14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (4798)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Ólafur Thors:

Ég er ekki svo fróður, að ég geti með vissu sagt, hvaða fjárútlát verða fyrir ríkissjóð af þessari till., ef samþ. verður. Það var auðfundið, að hv. 1. flm. leit svo á, að þetta mundi vera nokkur baggi fyrir ríkissjóð, og geri ég ráð fyrir, að það sé rétt hjá honum, því að hann er mjög fróður um landbúnaðarmál. Það má vel gera ráð fyrir, að ef þessi till. á að framkvæmast í hálfan mánuð eða meira, þá verði kostnaðurinn fyrir ríkissjóð 2–3 millj. kr.

Varðandi vandann fyrir fjvn. get ég ekki annað en tekið undir það, sem hv. form. hennar sagði. Það vita allir á Alþingi, að þetta er einn liður í þeim málefnasamningi, sem fulltrúar flokkanna hafa verið að glíma við að undanförnu, og ættu þeir sömu fulltrúar að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu um málið og eiga þar hægara um vik en fjvn.