14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (4750)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég býst ekki við, að það þurfi langa framsögu um þetta mál. Fyrir örstuttu fóru hér fram útvarpsumræður um dýrtíðarmálin í heild sinni, og ég hygg, að enginn gróði væri að því að taka þær upp að nýju. Ég býst einnig við, að engum alþm. geti komið það á óvart, að slík till. sem þessi er borin fram. Hv. alþm. heyrðu yfirlýsingu hæstv. fjmrh, í morgun. Og þó að hún hefði ekki komið, er öllum ljóst, að ef ekkert er gert í dag, munu ýmsar vörur hækka í fyrramálið. Og þar með er komin ný verðhækkunaralda, sem ekki er hægt að segja fyrir fram, hvar staðar nemur. Við hv. þm. V.-Húnv. höfum litið svo á, að a. m. k. eins og ástatt er, verði að stöðva þessa þróun í bili. Í því efni erum við algerlega sammála þeim flokki, sem við teljumst til, og sennilegt er, að margir aðrir þm. líti eins á.

Við höfum því lagt fram þessa till., sem fer fram á, að Alþ. feli ríkisstj. að lækka verð á vörum innanlands fyrst um sinn með framlagi úr ríkissjóði, til þess að koma í veg fyrir, að vísitala framfærslukostnaðar hækki úr því, sem nú er, eða úr 272 stigum. Það er kunnugt, að nú í tvö ár hefur mikið verið rætt um, að það þyrfti að finna ráð við dýrtíðinni. En það er jafnkunnugt, að lítið sem ekkert hefur verið gert í því efni annað en það að heimila fé úr ríkissjóði til þess að greiða niður vörur og halda dýrtíðinni þannig nokkuð í skefjum. Og þetta hefur tekizt þannig, að síðan að ég ætla á haustþinginu 1942 til þessa dags hefur vísitalan ekki hækkað, þó að nokkrar breytingar hafi á henni orðið, og mun nú 1. næsta mánaðar ganga í gildi vísitala, sem er nákvæmlega jafnhá og þá var. Það má benda á, að við Íslendingar erum ekki einir um það að hafa gert ráðstafanir til að halda dýrtíðinni í skefjum á þennan hátt. Það hafa fleiri þjóðir gert, t. d. Bretar og Bandaríkjamenn o. fl. Að sjálfsögðu má um það deila, hvort þetta eru þær heppilegustu aðgerðir gegn dýrtíðinni. En ég held, að tæplega verði um það deilt, að úr því að búið er nú að halda dýrtíðinni í nokkrum skefjum í tvö ár, þá sé með öllu óforsvaranlegt að sleppa henni nú lausri á morgun, þegar svo er ástatt, að flestir búast við, þó að enginn geti fullyrt það beinlínis, að það megi telja í vikum, fremur en í mánuðum, hvað styrjöldin á eftir að standa lengi. Það er einkennilegt, ef við ættum kannske á seinustu vikum styrjaldarinnar að gefast alveg upp og koma öllu því öngþveiti á stað, sem ný dýrtíðaralda og vísitöluhækkun mundi leiða af sér fyrir þjóðfélagið.

Í annan stað er á það að líta, að eins og öllu hinu háa Alþ. er kunnugt og þjóðarheildinni einnig, þá hafa farið fram viðræður undanfarið meðal stjórnmálaflokkanna á Alþ. um lausn hinna aðkallandi vandamála. Meðal annars hefur verið rætt um stjórnarmyndun. Okkur flm. þessarar till. er ekki kunnugt um það, að þessar viðræður séu komnar það langt áleiðis, að niðurstaða geti fengizt í dag og geti því komið í veg fyrir fyrirsjáanlega verðhækkun á morgun. En meðan þessar viðræður standa yfir og von er, að þær beri árangur, þá virðist það enn gálausara að hleypa allri þeirri skriðu á stað, sem mundi verða með verðlækkuninni á morgun, ef þessar viðræður kynnu að bera árangur eftir örfáa daga. Þess vegna er það skoðun okkar flm. og einnig flokks okkar, að í dag sé ekki annað að gera en það að fela ríkisstj. að halda dýrtíðinni í skefjum á þann hátt, sem gert hefur verið undanfarið, nú fyrst um sinn, þannig að hún ekki hækki. Undir þeim umr., sem farið hafa fram um þetta mál, bæði í útvarpinu og reyndar víðar, skilst manni, að ríkisstj. líti svo á, að ekki sé fé fyrir hendi í ríkissjóði til þess að halda þeim greiðslum áfram, sem greiddar hafa verið undanfarið í þessu skyni, og til viðbótar að greiða niður þá verðhækkun, sem boðuð er á morgun. Enda berum við flm. fram þessa till. beinlínis með það fyrir augum, að ef hún verður samþ. og henni þá ætlað að verka um nokkuð lengri tíma, þá sé alveg sjálfsagt, að þingið sé gersamlega skuldbundið til þess að afla ríkissjóði tekna, sem hann hefur ekki nú, til þess að standa straum af þessum ráðstöfunum. Það yrðu þá að sjálfsögðu gerðar ráðstafanir til að bera fram lagafrv. um það efni, þegar eftir að þessi till. er samþ., nema þá lægi fyrir, að þingflokkarnir hafi komið sér saman um einhverja aðra leið, sem ekki krefðist jafnmikilla fjárframlaga.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, þetta mál er svo þrautrætt. En það vil ég taka fram, að þessi till. á ekki á nokkurn hátt að torvelda eða slá á frest neinum umleitunum um frekara samstarf, sem nú fara fram, heldur hefur okkur aðeins virzt, að þingið yrði nú í dag að gera ráðstafanir út af þessu máli. Og af því að svona stendur á, og af því að þessi till. mundi ekki gilda nema rétt til bráðabirgða, ef frekari aðgerðir yrðu í Alþ., þá sjáum við flm. ekki ástæðu til þess að leggja til, að málinu verði vísað til nefndar. Við álítum, að það verði að afgerast í dag. Á hinn bóginn mundum við ekki setja okkur upp á móti því, að t. d. fjvn. fjallaði um þessa tillögu. En það liggur í hlutarins eðli, að hún yrði að skila áliti í dag, svo að hægt yrði að hafa síðari umr. ekki síðar en í kvöld. Ef málið dregst til morguns, virðist það geta valdið miklum og margháttuðum óþægindum.