22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (4618)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég vildi segja fáein orð út af þessu frv., af því að það mælir ýmislegt með því, að það er borið fram, og líka ýmislegt á móti því. Og þetta finnst mér rétt að setja hér fram við 1. umr.

Í þeirri ýtarlegu ræðu, sem hv. fim. hefur haldið hér í dag, hefur fram komið að ýmisleg mistök hafa átt sér stað við setningu launal. Mistök voru það t.d., að þau voru sett 1930, þegar hrun stóð fyrir dyrum eftir verðbólgutíma. Þess vegna á ekki heldur að samþ. l. um þetta efni nú af því að líkt stendur nú á nema að því leyti, að óvissan er meiri um verðbólguna nú. Þess vegna má þetta frv. ekki verða að l. á þessu þingi. Hins vegar viðurkenni ég með hv. flm.. að þetta mál er svo stórt og snertir það marga menn. að það ætti að vera rætt mikið á Alþ. En því ætti ekki að vera lokið fyrr en séð er, hvernig afkoma Íslands verður, þegar liðin eru nokkur missiri, frá því er stríðinu lýkur.

Það voru mistök, að launal. frá 1919 voru ekki endurskoðuð á því tímabili. sem leið á milli heimsstyrjaldanna. En það kom líka af þeirri ástæðu, sem er ekki vert að gleyma nú, að það var viðbúið, að ný launal. mundu skapa nýja hækkun launa. En Alþ. var oft í vandræðum með peninga, og sú ástæða getur orðið fyrir hendi enn.

Þegar maður lítur á það tímabil, sem hv. flm. minntist á, að launalagafrv. hefði verið borið fram á, 1935–1936, — og hv. flm. sagði, að þá hefði verið heppilegur tími til þess að ljúka því af, — þá var fjárhagur ríkisins svo erfiður, að t.d. rektor menntaskólans var ekki látinn hafa fulla dýrtíðaruppbót á sín laun. Þetta var ekki gert af neinni kvalalöngun. En í þessu sambandi er ekki úr vegi að geta þess, að 1932 var á það bent, að launamaður í góðri stöðu, sem líka var þm. fyrir sveitakjördæmi, hafði 25 þús. kr. í laun. En dilkarnir voru þá seldir á 5 kr. hver. Það þurfti því 5000 dilka til þess að borga laun eins manns, sem voru að vísu fremur há, en ekki sérstaklega há. Fiskverð var þá einnig lágt. Þetta er staðreynd, sem taka verður tillit til. Og það er ekki til neins að halda, að það sé hægt að halda launum embættismanna hærri en framleiðslan í landinu þolir. Og þó að ákvæði þessa frv. séu ekki verri en margt, sem gert hefur verið í þessum efnum, álít ég ekki rétt að hreyfa við launal. nú. — Það þarf t.d. eftir núverandi launal. að reikna út laun símamanna eftir 14 liðum. Þetta er að vísu slæmt fyrirkomulag, en sá kostur er þó við það, að það er verið að reyna að fleyta þessum launamálum gegnum sjúka dýrtíð og erfiðleika, sem henni fylgja.

Þó að þetta launalagafrv. sé sakleysislegt, þá gæti það leitt til þess, að það yrði að fella krónuna. Það er alvarlegt mál líka, því að þá væri tekið af samanspöruðum fjármunum manna, sem menn eiga margir sannarlega ekki of mikið af. Það er eitt af því allra hættulegasta fyrir ríkið að gera samning við mikinn fjölda af skattborgurum sínum, samning, sem er ekki hægt að breyta, meðan maðurinn lifir (hver launþegi fyrir sig), og yrði hættulegur fyrir ríkið, sem á við mjög misjafna fjárhagsaðstöðu að búa. Ég álít þess vegna, að það sé alveg sérstaklega hættulegt í sambandi við framtíðarpeningamál og einnig atvinnumál framtíðarinnar að samþ. þetta frv.

Ég vil líka skjóta til hv. flm. aths., sem ég hygg, að muni vera byggðar á raunveruleika. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að laun manna í stærri bæjum séu miklu hærri en annars staðar á landinu. Þetta er ákaflega vafasamt fyrirkomulag. Ef t.d. hv. flm. (GÍG) gerðist sýslumaður Strandasýslu, — sem hann gæti vafalaust vegna lærdóms síns, — og annar maður jafnfær væri tollstjóri í Reykjavík, — hvers vegna á hann þá, hv. flm., að vera miklu verr launaður en stéttarbróðir hans í Reykjavík? Verður slíkt fyrirkomulag ekki óhjákvæmilega til þess að soga landslýðinn á dýrustu staðina, ef þeim, sem þar starfa, er borgað miklu hærra kaup? Ég hygg, að við endurskoðun launal. þyrfti að jafna laun manna í þessu sambandi. — Enska stjórnin var t.d. einu sinni, að því er sagt hefur verið. nærri fallin á því, hvort borga ætti kennslukonum í Englandi jafnhátt kaup og kennurum. Nú hefur verið gert út um það spursmál hér, að kona, sem vinnur sömu vinnu og karlmaður við kennslu, fær jafnt kaup og hann. En hvers vegna á þá kona, sem vinnur við kennslu á Hólmavík, að fá miklu lægra kaup en kennslukona í Reykjavík?

Þá kem ég að atriði, sem haldið hefur verið á loft af hv. þm. V.-Húnv. (SkG) og Bjarni frá Vogi hafði mjög á oddinum á sínum tíma: að hafa launin verðlagsbundin á þann hátt að binda þau við fjárhagsafkomu þjóðarbúsins í heild. Þetta er ákaflega skynsamleg aðferð, að tengja þannig saman embættismenn og starfsmenn ríkisins annars vegar og hins vegar framleiðendur og afkomu þeirra. En slíkar till. hafa ekki verið teknar til greina enn þá.

Við skipun n. þeirrar, sem um launamál á að fjalla, er það eftirtektarvert, að það háttar dálítið svipað um þessa n. og væri í vinnudeilum, þar sem verkamenn kæmu fram bæði fyrir vinnuveitanda og sjálfa sig. Í þessa n. voru skipaðir af hálfu stjórnmálaflokkanna embættismenn úr Reykjavík, Hafnarfirði og af Stokkseyri og af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja tveir embættismenn. Og svo er fyrir ríkisstj. í n. embættismaður úr stjórnarráðinu. Og þó að þetta séu allt prýðilegir menn, þá er ekki hægt að neita því, að það er til annað fólk í landinu — og eins nauðsynlegt — en launamenn. Í n. þeirri, sem hafði þessi mál til athugunar fyrir styrjöldina, voru bæði menn frá launastéttunum og framleiðendum.

Ég vonast til þess, að frv. þetta fari nú til n. og þegar það kemur frá n., sofni það rólegum svefni í komandi skammdegi.