging fyrir því, þó að þetta frv. verði samþ., að ríkið njóti allra starfskrafta sinna manna. M.a. er í 43. gr. frv. ákveðið um nokkurn hluta starfsmanna, hvað þeir eigi að láta margar vinnustundir á viku, og í flestum flokkum eru ákveðnar aðeins 6 stundir á dag. Það kann að vera, að að því verði stefnt, að enginn megi vinna lengur en 6 stundir og hafa fullar tekjur, en fyrr en séð verður, hvort þjóðarbúskapurinn þolir það, er ekki rétt, að Alþ. taki út úr vissar stéttir manna, að því er þetta snertir. T.d. eiga kennarar aðeins að vinna 9 mán. af 12. Það er nauðsynlegt, um leið og launal. eru samin, að tryggt sé, að mennirnir vinni öll sín störf fyrir það opinbera og taki ekki önnur laun. Það er síður en svo, að það sé tryggt hér.

Í 10. gr. eru eftirlitsmanni véla og verksmiðja ákveðin 10200 kr. laun og aðstoðarmanni hans 6000–7800 kr., en mér er ljóst, að þessi maður vinnur mikið til allt árið hjá öðrum fyrirtækjum. Skipaskoðunarstjóra eru ætluð sömu laun, en ekkert sambærilegt starf, sem hann þarf að vinna fyrir þau sömu laun.

Ég mun ekki lengja umr., en ég vil beina því til fjhn., hvort ekki er hægt að finna á þessum tímum annan grundvöll til þess að bæta upp þeim mönnum, sem vinna hjá ríkinu, en að lögfesta laun til starfsmanna ríkisins án nokkurrar vissu um það, hvort þjóðarbúskapurinn getur staðið undir því.