23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (4718)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr., sem hér hafa orðið nú síðast, og sé ekki heldur ástæðu til að gera að umtalsefni þær brtt., sem fyrir liggja. Ég er að vísu meðflm. að tveimur af þessum brtt., en aðalflm. þeirra hafa þegar gert rækilega grein fyrir þeim, og get ég því sleppt að tala um þær.

En viðvíkjandi þessu máli í heild vil ég taka þetta fram: Framsfl. telur, að þörf sé nýrrar löggjafar um starfsmenn ríkisins og laun þeirra, og þess vegna gerðist einn af þm. flokksins, hv. 1. þm. Eyf., meðflm. að launalagafrv., þegar það var lagt fyrir Alþ. í septembermán. s.l. Að vísu var þm. flokksins þá strax ljóst, að málið var eigi svo vel undirbúið sem skyldi og frv. gallað, enda hafði fulltrúi flokksins í mþn. gert um það ágreining. En þess var vænzt, að takast mætti að koma fram nauðsynlegum lagfæringum á frv. við meðferð þess í þinginu, enda áskildu framsóknarmenn sér óbundin atkv. um málið eftir því, hvernig tækist um afgr. þess á Alþ., þótt einn af þm. flokksins gerðist meðflm. frv.

Þm. Framsfl. telja þær launaupphæðir, sem ákveðnar eru í frv., of háar miðað við tekjur landsmanna yfirleitt, einkum þeirra, sem vinna að framleiðslustörfum. Í hv. Ed. þingsins gerði fulltrúi flokksins í fjhn. tilraun til þess að lækka útgjöld ríkisins vegna frv., en till. um það voru felldar af stjórnarflokkunum. Þá flutti einn af þm. Framsóknarflokksins í Ed. einnig till. um það. að launal. kæmu ekki til framkvæmda, fyrr en sett hefðu verið l. um skyldur og réttindi embættismanna, en að frv. um það yrði undirbúið fyrir næsta þing og jafnframt gerðar ráðstafanir til að fækka opinberum störfum og gera allt starfsmannakerfi ríkisins einfaldara og ódýrara en nú er. Við undirbúning launalagafrv. hafði algerlega verið gengið fram hjá því að athuga þessi þýðingarmiklu atriði. Þessar till. voru einnig felldar í hv. Ed.

Við 2. umr. frv. hér í hv. Nd. bar ég fram fyrir hönd flokksins brtt. um það, að launin yrðu látin breytast eftir framleiðslutekjum þjóðarinnar ár hvert. En sú till. var felld hér í hv. d.

Framsóknarflokksmenn hafa flutt nokkrar brtt. við frv. eins og hv. þm. annarra flokka um tilfærslur einstakra starfsmanna milli launaflokka, eftir því sem þeir telja rétt vera, til þess að betra samræmi verði í launagreiðslunum innbyrðis, og við þessa umr. munu þeir ha,fa sams konar afskipti af málinu. En þar sem flokkurinn telur, að saman verði að fara afgreiðsla launal. og ráðstafanir til þess, að ríkissjóði verði fært að standa undir þeim kostnaði, sem af þeim leiðir, til þess að þau fái staðizt í framkvæmd, og þar sem flokkurinn lítur einnig svo á, eins og þegar er fram tekið, að ákvæði frv. um launagreiðslur séu í ósamræmi við þjóðarhag og tekjur þeirra, er vinna að framleiðslustörfum, þá munu þm. flokksins greiða atkv. gegn frv. við þessa 3. umr.