20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (4693)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Við að hlusta á þær ræður, sem fram hafa farið um þetta mál, má segja, að niðurstaðan verði sú, að það sannist hið fornkveðna, að allt orkar tvímælis. Þeir menn, sem sérstaklega hafa áhyggjur af samþykkt frv., — og þeir munu nú vera raunar fleiri en þeir, sem beinlínis leggjast á móti málinu, — munu hafa áhyggjur að ýmsu leyti af því, að þetta spor er stigið, ef stigið verður. Hins vegar verður þeirri staðreynd ekki neitað, að á undanförnum árum hafa sumar launastéttir í þjóðfélaginu búið við skarðari hlut en eðlilegt hefði verið, og sú hugsun, sem liggur á bak við þá endurskoðun launal., sem hér hefur átt að fara fram, hefur vissulega verið sú, að þörf væri á breyt. á ýmsum sviðum, að því er varðar laun opinberra starfsmanna. Hitt er svo að sjálfsögðu nokkuð mikill ókostur á því frv., sem hér liggur fyrir, að áhrif einstakra stétta í þjóðfélaginu á undirbúning málsins hafa gert að verkum, að segja má ef til vill í ýmsum tilfellum, að úr einum öfgunum sé farið í aðrar, — þeim öfgum, að ýmsar stéttir hafa borið of lítið úr býtum, sé breytt í það, að nú sé þeim fyrirhugað betra hlutskipti en þjóðin hefur í raun og veru ráð á. Því er það, að samþykkt þessa máls, eins og það liggur fyrir, og sennilega breytist það ekki mikið úr þessu, hlýtur að orka mjög tvímælis. Og vissulega má segja með nokkrum rétti — og þó ef til vill með mestum rétti —, að þessir borgarar þjóðfélagsins; sem heita opinberir starfsmenn, eigi kröfu á launum í nokkru hlutfalli við afkomu atvinnuvega landsins og við afkomu almennings yfirleitt. Það leiðir líka af sjálfu sér, að þetta hlýtur að verða niðurstaðan, þegar til lengdar lætur, því að ekkert þjóðfélag getur staðizt við það að borga jafnstórum hóp manna og opinberir starfsmenn eru í hinu íslenzka þjóðfélagi miklu hærra kaup en vit er í og staðið verður undir af þeim, sem annast rekstur atvinnunnar í þjóðfélaginu, en það eru verkamenn, sjómenn og þeir, sem fyrir atvinnufyrirtækjunum standa, að ógleymdum bændum landsins.

Hitt er svo annað mál, hvort vegna þessarar afgreiðslu, sem á frv. er, ber að forkasta því algerlega. Það má um það segja, að mjög orki tvímælis, að jafnvægis sé gætt með þessa starfsmenn, sem hér er verið að ræða um. En það hygg ég, að orki mest tvímælis, hvort eftir slíku jafnvægi sé leitað við þessa lagasetningu.

Ég skal svo ekki hafa þessar almennu aths. fleiri, en í sambandi við það, sem ég sagði hér síðast, vildi ég leyfa mér að benda á, að 17. brtt. fjhn. á þskj. 1136, við 22. gr., sem fjallar um starfsmenn pósts og síma, er að minni hyggju þannig orðuð og þannig frá henni gengið, að ég vildi mælast til þess við n., að hún væri tekin til athugunar til 3. umr. að nýju. Mér finnst þar gerður nokkuð mikill munur á símstöðvarstjórum víðs vegar um landið, og verður þá hver og einn að athuga það, sem honum er næst. Ætla ég, að mér verði fyrirgefið, þó að ég minnist á það, að símastjórinn í Vestmannaeyjum er að mínum dómi ófyrirsynju settur skör lægra en símastjórinn á Akureyri, Siglufirði, Ísafirði og Seyðisfirði. Þeir eru að vísu kallaðir umdæmisstjórar, en þá er þess að gæta, hvað það er, sem eykur svo mjög störf þeirra í sambandi við þessi umdæmi. Það er það, að þeir taka við reikningum símastöðva í sínu umdæmi, athuga þá og senda þá til landssímastjóra eða aðalstöðvarinnar í Reykjavík. En þó að þetta kunni að vera nokkuð mikið verk, t.d. á Seyðisfirði og Ísafirði, þá ætla ég, að starf símastjórans í Vestmannaeyjum sé ekki minna, þar sem er jafnmikil útgerð og afgreiðsla fyrir báta og þar er, og enn fremur loftskeytastöð. Ég hygg því, að starf símstöðvarstjórans í Vestmannaeyjum jafnist á við störf þeirra simastjóra, sem hafa umdæmisstjórastörfin á hendi. Hér er um að ræða verstöð í kaupstað, sem er einhver mesta framleiðslustöð hér á landi. Það munu hafa farið þaðan á s.l. ári um 170 fiskfarmar til útlanda, og það leiðir af sér ákaflega mikið starf á simastöðinni. Í Vestmannaeyjum eru um fimm þús. manns á vetrarvertíð og fjöldi aðkomumanna, og eykur það ekki lítið störfin í símastöðinni. Ég ætla því, að það væri meira jafnvægi milli þessara manna, ef símastjórinn í Vestmannaeyjum væri settur jafnhliða öðrum símastjórum austanlands. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég vona, að n. muni athuga þetta mál milli umr.

Þá hef ég leyft mér að flytja eina brtt. Hún er á þskj. 1155 og varðar rafmagnseftirlit ríkisins. Forstöðumaður þess er settur í 11100 kr. laun, en mér skilst, að húsameistari ríkisins, vitamálastjóri og vegamálastjóri eigi að hafa 13 þús. kr. laun. Ég vil ekki gera upp á milli þessara manna, en vil benda á það, að rafmagnseftirlit ríkisins er að verða og verður í framtíðinni engu þýðingarminni stofnun en t.d. vegamálaskrifstofan og vitamálaskrifstofan. Nú er að komast á fót svo mikið af rafvirkjunum af öllu tagi, að það gefur auga leið, hversu nauðsynlegt það er, að þessi skrifstofa og forstöðumaður hennar hafi aðstöðu til að geta gefið ýtarlegar og hagkvæmar leiðbeiningar viðvíkjandi hvers konar rafvirkjunum víðs vegar um landið, því að flestir, sem eru leikmenn í þessum efnum, eru alls ókunnugir því, hvernig koma á upp stórum rafvirkjunum. Það er því mjög mikilsvert, að ríkið hafi til leiðbeiningar í þessum efnum yfir að ráða beztu kröftum. — Nú veit ég ekki betur en núverandi forstöðumaður rafmagnseftirlitsins sé talinn mjög vel fær maður á sínu sviði. Og eitt er víst, og það vita allir hv. þm., að ekkert mál, sem snertir rafveitur og kemur fyrir Alþ., er afgr., án þess að rafmagnseftirlitið hafi lagt þar til málanna sitt álit, og án meðmæla þess, hygg ég, að ekkert slíkt mál næði framgangi hér á Alþ. Það er enn fremur stórkostlega þýðingarmikið, að þessi opinbera stofnun hafi yfir starfskröftum að ráða, sem geti verið fullnægjandi, þegar ráðizt er í rafvirkjanir, svo að bæjarfélög þurfi ekki að snúa sér til einstakra verkfræðinga í þessum efnum, vegna þess að þeir hafi yfir betri þekkingu að ráða en ríkið sjálft. — Af öllum þessum ástæðum hef ég leyft mér að bera fram í sambandi við þetta mál á sama þskj. brtt. um, að verkfræðingar við rafmagnseftirlitið séu launaðir sómasamlega.

Nú er það svo, að forstöðumaður rafmagnseftirlitsins hefur um langan tíma átt talsvert undir högg að sækja um að fá sér nauðsynlega verkfræðilega aðstoð. En hvers vegna? Vegna þess, að þeir verkfræðingar, sem hægt er að ná til, eru betur launaðir annars staðar. En allir sjá, að mjög er þýðingarmikið, að verkfræðimenntun og þekking í þessum efnum sé fullkomin hjá rafmagnseftirlitinu, og það svo, að ekki sé hægt að segja, að nauðsynlegt sé að leita út fyrir vébönd þess til að fá leiðbeiningar verkfræðilegs eðlis, er snerta rafvirkjanir. Annars hefur þessi stofnun, svo mjög sem hún hefur haft þörf fyrir ákaflega mikla starfskrafta, hingað til haft yfir litlum starfskröftum að ráða saman borið við það, sem af henni er krafizt við athuganir, útreikninga, mælingar og leiðbeiningar og allt, er nöfnum tjáir að nefna og varðar þessi mál. Það er alveg áreiðanlegt, að rafmagnseftirlitið hlýtur að verða að færa út verksvið sitt nú þegar og enn meir í framtíðinni til þess. að geta fullnægt eftirspurninni eftir teknískum ráðleggingum og athugunum við fyrirhugaðar rafvirkjanir, því að það ríður þjóðinni á miklu, að rétt sé að staðið við hverja rafvirkjun frá upphafi. Öll mistök í því efni verða ákaflega dýr, og það er ekki hyggilegt af stj. að skera mjög við neglur sér þann kostnað við stórvirkjanir, sem lýtur að þessari gr. — Ég hef ekki beinlínis rætt um þetta við nm. í fjhn., en það eru vinsamleg tilmæli mín til n., að þessu máli sé tekið vinsamlega. Ég þykist mega gera ráð fyrir því fyrir fram, að þær till., sem ég ber fram, fái velviljaða athugun. Ég vil taka það fram. að hér er ekki farið í mannjöfnuð við þá starfsmenn ríkisins, sem ég minntist á, heldur aðeins bent á það, að við hliðina á vitamálum og vegamálum eru rafmagnsmálin að verða ekki aðeins jafnþýðingarmikil, heldur ef til vill þýðingarmest allra mála í þessu þjóðfélagi. Ég vil þess vegna treysta réttum undirtektum n. og lýsi yfir, að ég óska þess, að þessi till. verði tekin aftur til 3. umr. málsins, og er það gert í fullu trausti þess, að n. taki til athugunar þær ábendingar, sem fram koma bæði í till. sjálfri og í þeim orðum, er ég hef leyft mér að viðhafa um hana.