20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (4730)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Út af þeim till., sem liggja hér fyrir, vil ég segja, að ég hefði talið, að vel hefði mátt ákveða næsta samkomudag Alþ. í síðasta lagi 1. okt., eins og brtt. er komin fram um, með tilliti til þess, að það er á valdi ríkisstj. að kalla saman þ. fyrr, ef ástæða þykir til. Mér skildist á þingmannafundi, sem haldinn var í gær, að samkomulag mundi nást um að samþ. 15. sept. sem næsta samkomudag þ., eins og hæstv. ríkisstj. leggur til, og mun ég greiða atkv. með því, þar eð ég tel þennan tímamun ekki skipta verulegu máli.

Að því er snertir brtt. um frestun á þingfrestun enn um tvo daga, sem hér er komin fram, vil ég geta þess, að við Alþflmenn eigum hér þáltill. um að fjölga mönnum í mþn. til að framkvæma gagngerða endurskoðun á stjórnarskipunarl. Ég hefði talið það skipta mjög verulegu máli, að þessi till. næði samþykki á þessu þ., en hæstv. forseti Sþ. hefur tjáð mér, að þótt þingfundum yrði haldið áfram til 22. júní, mundi tími ekki vinnast til að fá þá till. afgreidda. Hefði verið kostur að afgreiða þessa þáltill. okkar, hefði ég getað samþ., að þingfundum yrði haldið áfram, en þar sem svo er ekki, sé ég ekki ástæðu til að vera með því, að fundum verði haldið áfram.

Sú meginástæða, sem borin var fram af hv. 2. þm. Reykv. fyrir því að lengja þ. um tvo daga, var, að mér skildist, sú, að hann gerði ráð fyrir, að unnt væri að mynda ríkisstj., sem hefði þingmeirihl. að baki sér og tæki við, áður en þm. héldu heim. Ef ég héldi, að þetta mundi verða, mundi ég greiða þessari till. atkv., en ég verð að segja það, að eftir þær viðræður, sem fram hafa farið að undanförnu um möguleika á því að mynda ríkisstj., sem hefði stuðning allra flokka eða meiri hl. Alþ., hef ég enga trú á, að það næðist að vinna það verk á þessum tveim dögum, sem ekki hefur lánazt að leysa þann tíma, er til þess hefur verið til umráða, og ég hygg það ekki ofmælt, að þessum hv. þm. sé það líka vel kunnugt. Honum er að sjálfsögðu manna bezt kunnugt um sérstöðu flokks síns í þessu máli. Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum, minnir mig, að hún gæfi yfirlýsingu á þá leið, að hún mundi tafarlaust biðjast lausnar, er hún fengi fullar upplýsingar um, að önnur stj., sem hefði stuðning öruggs meiri hl. Alþ., væri tilbúin að taka við völdum. Ég verð því að ætla, að hæstv. ríkisstj. sé sama sinnis enn og að hún muni tafarlaust, þegar hún fær örugga vitneskju um, að þ. allt eða meiri hl. þess hafi tilbúna stj., er það veitir stuðning, biðjast lausnar, hvort sem Alþ. situr eða ekki. Hæstv. forsrh. er hér staddur, og mér væri kært, að hann vildi leiðrétta þetta, ef það er misskilningur, eða staðfesta það, ef rétt er, sem ég hygg, að sé. Ég er einn þeirra manna, sem telja mikils um vert, að stjórn verði hér áfram með þeim hætti, sem verið hefur lengst af og sjálfsagt er og æskilegt í landi með þingræðisfyrirkomulagi. Ég vil vinna að því, að reynt verði til fullrar þrautar, ekki einungis að ná samstarfi allra flokka um myndun ríkisstj., heldur og um sköpun nægilega öflugs meiri hl. þings til að standa að baki ríkisstj., sem hafi ákveðinn málefnagrundvöll. En að mynda ríkisstj. án þess að samkomulag væri um meginmálefni, væri að minni hyggju lítil bót.