20.06.1944
Neðri deild: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (4809)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Allshn. hefur rætt frv. á skyndifundi og ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. skilar svohljóðandi nál.:

„Nefndin hefur ekki orðið ásátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði fellt, af ástæðum, sem gerð verður grein fyrir í framsögu.“

Minni hl. n., 2 af 5, voru þessu ekki samþykkir. Ég vil ekki fara ýtarlega út í málið til þess að lengja ekki umr. um of. — Frv. fer fram á, að dómsmrh. heimilist „að veita þeim, sem sviptir hafa verið borgara- og atvinnuréttindum með dómi eða vegna afleiðinga refsidóms fyrir afbrot framin fyrir 17. júní 1944, réttindi sin aftur án umsóknar.“ Þeir, sem sviptir hafa verið borgararéttindum með dómi, eru þeir, sem sekir hafa verið fundnir um verknað. sem er svívirðilegur að almenningsáliti. Þeir missa kosningarrétt, kjörgengi o.s.frv. Þeir geta fengið þessi réttindi aftur með uppreisn æru með umsókn samkv. l., sem fyrir fáum dögum voru samþ. hér á Alþ. Með þessu frv. er farið fram á, að þeir geti fengið uppreisn æru þegar í stað — ekki samkv. umsókn, heldur án umsóknar. Hér er um svo stórkostlegar breyt. að ræða frá því, sem verið hefur, að meiri hl. allshn. telur ófært að veita þeim samþykki sitt.

Annað, sem þarna kemur til greina, er svipting ökuleyfa. Samkv. þessu frv. á dómsmrh. að fá heimild til að veita þau aftur án umsóknar. Í l. mun vera ákveðið, að ökuleyfi megi veita aftur eftir 3 ár, séu viss skilyrði fyrir hendi. Í bifreiðal. frá 1941, 39. gr., segir svo: „Hafi maður verið sviptur ökuleyfi eða réttindum til að fá það í lengri tíma en 3 ár, þá getur dómsmrh.; er 3 ár eru liðin frá sviptingunni og sérstakar ástæður mæla með því, ákveðið, að honum skuli veitt ökuleyfið á ný“. Þó að einhver sé sviptur ökuleyfi ævilangt, er samt ekki loku fyrir það skotið, að hann geti fengið það á ný, ef hann sýnir sig hæfan til þess og æskir þess. En þegar lagt er til, að dómsmrh. sé heimilað að veita slíkt leyfi „þegar í stað“ og „án umsóknar“, t.d. þeim, sem hafa sýnt sig að vera stórhættulegir, þá er gerð hér svo stórkostleg breyt., að meiri hl. n. getur alls ekki fallizt á, að slíkt sé réttlætanlegt.

Þá telst það hæpið, að þeir, sem vöru svo heppnir að drýgja þessi. afbrot fyrir 17. júní þ. á., skuli njóta þessarar sérstöku náðar. en ekki þeir, sem frömdu sams konar afbrot, segjum degi síðar. Þetta mundi skapa misrétti í l., sem Alþ. gæti ekki verið þekkt fyrir að samþ.

Það er sagt af þeim, sem mæla með þessu frv., að þó að dómsmrh. sé gefin þessi heimild, þá sé ekki sjálfsagt, að hann noti hana í öllum tilfellum. En ef hann á að velja úr, hverjir skuli fá réttindi sín aftur, þau er þeir hafa verið sviptir, og hverjir ekki, þá er hér svo mikill vandi lagður á herðar dómsmrh., að órétt hlýtur að teljast.

Ég skal játa, að það gæti verið rétt í sumum tilfellum að veita aftur þau réttindi. sem af mönnum hafa verið tekin. og það mætti t.d. rýmka heimild dómsmrh. til þeirra hluta að einhverju leyti. En slík almenn lögvernduð endurveiting réttinda í öllum málum ætti ekki að koma til mála.

Síðan þetta frv. kom fram, hefur eðlilega verið farið að rifja upp ýmis mál. er það mundi ná til. Til dæmis veit ég um tvo bílstjóra, sem í ölvun voru valdir að bana, annar eins, hinn tveggja manna. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um það, hvort til mála kæmi að veita þessum mönnum á ný tækifæri til slíks verknaðar.

Þá vil ég taka það fram, að sá grundvöllur, sem frv. þetta er byggt á, er ekki fyrir hendi. Sú till., sem það er byggt á, hefur ekki verið framkvæmd. Og mér þykir ólíklegt, að dómsmrh. fari að veita slíka almenna sakaruppgjöf án þess að hafa ástæður fyrir slíku. Ég er þeirrar skoðunar, að almenn sakaruppgjöf og náðun eigi ekki að fara fram. Ef um náðun t.d. þeirra, sem hefðu verið dæmdir fyrir almenn uppþot, væri að ræða, þá mundi málið horfa öðruvísi við. Náðun hefur áður farið hér fram að vísu, t.d. við komu konungs, en ég tel fráleitt að gera það nokkru sinni og sízt af öllu hér.

Ég legg til, að frv. verði fellt.