20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (4725)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Bjarni Benediktsson:

Í þeirri till., sem lögð hefur verið fram af hæstv. forsrh., er ákveðið, að þing skuli koma saman eigi síðar en 15. sept. Hæstv. forsrh. segir, að þetta sé lagt til í samráði við mikinn hluta þm., en ég hef samt sem áður litið svo á, að með þessu móti kæmi þing saman óþarflega snemma og venjulegum þingstörfum mætti ljúka af frá 1. okt. og til jóla. Ég held, að flestir hv. þm. séu orðnir leiðir á þessu langa þinghaldi, sem verið hefur, og að nægilegt sé, að þing komi nú saman 1. okt., en þó með þeim fyrirvara, að hæstv. stj. geti beitt valdi sínu til að kveðja þing saman fyrr, ef hún telur ástæðu til. Ef hún álítur, að málefni ríkisins verði með þeim hætti á tímabilinu júní-september, getur hún kallað þing saman, ef það þarf að úrskurða um þau málefni. Ég mun svo afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt.