22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (4619)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. En mér finnst samt heyra til þessara umr. það, sem hæstv. fjmrh. ympraði á og fleiri, hvort tímabært væri að setja nú launalöggjöf eða ekki eða hvort heppilegt væri yfirleitt að setja nú launalöggjöf eða ekki. Og mér finnst ástæðurnar, sem hæstv. fjmrh. bar fram. og eins þær ástæóur, sem aðrir hafa tekið fram og tekið undir með hæstv. ráðh., bæði hv. þm. Barð o.fl., — mér finnst þær bara ekki koma heim við það, sem hér liggur fyrir. Eins og frv. ber með sér og hv. flm. lýsti svo ákaflega skilmerkilega, þá er þetta frv. að langmestu leyti samræmingarfrv. Það er farið hér í frv. svo hóflega í kröfur, að í raun og veru er hér aðeins um samræmingarfrv. að ræða. Og hvað sem líður dýrtíð og hækkunum og lækkunum á verðlagi, þá hlýtur alltaf að vera hentugur tími til samræmingar. Og miklu meira en helmingur þeirrar hækkunar, sem hér er um að ræða. að ríkið greiði á launin, kemur aðeins til hækkunar hjá einni stétt, sem verst hefur verið launuð að undanförnu og verst hefur orðið út undan í þeirri þróun, að stöðugt hafa verið gerðar meiri kröfur til þeirrar stéttar, en launin ekki hækkuð í samræmi við það, — líklega fyrir það, hve stéttin er fjölmenn. — en þetta eru barnakennarar. Það er eftirtektarvert. að töluvert meira en helmingur af þeirri hækkun á launum, sem samþykkt þessa frv. hefði í för með sér, skuli taka aðeins til einnar stéttar, sem hefur orðið út undan.

Ég vil líka benda á til sönnunar því, hve hér er mjög í hóf stillt um kröfur í þessu frv., að kröfur vegna presta nema svo litlu, að — það er næstum að segja ótrú,egt, að bætur til þeirra í grunnlaunum skuli ekki nema meira heldur en 77915 kr.

Einn launaflokkur, sem hér er um að ræða, eru hjúkrunarkonur. — Þessar þrjár stéttir kemur öllum saman um, að séu út úr því að vera í samræmi við aðrar launastéttir landsins.

Sum laun eru beinlínis lækkuð með þessu frv., hvort sem það á að gilda fyrir þá menn, sem nú eru í embættum, eða ekki. En ég held, að það sé hæpnara, að ríkinu haldist uppi að færa þau laun niður, eins og hér er ráð fyrir gert, en að samræma laun. Og ég vil benda á, að laun, sem bætt hafa verið upp með bráðabirgðaákvörðunum, eins og t.d. laun háskólakennara, þau laun mundu eftir frv. haldast óbreytt. Ég held, að hámarkslaun prófessora séu nú 10400 kr. grunnlaun. en hér í frv. eru þau ákveðin 11100 kr. Þetta sýnir m.a., að hér er beinlínis um samræmingu að ræða. Og ég vil benda á, að ekki er aðeins alltaf tími til að samræma, heldur vil ég benda á, út frá orðum hæstv. fjmrh., að nú er beinlínis brýn nauðsyn á að samræma laun. Ef Alþ. gerði einhverjar ráðstafanir til að hamla á móti dýrtíðinni og jafnvel klífa niður stigann, hvaða nauðsyn er þá meiri á öðru en samræma, áður en byrjað er á því? Það er staðreynd, að með grundvelli þeim, er sex manna n. hefur ákveðið. eru kjör bænda og hinna annarra svo kölluðu vinnandi stétta samræmd. Þegar nú væri farið að klífa niður stigann, þá eru þessar stéttir undir það búnar, og þær klífa þá niður nokkurn veginn jafnfætis hver við aðra. Er þá rétt að láta launastéttirnar klífa niður stigann, áður en þær hafa nokkuð komizt upp stigann? — Ég álít þess vegna alveg nauðsynlegt að gera þessa samræmingu, áður en farið er að reyna að hamla á móti dýrtíðinni eða lækka hana. Og ég hef sagt það við hæstv. fjmrh., að nú væri nauðsyn á að koma á samræmi á milli launamanna, m.a. vegna þeirra breyt., sem kunna að verða gerðar í sambandi við dýrtíðina, er kann að verða komið á á næstu árum.

Ég skal ekki fara út í einstök atriði frv. Ég veit ekki, hve lengi mætti bíða eftir því að sjá, hvort unnt væri að láta landslýðinn hafa betri kjör og gera ráðstafanir til þess, að hann mætti halda þeim kjörum, eins og einn hv. þm. orðaði það — eða á þessa leið. Hvenær halda menn, að það ár renni upp, þegar búið verði að tryggja þetta? Ég held. að embættismönnum og starfsmönnum ríkisins væri vísað nokkurn veginn út í eilífðina með því að ætla þeim að bíða eftir því, — því að kjör atvinnuveganna ganga í endalausri bylgjuhreyfingu frá ári til árs, og slíkt, sem hv. þm. minntist á, er aldrei hægt að tryggja. Það, sem Alþ. gæti gert skynsamlegast á þessum tíma, er að bjarga þjóðinni út um þessum ófriði og nota þá peninga, sem nú hafa safnazt, til þess að koma fótum undir framleiðsluna í landinu. En ég veit ekki, hvenær okkur hv. þm. Barð. kæmi saman um það, að nú væri búið að tryggja framtíð atvinnuveganna svo, að það mætti fara að breyta launakjörunum.

Hv. þm. S.–Þ: var að tala um, að það hefði átt að setja launal. á milli styrjaldanna. Við sjáum nú, að ýmist er velgengni eins og nú, — og þá segja menn, að þess vegna sé ekki fært að hreyfa við launal., — eða þá, að það er kreppa, og þá er sagt, að geta ríkissjóðs leyfi ekki, að þeim sé breytt. Hvenær er þá hægt að breyta þeim? Ég held, að við ættum að taka málið raunhæfum tökum og nota tímann, sem nú er, til að koma á ekki meiri breyt. á launal. en frv. þetta fer fram á og koma nú á þessari samræmingu á launakjörum.

Ég veit ekki vel, hvernig hv. þm. Barð ætlar að koma því fyrir í l., að ríkið noti alla starfskrafta starfsmanna sinna, nema með því að gera þá algerlega að þrælum. Ég veit ekki, hvernig ætti t.d. að varna hámenntuðum embættismanni þess að yrkja eða vera rithöfundur. — Það hefði náttúrlega verið gott að geta varnað Bjarna Thorarensen þess að yrkja ( ! ). — Það getur náttúrlega alltaf komið til, að embættismaður hafi tekjur af því að yrkja eða vera rithöfundur, — eða ef menn eru svo færir, að eftirsókn er eftir vinnu þeirra í aukatímum, því að það mun sannast um framúrskarandi hæfileikamenn. Og ef þessir menn ættu ekki að mega gera neitt í aukatíma sínum. — þá held ég, að ynnist a.m.k. eitt, það, að ríkið fengi ekki í sína þjónustu fjölhæfa og frábæra menn. Og mér finnst oft kenna þess of mikið, þegar talað er um launakjör ríkisins, að ríkið eigi að hafa þá menn, sem verða afgangs, þegar allir aðrir eru búnir að fá sitt. Það væri náttúrlega möguleg regla til að fylgja, en ég held, að hún sé ekki heppileg. Það er rétt að ætla starfsmönnum ríkisins starf góðs meðalmanns. En þegar maður getur unnið eitthvert mikið verk og merkilegt þar fyrir utan, þá er það bara gott. Ríkið getur ekki krafizt annars en embættismaður þess vinni vel sitt verk, sem það felur honum. En að ætla að setja lög eða reglur um það, að hann megi ekki vinna neitt fyrir utan það, sem ríkið felur honum, það væri ófær leið. Ég vil í því sambandi benda á þann stjórnarskrárverndaða rétt embættismanna til að vera alþm. Ég hygg, að hefðu embættismenn ríkisins aldrei mátt vera alþm., þá yrði skarð nokkuð verulegt í löggjafarstarfsemi undanfarinna. ára. Og ég get hugsað mér, að svo mundi útkoman verða á fleiri sviðum hliðstæðum þessu.

Það er vansæmandi, að ríkið búi illa að starfsmönnum sínum, en búi það vel að þeim, eiga margir þeirra að geta bæði rækt starf sitt ágætlega og afkastað mörgu verki utan hjá. Mikið hafa t.d. prestarnir unnið utan embættisstarfa fyrr og síðar í sögu landsins, og mundi enginn telja það betur ógert. Mér skildist á þm., að eitt prestakallið væri aðeins 13 býli, það svarar til 70–80 manns, og af 15 þús. kr. árslaunum koma 200 kr. á sál, sem hann ætti að frelsa. (GJ: Vill þm. tryggja það?) Það má vel vera, að honum heppnaðist það betur í fámennum söfnuði en fjölmennum. Ríkið er a.m.k. jafnskylt til að sjá litlum sem stórum söfnuði fyrir presti, og viða hagar svo til á okkar erfiða landi, að embættismann þarf fyrir tiltölulega fámennan hóp og afskekktan. Og þar þarf í rauninni jafngóða embættismenn og annars staðar, alveg eins og jafngóða kennara þarf handa 5 nemendum í erfiðri námsgrein eins og handa 30 nemenda bekk. Það eru auðvitað ekki gjöldin frá þessum 13 býlum, sem bera upp kostnað af prestinum, heldur verður þjóðarheildin að gera það, hvort sem presturinn þjónar 70 manns eða 10 þús. manns. Hjá þeirri jöfnun á mörgum sviðum getum við ekki komizt.

Hv. þm. S.-Þ. (JJ) hafði það á móti afgreiðslu frv. nú, að það hefðu verið mistök að setja launalög á Alþingi 1919 og við mættum ekki brenna okkur aftur á hinu sama. Hann sagði ekki, í hverju þau mistök hefðu verið fólgin. Ég held einmitt, að það hafi verið mjög heppilegt, að lögin voru samþ. 1919. Ég veit ekki, hvaða skaði varð að því. Þá var höfð sama aðferð og nú, að miða við grunnlaun og vísitöluuppbót, þó með ákaflega mörgum þröskuldum. Ég held, að ekki hafi liðið á löngu, þar til menn sáu, að ýmis laun höfðu verið ákveðin helzt til lág. Þessi grýla þm. þarf því alls ekki að hræða menn frá frv., eins og það er í aðaldráttum.

Það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um launagreiðslur símastúlkna t.d., sýnir glöggt, að ekki er hægt að una slíku lengur, þegar þær eiga að taka laun, sem reiknuð eru út eftir 14 mismunandi ákvæðum, og starfsmenn ríkisins eiga að taka laun eftir 77 mismunandi lagaákvæðum.

Um einstök atriði frv. sé ég ekki annað ráð en atkvæði skeri úr. Aðalatriðin eru föst fyrir því. Það er ekki eins og frv. sé borið fram í bráðræði. Alþingi hefur hvað eftir annað skorað á ríkisstj. að undirbúa launalög og leggja fyrir þingið. Nú er það ekki stjórnin, sem leggur frv. fyrir, heldur er þetta frv. gert með samkomulagi, sem er miklu sterkara en áður hefur fengizt. Mér finnst, eins og málið horfir, að óverjandi sé að afgreiða það ekki á þinginu.