01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (4754)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Ég ætla ekki að fara að deila við hv. 7. landsk., slíkt er ekki til neins. Það kunna að vera skiptar skoðanir um það, hvort frv. hefur verið breytt til bóta, en um hitt verður ekki deilt, að það hefur hækkað. og samræmi í launagreiðslum næst ekki. þar sem heilir starfsflokkar og stofnanir hafa verið teknar út úr.

Mér þykir það mjög leitt, að hv. þm. skuli ekki sjá sér fært að mæla með till. mínni, því að það var auðheyrt á honum, að það er í raun og veru sannfæring hans, að frv. ætti að vera í þessu atriði eins og ég legg til. En það er aðeins af ótta um afdrif málsins í heild, sem hann vill ekki á hana fallast. Nú ætla ég, að hann þurfi ekki að óttast um það út af fyrir sig, þar sem framgangur þessa máls er nú eitt af því, sem stuðningsflokkar núverandi ríkisstj. hafa samið um. Þess vegna getur það varla komið til greina. Hitt kynni náttúrlega að hugsast, að Nd. breytti þessu aftur og frv. færi í sameinað þing, og það tefði þingið um einn dag eða svo. en það er ekki að stofna málinu sjálfu í hættu. Það getur varla komið fyrir.

Hv. þm. sagði, að það væru skiptar skoðanir um þetta og margir væru, sem litu svo á, að ekki ætti að gjalda full árslaun fyrir 6 mánaða starf. Já, ég býst við, að það megi finna því margt til framdráttar, að ekki eigi að gjalda full laun fyrir 6 mánaða starf. En það eru ýmsir starfsmenn nefndir í þessu frv., sem í raun og veru hafa helmingi hærri laun og meira en það en þessir kennarar t.d. við héraðsskólana. Og ég lít svo á, að þeim séu ætluð laun fyrir 6 mánaða starf, samanborið við, hvaða árslaun öðrum starfsmönnum ýmsum eru ætluð. Það var svo í frv., að þeim voru ætluð þessi laun, sem þar voru tiltekin, fyrir það starf, sem vitað var, að þeir inntu af hendi. Og þetta hefur fjhn. Nd. fundið og viðurkennt, að því er snertir kennara við gagnfræðaskóla í kaupstöðum, því að jafnframt því, sem hún gerði þessa breyt., þá hækkaði hún þá um einn launaflokk. En kennarar við héraðsskóla og t.d. kennaraskólann og s jómannaskólann og fleiri skóla voru alls ekki hækkaðir um launaflokk vegna þessarar breytingar.

Það þarf svo ekki að orðlengja þetta frekar. Hæstv. kennslumrh. er ekki til staðar, enda engar yfirlýsingar frá honum heyrzt um það, hvort hann muni beita valdi sínu til þess að rétta hlut þessara manna, og ef til vill getur leikið nokkur vafi á því, hvað mikið vald hans er í þessu tilfelli, eftir að þetta frv. hefur verið samþ. Þar af leiðandi verður að fara sem fara vill.

Ég óska þess, að þessi brtt. mín verði borin undir atkv. hv. d.