14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (4794)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eftir að hafa heyrt yfirlýsingu hv. form. fjvn. get ég sem flm. ekkert haft á móti, að málinu verði vísað til fjvn., þar sem hv. form. hefur lofað, að málið verði tekið fyrir við allra fyrstu hentugleika nú í dag. Ég skal geta þess, að ég geri ekki eins mikið og hann úr erfiðleikunum fyrir n. til að taka afstöðu til málsins, vegna þess að verði frekari samkomulag milli stjórnmálaflokkanna á þingi, sem nú eru kannske góðar vonir um, þá hlýtur þessi till. og sú ráðstöfun, sem hún felur í sér, aðeins að skoðast sem bráðabirgðaráðstöfun. Ég hygg, að þótt málið í heild sé stórt, þá sé það ekki svo miklum erfiðleikum bundið fyrir n. að taka ákvörðun um, hvort hún vill gera þessar ráðstafanir nú til bráðabirgða.

Út af því, sem hv. þm. GK. sagði, þá vil ég geta þess, að orð mín voru rétt skilin hjá honum. Ég álít ekki aðeins skyldu þingsins, ef það samþykkir þessa till., að sjá stj. fyrir fé til að geta framkvæmt hana, heldur álít ég það skyldu þ. ætíð, þegar það samþ. greiðslur úr ríkissjóði, að sjá fyrir möguleikum til að inna þær af hendi.

Ég get ekki tekið undir það, sem hann sagði um, að þetta kynni allt að misfarast sökum ágreinings um, hvaða leið skyldi fara í öflun teknanna. Ég hygg, að enn sé ekki komið svo, að ef Alþ. gefur þá skuldbindingu, sem í þessari till. felst, að það muni ekki leysa síðari hluta málsins, heldur muni einhver meiri hl. verða fyrir hendi um einhverja leið til tekjuöflunar í þessu skyni, einkum þegar þess er gætt, að eftir öllum líkum að dæma, og fyrir því má telja nokkurn veginn vissu, að þær byrðar, sem hér á að leggja ríkissjóði á herðar, yrðu ekki nema til bráðabirgða.