14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (4756)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og ég sagði áðan, getum við flm. ekki haft á móti því, að málinu verði vísað í n. og athugað, að svo miklu leyti, sem tök eru á. En ég vildi gjarnan spyrjast fyrir um það hjá formanni fjvn., hvort líkur eru til þess, að n. geti skilað áliti í dag, svo að annar fundur yrði haldinn um málið í kvöld. Því að mér skilst, að þessar ráðstafanir, sem till. fjallar um, komi ekki að gagni, a. m. k. ekki fullu gagni, nema málið sé afgr. í dag.

Út af ræðu hv. þm. V.-Ísf. vil ég segja það, að ég sé ekki, hvernig sú till., sem hann gat um, að hann og hans flokkur hefðu borið fram, á að koma í veg fyrir það, sem búizt er við að komi fyrir á morgun, ef ekki er að gert. Þessi till. Alþfl. mun vera í frvformi, og mér vitanlega er ekki farið að útbýta því enn. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hvað hann ætlazt til, að verði á morgun. Það er hreint og beint lagafyrirmæli um, að innlendar vörur eigi að hækka í verði í fyrramálið. Og ef þessi till., sem fer fram á að fresta þeim ákvæðum, sem mæla svo fyrir, að verðhækkunin komi til greina í fyrramálið, á að koma að gagni, þyrfti hún a. m. k. að sjást í dag. Hv. þm. V.-Ísf. segir, að málið sé ekki leyst með því, að þessi till.samþ., sem við tveir þm. höfum borið hér fram, en það er leyst á sama hátt og gert hefur verið á tveimur undanförnum árum. Við vitum ekki, hvað styrjaldarástandið stendur lengi og afleiðingar þess, og ég vil einnig minna hv. þm. á, að þessi till. er alls ekki hugsuð frá okkur nema til bráðabirgða, meðan verið er að koma sér niður á aðra lausn, sem meiri hl. Alþ. kynni að koma sér saman um og þykir aðgengilegri.