31.01.1945
Neðri deild: 117. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (4680)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. fari til n. og verði athugað þar. í því sambandi langar mig til að benda hv. n. á nokkur atriði, sem mig langar til, að hún athugi sérstaklega.

Fyrst er hlutfallið á milli launa dýralækna og mannalækna. Þessir tveir flokkar manna þurfa að hafa nákvæmlega jafnlangan námsferil til undirbúnings starfi sínu. Svo koma dýralæknarnir í embætti, sem eru mjög misjöfn að aukatekjum. Mannalæknaembættin eru það líka. En ég held, að hver mannalæknir á landinu hafi á undanförnum árum haft töluvert meiri aukatekjur en þeir dýralæknar, sem minnst hafa haft. Dýralæknar eiga eftir þessu frv. að hafa 5400–7200 kr. á ári, og þeir eiga að starfa í heilum landsfjórðungi og hafa því stórt svæði að ferðast yfir. En mannalæknarnir hafa miklu hærri laun eða 60000–7800 kr. a.m.k. Og þeir hafa í aukatekjur um 20–60 þús. kr. á ári. Þá er ætlazt til þess, að mannalæknunum sé skapaður taxti til að selja verk sín eftir. En dýralæknunum er ekki skapaður neinn slíkur taxti. Ég bið n. að athuga þetta. — Ég slæ engu föstu um það, hvort dýraIæknar eigi að hækka í launum eða mannalæknar að lækka. En ég slæ því föstu, að í þessu er ekki samræmi. Og þetta þarf að athuga.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að skattstjóranum í Reykjavík, sem á hvíla einhver hin mestu ábyrgðarstörf, sem hvíla yfirleitt á opinberum starfsmanni hér á landi, — því að hann á að úrskurða skattana á ákaflega mikinn fjölda landsmanna og þ. á. m. ýmsa þá, sem hæstar tekjur hafa, og veltur því mikið á, að hann sé glöggur maður og ræki embætti sitt vel, — honum eru ætlaðar í laun 11100 kr. eða sams konar laun og sýslumönnum. En það er allt annað starf, sem hvílir á honum en sýslumönnum, og ábyrgðarmeira starf, sem miklu meira er undir komið, að vel sé rækt, en flest embætti, sem höfð eru í þessum flokki. Vegamálastjóri hefur t.d. hærri laun eftir frv. Hann hefur að vísu mikið starf með höndum, en það skiptir allt öðru máli fyrir ríkisheildina en skattstjórastarfið, og fyrir ríkisheildina er miklu meira komið undir skattstjórastarfinu en starfi vegamálastjóra.

Þá eru í þriðja lagi þeir starfsmenn, sem langverst eru launaðir af öllum starfsmönnum ríkisins, en þó hafðir utan við þetta frv., og það eru stöðvarstjórar við II. fl. stöðvar úti um allt land. Þeir verða að sitja á stöðinni í 5 klst. og oft R-7 klst. á dag, af því að ekki næst afgreiðsla á 5 tímum. Sumir þessara manna hafa nú í laun innan við 100 kr. á mánuði. Þessum flokki manna, sem er allfjölmennur, gengur frv. alveg fram hjá, eins og hann sé bara ekki til. En hvaða réttlæti er í því. úr því að verið er að samræma launakjör. að sleppa þessum hópi manna? Ég tel ekkert réttlæti í því á neinn hátt.

Þessi þrjú atriði vil ég biðja n. að athuga. Enn fremur vil ég biðja n. að athuga eitt atriði og spyrjast fyrir um, hvort hún sjái ekki ástæðu til að flytja þáltill. hér í hv. d. því viðkomandi. Hér á ég við það, að þegar búið er að hækka laun eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að gert verði, — og þó að það kynni nú ekki allt að verða samþ., — þá leiðir af því óhjákvæmilega, að ýmsar stofnanir, sem starfa fyrir opinbert fé. verða að hækka laun við starfsmenn sína, þó að þessir starfsmenn séu ekki teknir í frv. þetta, eins og það er. Ég á hér við héraðsskólana, gagnfræðaskólana, húsmæðraskólana, Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands o.s.frv. Við mjög lauslega athugun virðist mér, að það sé um liðuga hálfa millj. kr., sem þessar stofnanir samtals verða að hækka laun við starfsfólk sitt, eftir að launal. þessi hafa verið samþ. í einhverri mynd. En margar þessara stofnana eru þannig settar, að með styrk þeim, sem þeim nú er ætlaður frá ríkinu á fjárl., geta þær ekki haldið áfram starfi, heldur verður starf þeirra að stöðvast, ef þær eiga að hækka laun hjá starfsfólki sínu sem nemur launahækkuninni í þessu frv. yfirleitt. Það verður því að hækka starfstillag til þessara stofnana, og það þarf að athuga þegar á þessu þingi. Ég bið n. þá, sem væntanlega fær þetta frv. til athugunar, að athuga það, hvort ekki þurfi að flytja till. til þál. um að heimila ríkisstj. að hækka styrk til þessara skóla og stofnana, sem ég nefndi, og fleiri, svo að starf þeirra leggist ekki niður, heldur geti haldið áfram á sama hátt og verið hefur. Slík hækkun mundi verða afleiðing af þessum launal., og því er eðlilegt og sjálfsagt, að n., sem fær þetta frv. til athugunar, geri sér grein fyrir því, hversu hér þarf að hækka og hvaða till. þurfi að gera þar um.

Það er að vísu ýmislegt fleira, sem ég vildi gjarnan benda á. En ég þykist vita, að lögð sé áherzla á, að þetta frv. komist fljótt til n. Skal ég því ekki hafa um þetta fleiri orð. En þessi fjögur atriði, sem ég benti á, vona ég, að n. taki til athugunar og lagi það ósamræmi, sem mér virðist hér vera í sambandi við þau í þessu frv., og að öðru leyti skapi skilyrði til þess, að þær stofnanir, sem bani er búinn með þessari löggjöf, ef ekki er meira að gert, geti haldið áfram að starfa.