20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (4692)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Helgi Jónasson:

Ég sé heldur þunnskipaða bekki, enda ætlaði ég ekki að hafa mörg orð, en mig furðar, hve áhugi hv. þm. er lítill, þegar afgreidd eru hér stórmál, því að stórmál er þetta, hvernig sem á það er litið.

Ég get vel tekið undir með þeim mönnum, sem halda því fram, að nauðsynlegt sé að endurskoða launal. Við vitum, að þau eru sett 1919, og síðan hafa þau aldrei verið endurskoðuð í heild, svo að það hefur orðið fullkomið ósamræmi og misræmi, sem starfsmenn ríkisins hafa átt við að búa í þessum efnum. Enn fremur vitum við, að stofnlaun að kalla hvers embættis, sem stofnað hefur verið af ríkissjóði eftir þann tíma, voru sett miklu hærri en í launal., og af því skapast vitanlega ákaflega mikið ósamræmi milli einstakra starfsmanna ríkisins. Það var líka vitað, að ýmsar stéttir þjóðfélagsins, sérstaklega þær, sem áttu að vinna úti á landsbyggðunum, voru mjög lágt og illa launaðar. Um þetta held ég, að allir geti verið sammála, og um það, að nauðsynlegt hafi verið að endurskoða launal., enda er það svo, að það hefur oft verið reynt síðan. 1934 var skipuð n. til að endurskoða l., og skilaði hún ýtarlegu áliti, sem því miður var aldrei tekið til meðferðar á hv. Alþingi.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er ekki í sjálfu sér margt að segja, en þegar það er athugað, sést, að talað er um skyldur ríkisins við starfsmenn sína, en aftur á móti er ekkert um það, hvaða skyldur starfsmenn ríkisins eigi að inna af höndum fyrir þau laun, sem þeir taka samkv. þessum l., og tel ég það mjög miður farið. — Frv. það, sem hér var lagt fyrir af mþn., var að mínum dómi að ýmsu leyti betra en þetta frv. hefur orðið hér í meðferð Alþ., því að í því frv. voru ýmsar þær stofnanir, sem ég tel hiklaust, að eigi að vera, þegar launal. eru sett. Það eru bankarnir, Tryggingastofnun ríkisins, Búnaðarfélagið og ýmsar fleiri stofnanir. Þó að þær séu ekki beint ríkisstofnanir, þá eru þær það að nokkru leyti, og þær eiga að heyra undir sama starfslaunakerfi og stofnanir ríkisins, því að þessar stofnanir munu, þegar fram í sækir, auka á það ósamræmi, sem nú er verið að reyna að lagfæra. Mér þykir ákaflega undarlegt, að Ed. skyldi fella þetta úr frv.

Ég skal nú ekki fara neitt út í hinar einstöku greinar þessa frv., því að ég býst við, að það hafi ekki mikið að segja, þó að menn vilji koma hér með einhverjar brtt., því að þetta frv. til l. er eitt af samningsmálunum í málefnasamningi stjórnarflokkanna frá s.l. hausti og á að afgreiða á þessu þingi. Ég býst því ekki við, að það þýði nokkuð fyrir þá menn, sem óánægðir eru, að koma með brtt., svo að nokkru nemi, til lagfæringar.

Ég tel þá menn mjög bjartsýna, sem álíta, að fært sé nú, eins og ástandið er, að afgreiða slík l., sem hér er gert ráð fyrir, l., sem auka útgjöld ríkissjóðs um einar 7 til 8 millj. kr. Það hefur aldrei fengizt upplýst hjá þeim mönnum, sérstaklega í Ed., sem höfðu málið lengi til meðferðar, hve miklu næmu þau útgjöld, sem l. þessi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Mér finnst ákaflega undarlegt. þar sem frv. er búið að liggja hér í nokkra mánuði, að ekki skuli vera hægt að fá vissu fyrir því. Það eru mjög skiptar skoðanir um það, sumir segja 41/2 millj., aðrir 6 millj., sumir 7 millj., og enn aðrir fara upp í 8 millj. kr. Hvað rétt er, skal ég ekki dæma um, en ég býst við, að það sé aldrei undir 7–8 millj. kr., sem hækkunin nemur. Er þetta töluverð viðbót við þau rekstrarútgjöld, sem ríkissjóður á að inna af hendi, því að þau eru býsna há fyrir, — eru orðin um 70 millj. kr. á núgildandi fjárl., og ef 7–8 millj. koma til viðbótar, er það álitleg fúlga, sem ríkissjóður á á sínum árlega rekstri. Ég tel nokkuð djarft stefnt með þessu frv., eins og útlitið er nú.

Árið 1943, þegar reiknaðar voru út árlegar tekjur verkamanna og bænda, þá áleit sú n., og það hefur ekki verið vefengt með neinum rökum, að meðaltekjur bænda það ár væru 14500 kr., og þó er það vitanlegt, að bændur fengu aldrei það verð, sem ákveðið var, og sumir ekki einu sinni hálft verð af því, sem sex manna n. hafði gert ráð fyrir. Meðaltekjur bænda voru því töluvert lægri en n. hafði gert ráð fyrir, og ég er þess fullviss, að þær hafa ekki hækkað síðan, frekar á hinn veginn, að þær hafi lækkað. Mér þykir dálítið hart, að bændur og konur þeirra. sem vinna ekki aðeins átta eða tíu tíma á dag, heldur tólf tíma að meðaltali og jafnvel kannske lengur, skuli ekki fá eins hátt kaup og fólk, sem vinnur hér í skrifstofu og hefur engu þurft að kosta til náms eða að minnsta kosti ekki meira en bændur. — Um verkamenn er alveg sömu sögu að segja. Það var upplýst, að þeir mundu fá í árslaun, þ.e.a.s. grunnlaun, eitthvað um 5000 kr. með átta stunda vinnu, og það er ekki eins hátt kaup og lægst launuðu flokkarnir fá hjá ríkinu eftir frv., eins og það er nú úr garði gert. Það hlýtur að reka að því, að ný kauphækkunaralda fari af stað, þegar þetta er orðið að l. Það er vitanlegt, að þegar er þetta er orðið að l., koma fram hækkanir hjá bæjar- og sveitarfélögum, í allri þeirra stjórn og hjá öllum mönnum, sem hjá þeim vinna, og hjá öllum verzlunarfyrirtækjum í landinu, því að það hefur alltaf verið og er svo enn, að mjög er svipað um launakjör hjá verzlunarfyrirtækjum og ríkis- og bæjarfélögum. Þetta hlýtur allt að koma fram, um leið og l. verða samþykkt. Ég er anzi hræddur um, að verkamenn láti ekki heldur á sér standa, þegar fram í sækir, að heimta tilsvarandi hækkanir, og ég tel það alveg eðlilegt, að verkamenn, sem stunda átta stunda erfiðisvinnu á dag, telji sig eiga heimtingu á sama kaupi og skrifstofupiltar eða stúlkur, sem vinna fimm eða sex tíma á dag.

Það er sem sé ekkert tekið fram í þessu frv. um skyldur starfsmanna, hvorki vinnutímann né hvaða kröfur gerðar séu til að geta leyst starfið af hendi, og er það mjög miður farið.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta frv., en ég lýsi yfir því, að enda þótt ég hafi talið endurskoðun launal. alveg nauðsynlega, tel ég mér ekki fært að ljá þessu frv. atkv. mitt, ef það verður samþ. eins og það liggur fyrir nú og með þeim breyt., sem meiri hl. fjhn. hefur á því gert. Þó er það svo, að ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Snæf. að koma fram með tvær brtt. til þess að reyna að leiðrétta það, sem mér fannst helzt ábótavant. Er þær að finna á þskj. 1149. Önnur þeirra er við 11. gr., 4. málsgr., og er þar farið fram á. að við þá gr. verði bætt aðstoðarhéraðslæknum. Fór ég fram á við n., hvort ekki væri hægt að fá annað form á þetta en hér er gert ráð fyrir, því að það er mjög hæpið að fá menn í þessar stöður, ef þær eru ekki teknar inn í launal. Varð að samkomulagi, að ég skyldi taka till. þessa aftur til 3. umr., og mun ég gera það.

Hin till. á sama þskj. er við 37. gr., síðustu málsgrein. Þar stendur m.a.: „Í gjaldskrá héraðslækna skal setja sérstök ákvæði um afslátt, þegar sjúkrasamlög annast um greiðslu“. — Ég vil leyfa mér að óska eftir, að þessi mgr. falli niður. Ég skil satt að segja ekki, hvernig á því stendur, að héraðslæknar eru settir skör lægra en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Oft hefur komið fram, að þeir hafa verið settir sem 2. flokks menn, og nú er því haldið áfram og ákveðið að setja í l., að þeir skuli veita afslátt af gjöldum fyrir sín störf, sem eru ákveðin samkv. gjaldskrá frá heilbrigðisstjórn, og læknar hafa engin ítök um, hvernig sú gjaldskrá er samin. Ég skal taka fram, að ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt fyrir lækna að veita sjúkrasamlögum einhvern afslátt, en ég vil bara ekki láta setja það inn í l. Það eiga að vera frjálsir samningar milli sjúkrasamlaganna og hvers sérstaks læknis. Þannig hefur það verið, og þannig á það að vera, og þannig hlýtur það að vera. Og læknar munu alls ekki una við, að þeir einir séu skyldaðir með l. til þess að gefa ýmsum stofnunum vissan afslátt. Ég veit ekki, hvað ýmsar aðrar stéttir mundu segja, ef slík ákvæði væru sett í l., að þær væru skyldaðar til þess að veita vissum fyrirtækjum eða stofnunum afslátt á því kaupi, sem ákveðið hefur verið áður. Ég vænti þess því fastlega, að þessi brtt. okkar hv. þm. Snæf. verði samþ., því að læknar munu una mjög illa við, ef þeir einir eiga að heyra undir þessi l. þannig, að gert sé að lagaskyldu, að þeir verði endilega að vinna kauplaust fyrir vissar stofnanir. Hér er farið fram á að veita afslátt, en alls ekki talað um, hve háan, það á bara heilbrigðisstj. að ákveða. Ég býst við, að ýmsum öðrum starfsmönnum ríkisins þætti undarlegt, ef setja ætti slík ákvæði um launakjör þeirra.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vona, að þessar brtt. verði samþ., því að annars munu læknar mjög illa við una.