19.06.1944
Efri deild: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (4775)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það er vandfarið með þetta mál, en ég hygg þó, að það verði á það að hætta að gefa þessa heimild. Mér finnst ekki óeðlilegt, að mönnum séu gefnar upp sakir í sambandi við þennan sögulega atburð, sem er nýafstaðinn hjá okkur, og er nokkuð algengt, að slíkt sé gert, þótt afbrotin séu ekki pólitísks eðlis. En jafnhliða því, að gefnar eru upp sakir er ekki óeðlilegt, að mönnum, sem hafa verið sviptir borgararéttindum, séu veitt þau aftur. Það er ekki hægt að hafa heimildina öllu þrengri en er í frv., því að það er erfitt, eins og allir vita, að setja upp nánari reglur. Náðanir verða alltaf matsatriði, en þ., sem stendur á bak við ráðh., getur, ef hann beitir illa valdi sínu, látið það bitna á honum.

Í raun og veru er náðunarrétturinn í höndum dómsmrh. mjög víðtækur, en þó er hann þröngur fyrir þann ráðh., sem beitir honum eðlilega. Það hafa skapazt reglur, sem er óeðlilegt að fara út fyrir. Það er ekki óeðlilegt, að nú fari fram náðanir í víðtækari mæli en undir venjulegum kringumstæðum, og það skapar ekki fordæmi.

Það er augljóst mál af þessu, að það er rétt, sem hér kemur fram í frv., og ég samþykki það í þeirri von, að það verði notað réttlátlega. Það verða vitanlega alltaf skiptar skoðanir, af því að um matsatriði er að ræða fyrir ráðh. Án þess að láta fylgja traust eða vantraust á núv. dómsmrh. vil ég ljá þessu frv. fylgi, því að ég tel eðlilegt, að þetta sé gert, og vona, að það verði réttlátlega af hendi leyst. Ég vil taka áhættuna af að samþ. frv.