20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4734)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég mælti áðan nokkur orð, eftir að hv. 2. þm. Reykv. hafði lýst því, að hann æskti þess, að þingfrestun færi ekki fram fyrr en tveim dögum síðar, til þess að færi gæfist að mynda nýja ríkisstj. Ég fann mig ekki knúinn til að svara þessu, því að ég leit svo á, að hv. 2. þm. Reykv. mundi telja aðstöðuna betri til að fá þingfylgi sameinað á meðan þ. situr en eftir að þingfundum hefði verið frestað. Þess vegna tók ég þessa till. ekki neitt til umr. En nú hefur mér fundizt sá skilningur vera uppi hjá einstaka manni, að stj. mundi ekki telja sig skylda að víkja, á milli þess er þ. sæti, enda þótt fyrir lægi meiri hl. þ. fyrir því, að hann styddi aðra stj. eða tryði annarri stj. betur til að fara með stjórn landsins.

Mér virtist þetta liggja á bak við fyrirspurn hv. 3. landsk. þm., en hann hefur að vísu ekki réttan skilning á afstöðu stj. Hún er reiðubúin, hvort sem þ. situr eða ekki, til að víkja, þegar fyrir liggur trygging fyrir því, að meiri hl. Alþ. sé því fylgjandi að taka að sér stj. landsins. Fyrir þessu höfum við einnig ljóst fordæmi frá árinu 1927, þegar þáv. stj. fyrir ósigur í þingkosningum vék úr sæti, af því að hún taldi sig ekki hafa styrkan meiri hl. Ég lít því svo á, að það þurfi ekki að tefja frestun þ. neitt, að þm. komi sér saman um að fela öðrum stjórn landsins, og því þurfi ekki umr. að verða langar um þetta efni.