15.06.1944
Neðri deild: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

77. mál, laun forseta Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég hafði ekki búizt við, að þessu frv. yrði hraðað svo mjög gegnum deildina, og því ekki gefið mér nægilegt tóm til að athuga málið eins og ég hefði viljað. Ég verð að láta í ljós, að ég er ekki alls kostar ánægður með frv. Mér skilst, að launakjör forseta verði nokkuð óákveðin og erfitt að sjá eftir ákvæðum 2. og 3. gr., hve mikla upphæð um verði að ræða, en þó allháa. Í 1. málsl. 1. gr. er gert ráð fyrir 50 þús. kr. grunnlaunum á ári með verðlagsuppbót samkv. lögum. Ég býst við, að það þýði, að verðlagsuppbót eigi að greiðast af 7800 kr. af þeirri fúlgu. Síðan kemur 30% uppbót á fyrstu 2400 kr. og þar næst 25% uppbót á það, sem þar er fyrir ofan, upp í 10 þús., og verðlagsuppbót greiðist af þessu eftir sömu reglu og af grunnlaunum. Skilst mér þá launin nema nálægt 68 þús. kr. En grunnlaun ráðherra eru 10 þús. kr., sem gera með núv. verðlagsuppbótum 28 eða 29 þús. kr., svo að forsetalaun yrðu samkv. 1. gr. meiri en tvenn ráðherralaun, þótt 2. og 3. gr. séu ekki teknar með í reikninginn. Mín skoðun er, að forseta eigi að launa sómasamlega, og það yrðu sómasamleg laun, þó að ögn væru lægri.

Það er mín skoðun, að það sé ekki nema rétt að búa virðulega og á allan hátt sómasamlega að forseta, sem verður æðsti maður þjóðarinnar, en ég held, að hið fátæka íslenzka ríki megi samt ekki reisa sér hurðarás um öxl í launagreiðslum. Þá er þess að minnast, að nú liggur fyrir endurskoðun launal., og það er skoðun mín, að þá muni koma í ljós, að við höfum spennt bogann of hátt í þessu falli, verði frv. samþ. óbreytt.

Nú er mér vel ljóst, að það er vandkvæðum bundið að breyta frv., en ég hygg þó, að á því séu full tök, þar sem þ. verður ekki frestað fyrr. en eftir helgi, og mun því bera fram lítils háttar brtt., sem er á þann veg, að í 1. gr. komi 30 þús. kr. í stað 50 þús. og að við 3. gr. bætist: eftir því sem ákveðið er í fjárl. — Það finnst mér viðkunnanlegt, að fjárl. kveði á um greiðslu risnufjár. Enda þótt þessar breyt. væru gerðar, mundi forseti samt sem áður hafa hálfönnur ráðherralaun, auk þess, sem önnur ákvæði ákveða og ég ætla ekki að meta til fjár. Ég vil svo afhenda forseta þessa skrifl. brtt. og mælast til þess, að hún fái að koma til umr. í hv. d.