20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (4686)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Eins og hv. þdm. hafa vafalaust veitt athygli, þá hef ég skilað sérstöku áliti á þskj. 1142 og gert þar nokkra grein fyrir, hvernig á því stendur, að ég hef ekki getað fylgt meiri hl. hv. fjhn. varðandi væntanlega afgreiðslu þess frv., sem hér liggur fyrir. Ég þarf ekki að hafa mörg orð til viðbótar því, sem þar segir, en sé þó ástæðu til að víkja nokkru nánar að því, hvernig þessu máli er varið frá mínu sjónarmiði.

Hv. frsm. meiri hl. n. hefur gert grein fyrir brtt. fjhn. mjög ýtarlega, þeim brtt., sem hún flutti sameiginlega og allar hafa fengið meirihlutafylgi í hv. n., þótt um þær sé, sumar hverjar, nokkur ágreiningur milli nm., sem gerir að verkum, að þeir hafa um þær óbundnar hendur við atkvgr. Kemur það að sjálfsögðu fram við atkvgr., hvernig nm. skiptast varðandi þessar brtt., en allar eru þær bundnar við þann grundvöll, sem frv. er byggt á, og miða að því að gera gleggri skiptingu á milli og auka samræmið milli hinna einstöku manna og flokka. Við höfum ekki séð okkur fært, vegna þess að ekki liggja svo ljóst fyrir upplýsingar um tölu starfsmanna í einstökum greinum, að gera það hreinlega upp, hvort þessar brtt. í heild hafi í för með sér lækkun eða hækkun á frv., en ég hygg, að ekki sé fjarri sanni, að það vegi nokkuð salt. Það má vel vera, að ýmsar þessar till. mættu betur fara, og sjálfsagt hefur okkur ekki heppnazt að tína upp úr þessu frv. allt, sem þurfti lagfæringar við. Það hefur komið í ljós, að það er meiri eða minni óánægja hjá þessum eða hinum að vera ekki settur hærra eða jafnhátt og einhver annar maður eða annar flokkur. Út í þetta skal ég ekki fara miklu nánar, en víkja ofur lítið að sögu þessa launamáls á síðustu árum, því að hún sýnir mjög glöggt, hvernig að því hefur verið starfað, og það hefur ekki verið gert á þann hátt til undirbúnings þessu frv. eða þessari löggjöf, sem ég tel, að æskilegt hefði verið.

Þegar launal. voru sett árið 1919, var svipað ástatt og nú, því að þá hafði fyrri styrjöldin geisað og verðhækkun mjög mikil orðin í landinu. Það var þess vegna álit mjög margra manna, að þessi launal. væru miðuð við nokkuð hátt verðlag, en þrátt fyrir það að svo væri, þá kom nú í ljós innan fárra ára, þegar farið var að fjölga til mikilla muna stofnunum ríkisins og ýmiss konar starfrækslu, eins og átti sér stað einna mest á árunum 1927–1931, að þeim starfsmönnum, sem þá voru teknir, voru ætluð hærri laun hlutfallslega en eldri starfsmönnum, sem l. frá 1919 náðu til. Þegar kom fram í kreppuna á árunum 1930 til 1933, var það orðið mjög ljóst fyrir mönnum hér á Alþ. og víðs vegar um landið, að þetta ástand, sem þá var í launamálum okkar, var mjög óviðfelldið og gat illa staðið til lengdar.

Á haustþingi 1933 var samþ. að kjósa mþn. í launamálum, er undirbyggi allsherjar frv., ekki einungis um launakjör starfsmanna ríkisins og stofnana þess, heldur frv., sem fjallaði um skyldur og réttindi allra þeirra manna, sem væru í þjónustu hins opinbera. Þessi n. starfaði svo nokkuð á annað ár og skilaði allýtarlegu áliti, sem lagt var fyrir Alþ. seinni hluta ársins 1935, og var hæstv. núv. forseti þessarar hv. d. flm. þess frv., er lagt var fram. Frv. þetta var athugað allgaumgæfilega í sérstakri n. hér í hv. Nd., og átti ég með fleiri mönnum sæti í henni. N. starfaði nokkuð á annan mánuð og skilaði síðan áliti hér í d., en þetta endaði á þann veg, að þáv. ríkisstj. taldi frv. miða um of til hækkunar á ríkisútgjöldunum, svo að hún stöðvaði málið.

Á þessu frv., sem nú liggur fyrir, er allt annað snið. Í hitt frv. voru teknar allar ríkisstofnanir eða stofnanir, sem að meira eða minna leyti voru ríkisstofnanir, svo sem bankar og aðrar hliðstæðar stofnanir, eins og tilgangurinn var, að yrði í þessu frv., og laun ákveðin hjá starfsmönnum allra þessara stofnana, eins og ég tel, að rétt hafi verið. Í öðru lagi voru í frv. 1934 ýtarlegar till. í mjög mörgum gr. og köflum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og margt, er varðar þetta, mál, sem ég tel, að nauðsyn hafi verið, að fylgdi þeirri löggjöf, sem sett er um launakjör starfsmanna ríkisins.

Þetta fór nú svona. En það er athugandi, þegar menn líta yfir þetta frv., sem þótti allt of hátt á árunum 1935–1936, að það munar í flestum greinum þetta frá 30 jafnvel upp í 100%, sem grunnlaunin eru ákveðin hærri samkvæmt því frv., sem nú liggur fyrir, en samkv. frv., sem þá þótti allt of hátt. Það var svo, að í þeirri mþn., sem starfaði í þetta sinn (1934), voru fulltrúar bæði frá launastéttunum og framleiðendum, og það var álit manna, að þá kæmi fram ekki einungis sjónarmið launastéttanna sjálfra, heldur og annarra þeirra landsmanna, sem hafa landsins hag í huga.

Undirbúningur þessa frv., sem hér liggur fyrir, var á allt annan veg, og ég skal játa, að það var komið svo, þegar sá undirbúningur var hafinn, að ástandið var og er í raun og veru mjög illa viðunandi, vegna þess, hvernig til hagar um launakjör ýmissa starfsmanna. Ósamræmið í launamálum var mjög mikið, en ég er ekki viss um, að samræmið aukist mjög mikið, þegar allt kemur til alls, er það frv. verður samþ., sem hér liggur fyrir. Það samræmist að vísu nokkuð meir innan einstakra stofnana, en í heild sinni er að mínu áliti ekki nein vissa fyrir því, að svo verði. En undirbúningnum var hagað þannig, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. skipaði n. manna til að undirbúa þetta mál, og það voru allt saman fulltrúar frá launastéttunum sjálfum, en ekki fulltrúar frá neinum öðrum stéttum, hvorki framleiðslustéttum til sjávar né sveita. Þetta frv. er því byggt á kröfum launamanna sjálfra. Nú er það í raun og veru ekkert athugavert, þótt félagsskapur eins og BSRB eigi þátt í að undirbúa frv., það hefur kunnugleika á þessum málum, en þó álít ég, að undirbúningur þess hafi mistekizt.

Það hefur verið upplýst hér af hv. frsm. meiri hl. og hv. þm. V.-Húnv., að stór hópur fólks hefur verið skilinn eftir, póstafgreiðslu- og símafólk úti á landi, sem nú ríkir mikil óánægja á meðal, sem von er. Nú hefur það orðið að samkomulagi í fjhn. að reyna að lagfæra þetta með reglugerð, sem bætir að nokkru leyti úr þessu, en þó hefði verið æskilegra að taka þennan hóp starfsmanna inn í frv. sjálft.

Þá tel ég það og til galla með þær stofnanir, sem teknar voru burt úr frv. í Ed., og þar sem nú er komið að þinglokum og ekki hefur orðið samkomulag um að taka þær í frv. aftur, þá ætla ég tilgangslaust að koma nú með brtt. í þá átt. En það er óneitanlega mikill ókostur, að þessar stofnanir séu utan við frv. Þá er það og galli á þessu frv., að því skuli ekki fylgja reglur um réttindi og skyldur embættismanna.

Ég hef ekki flutt neinar brtt. við frv. af þeim ástæðum, að ég sé, að málinu er tryggður framgangur í aðalatriðum á þeim grundvelli, sem það er byggt, og yrði slíkt því aðeins til að tefja málið.

Viðvíkjandi till. hv. þm. V.-Húnv. þá tel ég hana rétta, en eigi svo vel undirbúna, að hún sé tímabær. Ég hef áður flutt till. um verðlagsskrá, sem hægt væri að byggja á í þessum málum. — Þá hafa komið fram till. um að taka eina vöru, t.d. fisk, og miða launin við verðlagsgildi hennar, og er það eðlilegri leið en sú, sem ríkt hefur á þessum tímum. Nú er þetta reiknað út mánaðarlega eftir reglum, sem ég álít mjög misheppnaðar, og hygg ég, að ekki verði hjá því komizt á næsta þingi að athuga þær reglur nánar.

Ég mun svo við atkvgr. segja til um, hvaða brtt. ég get fylgt, en ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með frv. í heild.