23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (4708)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki kvatt mér hljóðs um þetta frv. fyrr en nú. Um það hefur staðið nokkum styr. En nauðsyn málsins er flestum ljós, svo mikið ósamræmi sem orðið var í þessum efnum. Endurskoðunin mátti ekki dragast. Ég vil engan dóm leggja á, hvernig þessi endurskoðun hefur farið úr hendi. Mér er ljóst, að hér er mikið vandamál á ferðinni, þar sem er þetta frv. Það, sem mér virðist einkum áberandi, er það, hve matið á embættum er ólíkt, jafnvel svo að ég efast um, að nokkrir tveir menn séu sammála hér á hv. Alþ. Ég hef viljað láta koma fram skoðun mína að nokkru á því ósamræmi, sem ég tel, að sé í málinu, eins og það liggur fyrir. Mér er fullkomlega ljóst, að þær fáu tilraunir, sem ég hef gert hér við þessa umr. til þess að fá lagfært ýmiss konar ósamræmi í frv., eru ekki nema brot af því, sem gera þyrfti til leiðréttingar á því. En eins og ég sagði áður, er mat manna svo ólíkt á embættunum og gildi þeirra, að seint mun öllum líka. Ég vil taka það fram strax, að ég vil ekki á nokkurn hátt líta á það, hverjir skipa embættin nú, heldur hve þýðingarmikil embættin eru fyrir þjóðfélagið. Ég vildi hafa þennan stutta inngang, áður en ég færi að ræða um þær brtt., sem ég hef gerzt flm. að, og hvað það er, sem fyrir mér vakir, þegar ég geri till. til breyt. á frv.

Ég ætla þá fyrst að gera að umtalsefni till. mína á þskj. 1189. Hún fjallar um skipaskoðunarmenn. Það er gert ráð fyrir því, að skipaskoðunarstjóri hafi í laun 10200 kr. á ári. Samkvæmt þeim reglum. sem nú er farið eftir, mun þessi embættismaður vera við sama borð og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu og álíka embættismenn, sem voru á þeim launum. Ég hef því talið rétt, að hann yrði látinn fylgja sömu hlutföllum og áður, en eins og kunnugt er, hafa laun þessara skrifstofustjóra nú verið ákveðin 12 þús. kr. á ári samkv. frv. Nú má ef til vill segja, að mat manna á þessum embættum sé þannig, að þeir telji þennan mismun eðlilegan. Fyrir mér horfir málið öðruvísi við. Það embætti, sem þessi maður gegnir, sem ég ræði hér um, er það, að hann á að vera æðsti vörður öryggis sjófarenda í landinu. Það mun láta nærri, að sjómannastéttin, þegar hún er fjölmennust, sé skipuð um 7 þús. mönnum. Það er ágizkunartala, að það séu milli 20 og 30 þús. Íslendingar, sem ferðast á skipum með ströndum fram eða milli landa. Ég vil endurtaka það, að þetta er ágizkunartala. Þær fleytur, sem allur þessi fjöldi ferðast á eða vinnur á, eru undir árvekni og eftirliti þessa embættismanns, og frá mínu sjónarmiði er það svo, að ég álít. að þetta sé eitt með meiri og mikilvægari embættum í landinu.

Hv. þm. hafa nú fengið útbýtt hér frv. til l., sem samið er af mþn., sem þingið 1944 ákvað að setja á stofn til að endurskoða l. um eftirlit með öryggi skipa. Eitt af því, sem þessi n. lagði áherzlu á, var það, að þessi embættismaður yrði svo vel launaður, að hann þyrfti engum öðrum störfum að gegna. Svo þýðingarmikið telur n. starf þessa manns, og hún hefur gert till. um, að hann yrði settur á borð með skrifstofustjórum í stjórnarráðinu. Eins og nú er háttað, þá hefur það viðgengizt, að þessi maður taki aukastörf með samþykki ráðh., og hann hefur fram að þessu gert töluvert að því að hafa aukastörf með höndum, sem miða að því að veikja traust á honum sem embættismanni. Hann hefur með öðrum orðum gerzt einkaumboðsmaður ákveðins útgerðarfélags um eftirlit með skipum, í stað þess, að hann á að vera nokkurs konar lögreglustjóri. Sjómannastéttin, jafnt undirmenn sem yfirmenn. hafa mótmælt þessu og talið skaðlegt, að þetta væri látið viðgangast, að slík aukastörf sem þessi væru falin þessum embættismanni, og þar af leiðandi þyrftu laun hans að vera svo há, að hann þyrfti ekki að lifa á bónbjörgum í starfi sínu. Ég játa það, að Alþ. gefst kostur á, um leið og þetta frv., sem ég hef minnzt á, er til umr., að ákveða laun þessa manns, en ég vil leggja til, að það sé gert nú þegar, svo að ráðh. geti með góðri samvizku neitað um þau aukastörf, sem þessi embættismaður hefur nú með höndum, svo að hann geti gefið sig óskiptan að eftirlitinu með ísl. skipum og aðbúð þeirra, er á þeim eru. Þetta vildi ég hafa sagt um þessa till. Ég hef að vísu gert hér aðra till., með því að mér virðist nú sá andi hafa komið fram í umr. um þetta mál, og mér virðist jafnvel, að fjhn., sem mestu ræður hér um, hvað ofan á verður hér í þessari hv. d., að hún sé ef til vill nokkuð treg til að hækka laun vissra starfsmanna, þó að við óbreyttir liðsmenn lítum svo á, að það bæri að gera. Sem sagt, eins og ég sagði í upphafi: Þessa till. flyt ég sumpart af „prinsip“-ástæðum og sumpart vegna þess að ég tel rétt og skylt, að þessi starfsmaður sé í þessum launaflokki.

Ég skaut því að sessunaut mínum, sem er form. fjhn., að hér væri sennilega misskilningur á ferðinni, þar sem við 2. umr. hefði staðið: „skipaskoðunarmenn“, — og að n. hafi gert till. um að hækka þessa menn. Hér væri átt við aðra menn, sem ég skal síðar greina frá, en skipaskoðunarmenn skv. gildandi l. skipta mörgum tugum í landinu. Ég man ekki, hve margir þeir eru, en þeir eru launaðir á allt annan hátt skv. núgildandi l., því að þeir hafa ákveðin laun fyrir hvert skip og eru launaðir af skipaskoðunarnefnd, en ekki ríkinu. Mér virðist svo, að í þessu tilfelli fái fáir menn þessa hækkun, sem þar var gert ráð fyrir, en ég hygg, að hv. þm. hafi þá hugmynd, að þetta eigi við tugi manna, en ekki svo fáa sem það er í raun og veru. Þessir menn, sem þetta getur átt við, eru þeir, sem starfað hafa hér í Reykjavík við skipaeftirlit. Það eru með öðrum orðum tveir menn, sem í skipunarbréfinu eru nefndir aðstoðarmenn skipaskoðunarstjóra. Annar þeirra hefur um nokkurra ára skeið verið í þjónustu ríkisins, en hinn er kominn í starfið fyrir atbeina sjómannastéttarinnar til öryggis eftirliti með skipum, sem sigla hér úr höfn til útlanda. Nú er mér kunnugt um, að þessir menn hafa unnið starf sitt af hinni mestu trúmennsku, og ég hef ekki heyrt einn einasta sjómann efast um hæfileika þeirra né trúmennsku í starfi sínu. Í frv., eins og það nú er, eru þessir menn settir á lægri laun en lögregluþjónar í Rvík. Þetta eru sannkallaðir löggæzlumenn, sem hafa verulegt ábyrgðarstarf með höndum, og reynslan hefur sýnt, að þeir eiga mjög óhægt um vik að komast í nokkur aukastörf, vegna þess hve starfið er umfangsmikið. Hitt hef ég orðið var við, að báðir þessir menn urðu að nota sumarleyfið til að afla sér meiri tekna til þess að geta lifað sómasamlega, því að grunnlaun þeirra eru nú 4800 kr. Að vísu hafa þau hækkað skv. þessu frv., en ekki nægilega að mínum dómi. Þeir urðu að taka þann kostinn, því að báðir eru reyndir skipstjórar á góðum aldri, að ráða sig í þjónustu þeirra manna, sem þeir eiga að vera verðir gagnvart. Þeir urðu að ráða sig, eins og þekkzt hefur um skeið, til að sigla togurum til Englands og fá þannig auknar tekjur. og það er ekki vel séð, að sjálfir löggæzlumennirnir þurfi að leita eftir auknum tekjum hjá þeim mönnum, sem þeir eiga að vera verðir gagnvart. Það er því nauðsynlegt, að þeir séu þann veg launaðir, að þeir þurfi ekki að grípa til slíkra aukastarfa. Við flm. brtt. höfum gert ráð fyrir, að ekki væri hægt að bera fram hærri brtt. en felld hefur verið, og þess vegna komið því þannig fyrir, að þessir menn geti hækkað eftir ákveðinn starfstíma um einn launaflokk. Með öðrum orðum: Eftir tveggja ára starf geta þeir komizt upp í sama launaflokk og lögregluþjónar í Rvík, og það virðist ekki til mikils mælzt. Ég hef mikla tilhneigingu til að setja þessa menn í hærri launaflokk með tilliti til þess þýðingarmikla starfs, sem þessir menn inna af höndum, en þar sem búast má við, að hv. Alþ. fallist að meira eða minna leyti á þær till. mþn., sem ég hef lauslega gert að umtalsefni, verður nokkuð veruleg breyt. á þessu þýðingarmikla skipulagi, sem heitir Eftirlit með skipum í landinu, og er þá til athugunar að athuga störf þeirra manna, sem að því skipulagi vinna. En sem sagt, við lítum svo á, að það megi alls ekki skera við nögl sér laun til þeirra manna, sem eiga að vera á verði um allt, er lýtur að öryggi sjófarenda, ef góða menn á að fá til þeirra starfa. Ég veit af nokkurri reynslu, að hv. Alþ. hefur á undanförnum árum skilið nauðsyn þess, sem lýtur að öryggi. Staðreyndirnar sýna okkur og sanna á svo sorglegan hátt, hversu nauðsynlegt sé, að þetta öryggi sé í heiðri haft,. en þetta getur orðið til þess að bjarga þeim, sem fyrir stóru slysunum verða, og til þess þarf trúa og dygga menn til að inna þessi störf af hendi og ekki skera laun þeirra við neglur.

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 1204, sem ég flutti einn. Geri ég ekki ráð fyrir, að ég fái marga meðmælendur hjá hv. n. Þó skal ég ekki fullyrða neitt þar um. En till. eru, eins og ég sagði í upphafi, fluttar til samræmis að minni hyggju.

Fyrsta brtt. á við 8. gr. og fjallar um það, að skrifstofustjóri sakadómara o. s. frv., svo sem segir í frv., hækki um einn launaflokk. Hv. þm. Snæf. kom nokkuð inn á nauðsyn þess, að rétt væri að setja þessa menn í hærri flokk en frv. gerir ráð fyrir með aðferð, sem ég vissi ekki, að hann hefði gert till. um, að þeir mættu hækka eftir 6 ára þjónustu. En ég hygg, að þessi tili. mín geti staðizt samt sem áður, þó að hv. d. vildi fallast á, að þessir menn yrðu hækkaðir um einn launaflokk. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem hann sagði um þessa menn. Ég er svo gamall Reykvíkingur og hef fylgzt nokkuð með þessum mönnum hér, að ég veit, að ekki er ofsagt, sem hann sagði, að þeir menn, sem hér um ræðir, væru svo miklir prýðismenn í starfi sínu, að það er rangt að meta störf þeirra svo lágt sem frv. gerir ráð fyrir. Það eru ekki þýðingarlítil embætti, sakadómaraembættið í Rvík og önnur þau, sem hér eru talin upp. Það er með öðrum orðum löggæzlan og tollgæzlan í Rvík, borgardómari, borgarfógeti, tollstjórinn o.s.frv. Það eru svo þýðingarmikil embætti, sem þessir menn inna af höndum, og þeir menn, sem ég hef gert að umtalsefni, eru meira en skrifstofustjórar. Það er yfirleitt meira starf, sem þeir inna af höndum, en skrifstofustjórar yfirleitt hafa með höndum. Mín skoðun er sú, að ríkið megi ekki skera svo mjög við neglur sér að launa hin þýðingarmiklu störf, að ekki geti valizt í þau menn, sem eru a.m.k. í hinni betri röð. Ég held, að við ættum að keppa að því, að störfin væru það vel launuð, að hinir hæfustu menn fengjust til þess að gegna þeim, því að fari svo, að hið borgaralega þjóðfélag geti veitt skilyrði til þess að hafa miklu betri tekjur en hér er fyrirhugað, koma hæfustu mennirnir aldrei nálægt þessum embættum. (JPálm: Þeir eru í störfum.) Þessir menn hafa ekki aukatekjur eins og sumim aðrir til þess að bæta kjör sín. Laun þeirra verða að vera svo mikil, að þeir geti lifað sómasamlega á þeim. Þetta var um a-lið.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að b-lið. Þar eru taldir upp aðalféhirðir og aðalbókari tollst jóra. Ég held, að það velti ekki á tveim tungum, að tollstjóraembættið í Rvík sé fyrir ríkissjóð og fyrir landið í heild eitt með þýðingarmeiri embættum á því sviði. Það er upplýst. að á s.l. ári fóru 76 millj. kr. um hendur tollsins, mikill meiri hluti af tekjum ríkissjóðs. Þessi mikla fjárhæð hefur því farið um hendur þess manns, sem er gjaldkeri stofnunarinnar: Reynslan hefur sýnt, að þeir, sem eiga að vera verðir stórra fjárhæða, eins og gjaldkerar, þurfa að hafa góð laun. Við eigum að launa þá svo sómasamlega, að það sé nokkurn veginn tryggt, að það fari vel úr hendi. Það, sem ég fer hér fram á, er það eitt, að þessi starfsmaður hækki um einn launaflokk, úr 6600 kr. í 7200 kr. byrjunarlaun með 9600 kr. hámarkslaunum. Ég skal ekki elta ólar við ýmsar aðrar stofnanir, sem gætu verið sambærilegar í frv., en ég hygg, að gera megi fyllilega þennan mun á þessum starfsmanni og starfsfélögum hans við aðrar stofnanir, því að munurinn er svo mikill á þeim fjárhæðum, sem fara um hendur þeirra.

Þá kem ég að c-lið, en þar eru taldir þeir embættismenn, sem lægst eru launaðir við þessa stofnun. Það eru innheimtumennirnir. Þeir eru með 4800 kr. að byrjunarlaunum, og hef ég ekki breytt því, en skv. frv. er gert ráð fyrir, að þeir geti komizt í 6000 kr. hámarkslaun. Ég hef leyft mér að gera þá breyt., að þeir hækki upp í 6600 kr. hámarkslaun. Ég veit ekki. hvort hv. þm. telja þetta starf þess eðlis, að það eigi að launa það eins og ég nefndi, enda er till. ekki mjög há, en hins vegar er mér ljóst, að það hvílir nokkur ábyrgð á þessum mönnum, sem ganga út á meðal viðskiptamanna tollstofunnar, sækja þúsundir kr. í vasa gjaldendanna og bera á milli þeirra og skrifstofunnar. Þetta er mjög erilsamt starf. Þeir eru allan daginn á þönum, yfirleitt labbandi á sínum tveimur, og veltur mjög mikið á, að í þetta veljist trúverðugir menn. Og ég skal geta þess, að forstöðumaður þessarar stofnunar, tollstjórinn, leggur verulegt kapp á það, að þessi litla hækkun verði gerð við þessa lægst launuðu starfsmenn stofnunarinnar. Svo mikið leggur hann upp úr því, að þessir menn geti verið sæmilega ánægðir við þetta starf. Hér er í raun og veru ekki til mikils mælzt.

Næsta brtt. mín er við II. gr. og fjallar um bókara II. flokks, sem er gert ráð fyrir í frv., að hafi að byrjunarlaunum 5400 kr., og eiga að hækka upp í 5700 kr. Ég hef leyft mér að bera fram þá breyt., að þessi II. flokks bókari falli niður og í þess stað komi I. flokks bókari. Mörg rök hníga að því, að í þetta veljist einungis góðir menn, og ætla ég þá, að þessi skipun sé eðlilegri. En svo legg ég tel, að nýr liður komi: Bókari III. flokks.

Næsta brtt. mín er við 23. gr. Er það um starf snertandi Skipaútgerð ríkisins. Þar er og brtt. um, að aðalbókari og aðalféhirðir hækki um einn flokk. Mér er kunnugt um af margra ára reynslu, að störf manna við þessa stofnun eru meiri en við aðrar svipaðar stofnanir, svo að einatt hafa menn orðið að vinna þar eftirvinnu. Nú á hún að falla niður, og er það vel. En þessir starfsmenn eru lægra launaðir en sambærilegir starfsmenn við aðrar stofnanir. Ég hygg, að allir, sem skipt hafa við þessa stofnun viti, hve hér er um að ræða mikið starf, sem útheimtir vel hæft starfslið. Ég legg til, að þarna komi tölul. 1 og 2 afgreiðslustjóri og innkaupastjóri með óbreyttum tölum, en starfinu sé skipt í tvennt.

Þá er það 4. brtt., við 25. gr., um starfsmenn við áfengisverzlun og tóbakseinkasölu ríkisins, það er, að skrifstofustjórar (a-liður) hækki um 600 kr. og bifreiðarstjórar (b-liður) hækki jafnmikið. Annars hefði ég viljað, að allir bifreiðarstjórar væru teknir út úr og væru bundnir eftir samningum stéttafélaga sinna. Þannig er það um bifreiðarstjóra hjá einkafyrirtækjum, en þetta er fyrir neðan þeirra taxta.

5. brtt. mín á sama þskj. fjallar um, að bifreiðarstjóri hjá grænmetisverzlun ríkisins hækki um 600 kr., og liggja til hin sömu rök og næstu till. á undan.

Þá kem ég að 6. og síðustu brtt. minni um, að aftan við 31. gr. komi ný grein, sem verður nr. 32. Efni þessarar till. er um það, að menn, sem vinna í þjónustu ríkisins við stofnanir, sem settar eru á fót til bráðabirgða. skuli hafa að minnsta kosti 15% hærri laun en þeir, er vinna svipuð störf á föstum launum. Í þessi störf veljast menn, sem ekki geta reiknað með áframhaldandi starfi, og mér er kunnugt um, að í slík störf hefur verið erfitt að fá hæfa menn nema með því móti að greiða hærri laun en venja er. Þannig er það t.d. um viðskiptaráð. Þar eru greidd hærri laun en annars staðar, enda eðlilegt.

Ég er hér meðflm. að ýmsum fleiri brtt., en þeim verða gerð skil af öðrum. En áður en ég lýk máli mínu, vildi ég minnast á eina brtt., sem ég er meðfim. að, en það er um næturvarðmanninn við landssímastöðina í Reykjavík. Ég hygg helzt, að þessi maður hafi fallið niður af vangá hjá fjhn., því að ég get ekki komið auga á nokkra ástæðu til að fella þennan mann niður, enda mun vera megn óánægja meðal starfssystkina hans út af þessu.

Aðrar brtt. mun ég ekki gera að umræðuefni, en ég skal taka það fram, að eins og viðhorfið er nú, þá býst ég varla við, að allar brtt. mínar verði samþ. En ef ganga ætti til atkvæða um þær meðal fólksins, þá mundu þær allar verða samþ. Það skal vel vanda, sem lengi á að standa, en mig uggir, að ekki líði mörg ár. áður en háværar kröfur koma fram um að lagfæra margt í þessum lagabálki. Ég skal ekki dæma um, hvort ýmsir starfsflokkar séu of háir. Að sjálfsögðu er mest réttarbót þeirra, sem lægst hafa verið launaðir.