01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (4749)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — í hv. Nd. hefur verið breytt ákvæði um launakjör allra kennara, þannig að miðað skuli við 9 mánaða kennslutíma. Upphaflega átti þetta ákvæði ekki að ná nema til barnakennara, en nú er það látið gilda um miklu fleiri kennara en þegar frv. var samið. En þegar starfstímanum er breytt þannig, þá raskast sá grundvöllur, sem frv. var byggt á.

Til dæmis má benda á, hversu þetta verður um húsmæðraskólana. Þar er kennslutíminn ekki nema 6 mánuðir, og dregst því frá þriðji hluti launanna. Það kann að vera, að þetta séu nægileg laun, en mér virðist litið samræmi í þessu. Kennarar við kennaraskólann fá með þessu móti 7 þús. kr. í hámarkslaun, þar eð sá skóli stendur ekki nema 7 mánuði. Og þótt starf þessara kennara sé kannske ekki erfiðara en barnakennara, þá virðist mér ekki eðlilegt, að nemendur, sem útskrifast úr kennaraskólanum, komi til með að fá hærri laun en lærifeður þeirra, enda var þetta ekki svo í upphaflega frv.

Þótt ég hafi ekki skipt mér af einstökum atriðum þessu viðvíkjandi, þá hefði ég lagt til, að þetta yrði lagfært. Ég hreyfði þessu í fjhn., en meðnm. mínir tóku ekki vel í það og töldu, að þetta mætti laga með reglugerð, og sögðu, að í ráði væri að lengja kennslutíma kennaraskólans. En ég álít það ekki æskilegt. Fátækir menn þurfa þess við að nota sumarið, og gildir það þó sérstaklega um þá, sem sækja héraðsskólana. Mér var svarað því í n., að þar mætti koma við námskeiðum, svo að kennslutíminn yrði 9 mánuðir, en mér er ekki kunnugt um. að slík námskeið séu haldin nema þá í sérgreinum, svo sem íþróttum eða matreiðslu, en þá kennslu stunda aðeins kennarar í þeirri grein. Raunar var það svo við kennaraskólann um eitt skeið, að þar var framhaldsnámskeið, og væri gott, ef því væri haldið áfram. Ég hélt, að þetta hefði verið samþ. af gáleysi í fjhn. Nd., en nú er mér tjáð, að svo hafi ekki verið. Gæti þá svo farið, að Nd. samþ. ekki, þótt þessu yrði breytt aftur.

Ég hef ekki löngun til að teygja þingið fremur en orðið er, en ég get þó ekki fallið frá till. minni nema því aðeins, að skýr yfirlýsing liggi fyrir frá hæstv. kennslumrh. þessu viðvíkjandi.

Ég hef áður lýst afstöðu minni til frv. En nú er það orðið allt annað. Ég tel það, eins og það er nú. alls kostar ofvaxið ríkinu. Auk þess eru stórar stofnanir teknar út, en með því næst ekki sá höfuðtilgangur að samræma launakjör. Þess vegna er það að þótt ég léti frv. afskiptalaust. þegar það fór, þá sé ég mér nú ekki annað fært en vera á móti því. En þótt ég hafi þessa afstöðu, hindrar það ekki, að ég beri fram till. til samræmis.

Ég skal svo ekki þreyta frekar umr. um þetta.