20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (4697)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við þessa þáltill., þess efnis, að í stað þess, að þingi verði frestað frá 20. júní, þá verði því frestað frá 22. júní, sem sé að þing standi tveimur dögum lengur nú.

Ég kem ekki með þessa till. af því, að það sé út af fyrir sig svo skemmtilegt að sitja hér lengur, eins og sakir standa, en ég held þó, ef þessi brtt. verður samþ., að hægt sé á þessum tveimur dögum að fá skorið úr máli, sem þingið má ekki skiljast við, eins og sakir standa.

Við þm. Sósfl. höfum nú að undanförnu einhuga unnið með öðrum flokkum þingsins að því að koma sjálfstæðismálinu í höfn. Við höfum ekki viljað bera fram vantraust á hæstv. ríkisstj. né láta koma til úrskurðar, hvernig afstaða þingsins til hennar er, meðan svo mikið var komið undir samheldni og einingu allra við að leysa hið mikla mál. Og meðan hæstv. stj. var „loyal“ í því máli, vildi Sósfl. standa með henni að lausn þess. En þegar sjálfstæðismálið er komið í höfn, álítum við rétt að fá úr því skorið, hver afstaða þingsins er. Og af því að þetta mál hefur þegar verið kannað nokkuð, þá mundi ekki þurfa mikinn tíma til að fá úr því skorið og líklegt, að þessir tveir dagar mundu nægja til þess.

Ef þessi brtt. yrði samþ. og þingi ekki frestað fyrr en á fimmtudag, mundi verða borið fram vantraust á núv. hæstv. ríkisstj. og síðan gerð tilraun til að skapa athafnasama ríkisstj. í stað þessarar, sem virðist nú ætla að gera það að sínu máli að lækka kaup verkalýðsins og notar tækifærið til að lýsa yfir því á fyrsta degi lýðveldisins og lætur jafnvel forsetann gera það. Ég vil nota þessa tvo daga til að athuga, hvort ekki sé hægt að skapa stj., sem hefur traust þingsins.

Ég hef ekki þessi orð fleiri að þessu sinni, því ég hef ekki hugsað mér að tefja þingmeirihlutann með neinum málalengingum, ef hann hefur ákveðið að fresta þingi nú þegar.