20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (4695)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vildi aðeins leyfa mér að vekja athygli n. á því, að ég hygg, að það sé á misskilningi byggt, sem lagt er til af hennar hálfu um breyt. á 3. gr. og kemur fram í 3. brtt. n. á þskj. 1136, brtt. 3, b-lið. Ég hef átt tal um þetta við form. n. og vænti þess, að n. sjái sér fært að taka þá brtt. aftur til 3. umr. í því trausti, að hún verði þá ekki borin fram, ef þetta mál horfir við, eins og ég hygg, að raun sé á.

Einnig hef ég hugsað mér að fara fram á smábreyt. við brtt. n. varðandi launakjör eins af starfsmönnum ríkisins, sem mér skilst, að n. hafi tekið nokkuð hörðum tökum miðað við það, sem Ed. gerði. Á ég þar við skipulagsstjóra ríkisins. Ég hef ákveðið að bera ekki fram brtt. við þessa umr. í trausti þess, að n. athugi málið milli umr., ef ske kynni, að hún flytti brtt. sjálf. En ef hún flytti ekki brtt., mundi ég gera það.

Ég sé ekki ástæðu til þess, enda þótt nokkur rök mættu að því hníga, að lengja umr. um málið, þótt mikilsvert sé. Ég tel þó rétt að geta þess, að ég tel útfærslu þingsins varðandi launal. hafa farið langt út fyrir þau takmörk, sem ég taldi mig bundinn af í samningum þeim, sem leiddu til stjórnarmyndunar. Ég hef hins vegar ekki séð ástæðu til að eiga frumkvæði að því að bera fram brtt., hvorki við afgr. Ed. á málinu né heldur við þá afgr., sem kemur fram eftir meðferð fjhn. Nd. Ég viðurkenni það að vísu, að mér er ljóst, að með þessum nýju launal. er nýr og þungur baggi lagður á ríkissjóð, og það verður náttúrlega framtíðin ein, sem sker úr því, hvort ríkissjóður reynist þess megnugur að rísa undir þeim byrðum. Hinu mælir enginn gegn, að launakjör starfsmanna ríkisins, eins og þau eru nú, eru með öllu óviðunandi, þótt ekki væri vegna annars en þess ósamræmis, sem þar ríkir. En við það bætist svo, að starfsmenn ríkisins búa við miklu lélegri kjör en aðrir þegnar þessa þjóðfélags, og mér er nær að ætla, að í ljós muni koma, — væri það mál gerkannað og enda þótt launal. yrðu afgr. í svipuðu formi og fjhn. þessarar d. hefur lagt til, — að það mundi vera staðreynd, að eftir þessa nýju lagasetningu launaði ríkið sínum mönnum verr en flestir aðrir atvinnurekendur í landinu. Ég neita því ekki, að ég er á nokkuð annarri skoðun um skiptingu milli flokka en fram hefur komið bæði hjá Ed. og fjhn. þessarar d., en ekki svo verulega, að ég hafi séð ástæðu til að gera um það sérstakar till., því að það verður sjálfsagt lengst af svo, að hvenær sem launal. verða afgr., þá mundu menn deila um það, hvað skammta eigi hverjum. Enda þótt ég telji, að ég sem sá maður, er stóð að stjórnarmynduninni, verði að taka minn hluta af ábyrgðinni á setningu þessarar löggjafar, þá lít ég þó ekki á þá ábyrgð og þá skyldu, sem hún leggur mér á herðar, þannig, að launal. öll, í einstökum atriðum, þurfi að verða eins og ég hefði talið réttlátt eða eðlilegt. Ég hef þess vegna — með hliðsjón af því, sem ég hef nú tekið fram, um leið og ég vil undirstrika það, að ég tel launal. hafa farið út fyrir þann ramma, sem ég taldi mig bundinn við í samningunum um stjórnarsamvinnu, — ákveðið fyrir mitt leyti að gera við þau engar brtt. í stærri stíl, þó að ég áskilji mér rétt til að bera fram einstakar smábrtt. við 3. umr., ef mér þykir það við eiga. Ég held, að ég megi segja það fyrir hönd okkar allra í stj., að málefnalega sé það sjónarmið stj. að taka við launal. eins og þau liggja nú fyrir eða í svipuðu formi og eiga ekki frumkvæði að verulegum breyt.