23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (4719)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Ég þarf að svara hv. frsm. fjhn. nokkrum orðum út af þeim aths., sem hann gerði, aðallega við tvær af brtt. mínum. Hann byrjaði á því að lýsa yfir, að það væri vegna áróðurs utan að komandi manna, sem ég flytti þessar brtt. En ég get sagt honum það, eins og ég sagði hér í ræðu minni í kvöld, að það, sem knúði mig aðallega til þess að koma fram með þessar brtt., er að ég vil reyna að skapa meira samræmi á milli hinna ýmsu starfa. Mat mitt á þeim störfum, sem ég hef gert brtt. um, er nokkuð annað en hv. frsm., burt séð frá því, hver í embættinu situr nú. Ég hef nú heyrt, að hv. frsm. sé frekar góðmenni, þó að hann hafi hér tekið sér það hlutverk að þrengja kosti einstakra manna. — Rök hv. frsm. gegn brtt. mínum eru í fyrsta lagi um skipaskoðunarstjórann. Ég skal taka fram strax, að skipaskoðunarstjórinn hefur ekki innt að því við mig einu orði né neinn fyrir hans hönd, að ég legði til, að laun hans yrðu hækkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Það er, eins og ég tók fram í kvöld, hreint og beint mat mitt á þessu þýðingarmikla embætti, sem ræður því, að ég geri till. um, að hækkuð verði laun þessa manns, og hef ég þar í huga ekki aðeins starfið nú. heldur það, að ég tel nauðsynlegt, að í þetta starf veljist maður framvegis, sem sé þeim hæfileikum búinn, að hann vilji líta við að taka við starfi sem þessu. Það er vitað, að núverandi skipaskoðunarstjóri á ekki mörg ár eftir til þess að gegna þessu starfi, og það yrði því skammgóður vermir fyrir hann, þótt launin yrðu hækkuð.

Hv. frsm. minntist í þessu sambandi á hæstaréttardómara. Skipaskoðunarstjóri var kominn, sagði hann, með þau laun, sem hæstaréttardómarar hafa haft. En þetta er ekki nema að hálfu leyti satt, því að laun hæstaréttardómara voru komin upp í 10 þús. kr. með aukauppbót (JakM: Af 10 þús. kr.) Ég hef hér fyrir framan mig skrá, sem ég veit, að hv. 3. þm. Reykv. þekkir vel og gefin er út af fjmrn. og skráð með frv. til fjárl. fyrir árið 1944. Og þar er skýrt ákveðið, hvað aukauppbót hæstaréttardómara var: Hún var 2620 kr. ofan á 10 þús. kr. Svo var önnur uppbót veitt af takmarkaðri upphæð. En það voru ekki hæstaréttardómarar, sem ég miðaði við í kvöld. Ég býst við, að við getum allir verið sammála um það, að þeir eigi að vera með hæst launuðum mönnum. En þeir, sem ég miðaði við, voru skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. Það var svo og er enn, að skipaskoðunarstjóri á að vera jafn skrifstofustjórum í stjórnarráðinu, nákvæmlega. En eins og frv. liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir, að skipaskoðunarstjóri verði 1800 kr. lægri í launum en skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. En hins vegar, að því er snertir hæstaréttardómara, þá veit hv. 3. þm. Reykv. vel, að þeim voru bætt upp laun á ýmsan hátt umfram það, sem getur um í, þessari skrá, sem ég gat um, og það verulega. — Ég held, að þetta skýri nægilega það, sem fyrir mér vakir. Það virðist vera ósamræmi á milli þessara tveggja embætta eftir ákvæðum frv., sem ég hef gert samanburð á og ég teldi, að átt hefðu að fylgjast að um launahæð, eins og þau hafa gert hingað til.

Þá er hin brtt. mín, sem hv. frsm. fjhn. gerði að umtalsefni, en hún er um þá menn, sem eru í þjónustu skipaskoðunarstjóra. Mér fannst þann hv. þm. bresta rök, þegar hann fór að tala um þessa menn og taldi, að laun þeirra væru ekki neitt hraksmánarleg. En það er svo, að grunnlaun þeirra eru reiknuð 4800 kr. í þeirri skýrslu, sem ég vitnaði til, og aukauppbót 1320 kr. Þetta verða rúml. 6 þús. kr., og svo kemur dýrtíðaruppbót. Hvort hv. 3. þm. Reykv. finnst þetta of mikil laun, það er hans mat. Mér finnst þetta of lítil laun.

Ég tók til dæmis lögregluþjóna í kvöld. Með allri virðingu fyrir starfi þeirra, þá er þó um starf þeirra það að segja, að það er reglubundið. En starf þessara manna, aðstoðarmanna skipaskoðunarstjóra, er ekki reglubundið. Þeir geta verið kallaðir til starfs síns á kvöldin eða nóttunni. þegar svo ber undir. Og þá finnst mér öll sanngirni mæla með því. að starf þeirra . manna sé ekki metið lægra en lögregluþjóna. En svo er annað. Hver sá nýr maður, sem kemur inn í þetta starf, að vera aðstoðarmaður skipaskoðunarstjóra. byrjar með 5400 kr. grunnlaun eftir frv. Það er að vísu hærra en grunnlaun eru nú án aukauppbótar, en lægra en grunnlaunin eru nú með aukauppbót, sem er 6120 kr. Og hver maður, sem kemur inn í starfið nú, fær aukauppbót. Þegar hann kemur inn í starfið, fær hann því að óbreyttum l. grunnlaun með aukauppbót 6120 kr. (JakM: Menn, sem búnir eru að vinna mörg ár.) Nei, þetta eru grunnlaun nú, 4800 kr., og menn byrja á þessum launum. Ég held því, að engum blandist hugur um, að hér er verið að lækka laun þessara manna með því að ákveða þeim 5400 kr. í byrjunarlaun. Hver nýr maður, sem kemur inn í þetta starf, á eftir frv. að hafa lægri laun en sömu menn hafa nú með aukauppbót. Ég skil ekki andstöðu hv. þm. á móti þessum starfsmönnum. Þeir eru ekki nema tveir. Og það ætti ekki að skapa mikið ósamræmi í launal., þó að sú brtt.samþ., sem hér liggur fyrir á þskj. 1198, um það, að eftir tveggja ára starfstíma færist aðstoðarmenn skipaskoðunarstjóra í X. launafl. og njóti þá aldurshækkana þess flokks. Það virðist vera eitthvað, sem býr hér undir og ég átta mig ekki á, að þessir menn skuli vera lækkaðir í launum í frv. Og af því að hv. frsm. fjhn. virtist tala fyrir hönd meiri hl. n., þá er rétt að taka fram, að það er ekki meiri hl. í n. fyrir þessu. (JakM: Það er ekki rétt.) Ég skal ekki pexa við hv. frsm. um það. (JakM: Það er rangt.) Við skulum láta útrætt um það. Við erum báðir góðmenni (samkv. orðum hans og mínum) og viljum svo rétt sem hægt er. Og réttlætið segir, að laun þessara manna eigi að hækka frá því, sem gert er ráð fyrir í frv.