14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (4806)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Frsm. 1. minni hl. (Pétur Ottesen):

— Það vannst eðlilega ekki tími til á þeirri stund, sem fjvn. hafði til umráða, að ganga frá og prenta nál., svo að þeim yrði útbýtt nú, og ekki var tóm til að semja grg. fyrir afstöðu nefndarmanna. Nú vildi ég gera nokkra grein fyrir afstöðu 1. minni hl. n., en eins og till. hans ber með sér, munar í framkvæmd ákaflega litlu á afstöðu hans og 2. minni hl., sem vill samþ. þáltill. óbreytta, hvorir tveggja ganga inn á, að halda eigi áfram að borga niður verðlag á nokkrum innlendum vörum á innanlandsmarkaði, þó að 1. minni hl. telji í bili nóg að ákveða um þetta til 23. þ. m., en hinir miða við óákveðinn tíma.

Eins og fram kom í umr. um málið í dag, hafa setið á rökstólum nefndir frá öllum þingflokkum til að reyna að semja um málefnagrundvöll, sem stjórnarsamvinna yrði byggð á, og þessi verðlagsmál, er till. varðar, eru einn meginþátturinn í þeim samningum. En svo stendur á, að á morgun falla úr gildi ákvæði, er heimila að greiða úr ríkissjóði verðhækkun þessara vara á innanlandsmarkaði, og þann sama dag á að vera búið að ákveða verð á mjólk, kjöti og kartöflum. En þar sem svo hefur tekizt til, að ekki er fengin niðurstaða í samningunum um stjórnarmyndun, er ekki nema um tvennt að gera, að láta niður falla greiðslur á þessar vörur og skrá verð þeirra fyrir næsta tímabil með hliðsjón af því, að hætt verði að greiða verð þeirra niður, ellegar framlengja ákvæðin um niðurgreiðslu þeirra, unz skorið er úr því, hvort ráðið verði fram úr málinu með samningum, er yfir standa. Eindregið er gert ráð fyrir, að eitthvert samkomulag náist um niðurgreiðslur, svo að hér er aðeins um bráðabirgðasamþykkt að ræða, hvort sem samþ. er þáltill. óbreytt eða með brtt. 1. minni hl. En okkur virtist fresturinn ti1 23. þ. m. eiga að nægja og ekki vera hollt að gera ráð fyrir lengri bið eftir úrslitum samninganna. Þm., sem standa í þeim örðugleikum, sem eru á að mynda stjórn og ráða bót á öngþveiti því, sem nú ríkir í dýrtíðarmálunum, er að vonum nokkurt kappsmál og metnaðar að reyna að knýja fram þá lausn innan hóflegs tíma. Af hálfu þeirra manna viljum við láta koma fram, að gera beri allt til þess, að úr því máli fáist skorið á næstu dögum, og við það miðast till. okkar. Núv. ríkisstj. hefur sagt af sér frá morgundeginum að telja, og ekkert hefur komið fram, sem bendi til þess, að ríkisstj. ætli ekki að standa fast við þá yfirlýsing sína. Það er nokkuð glögg mynd af því hörmulega ástandi, sem ríkir á Alþingi, ef fela þyrfti ríkisstj., sama dag og hún segir af sér, að framkvæma meginatriði máls, sem ekki er samkomulag um milli hennar og þingsins og krefst skjótrar úrlausnar, — fela henni það um óákveðinn tíma. Nú er annaðhvort fyrir Alþingi að gera hreint fyrir sínum dyrum eða ekki. Er hægt að koma á ríkisstjórn, sem líkleg er til að leysa þessi aðkallandi vandamál? Ef Alþingi gefst upp á því, er ekki eftir neinu að bíða, nú á miðju kjörtímabili verður að rjúfa þing og freista að fá Alþingi svo skipað, að meiri hlutinn geti gert samtök með sér um ríkisstjórn og um lausn vandamálanna. Og satt að segja ættu þau samtök að geta orðið nú þegar. Hér á Alþ. þarf að ríkja um lausn vandamálanna meiri einlægni og raunhæfari samhugur til að herða á stjórnarmyndun en allar þessar samningaumleitanir, sem ekki hafa enn borið neinn árangur, bera vitni um, að sé fyrir hendi, ef verða mætti til þess, að skriður mætti koma á þessi mál. Sá hluti fjvn., sem að þessari till. stendur, hefur talið rétt að tímabinda gildi þessarar heimildar. Frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja tryggja rétt framleiðenda, er eiga hér hlut að máli, er enginn eðlismunur á þessari till. og því, ef vilji er fyrir hendi hjá meiri hl. Alþ. að halda uppi þessari ráðstöfun annars vegar, sem snertir alla landsmenn, að greiða niður landbúnaðarafurðir, og hins vegar að tryggja það samkomulag, sem kennt er við sex manna n., og halda þeim hlutföllum milli framleiðenda og verkamanna, sem þeir komust að niðurstöðu um. Hér skilur ekki mikið á milli.

Hvernig sem fer, ef svo ógiftusamlega skyldi takast, að ekki yrði búið að leysa þetta mál á þeim takmarkaða tíma, sem settur er, til 23. þ. m., verður vitanlega að reyna að taka þetta mál upp að nýju og reyna að ná samþ. meiri hl., ef önnur skipun er ekki komin, og hefur þá sá meiri hl. sama vald til að framlengja þetta. En náist sá meiri hl. ekki, er engin trygging í þáltill. Ég vildi aðeins taka þetta fram til að sýna, hvað það er lítið, sem skilur á milli frá málefnalegu sjónarmiði.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að segja um þessa tillögu. En í sambandi við fjárhagshlið málsins vil ég taka það fram, að hvaða till. sem samþ. verður, hefur Alþ. málið á sínu valdi og getur gert þá breytingu, sem því sýnist, og eins og þessi till. er orðuð um tímatakmörkun, felur hún ekki í sér nema lítil útgjöld fyrir ríkið. Það, sem er hér um að ræða, er hækkun, er nemur 9,4% þessa daga, ef til þess þarf að taka til 23. þ. m., og í raun og veru kemur ekki til þessarar hækkunar nema á mjólk og kartöflum, því að svo stendur á, að ekkert kjöt er enn komið á markaðinn og mun ekki verða neitt, sem teljandi er, fyrir 23. þ. m. Því verður þessi 9,4% hækkun ekki raunveruleg á því tímabili, sem um er að ræða. — Ég vildi láta þetta koma fram til að sýna, að þetta þyrfti ekki að vera nein röskun á þeirri stefnu, sem kann að vera ríkjandi í þeim samningum milli flokkanna, sem nú fara fram viðvíkjandi lausn á þessu máli.

Það er ekki fleira, sem ég þarf að segja í sambandi við þessa till., en legg til, að þessi bráðabirgðaúrlausn verði afgreidd á grundvelli þessarar till., sem hér er borin fram.