20.06.1944
Neðri deild: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (4813)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Þetta frv. var til skyndimeðferðar á lýðveldisþinginu og fór gegnum Ed. og tvær umr. á einum degi í Nd. með afbrigðum, en við 3. umr. var synjað afbrigða. Mál þetta fór að vísu til allshn. hér í d., en hún fékk ekki nema fimm mínútur til að ræða málið. Meiri hl. n. mælti á móti frv., en það var samþ. samt sem áður við 2. umr. Það var þá hátíðaskap í mönnum, svo að þetta mál var þá ekki athugað svo vel sem skyldi.

Meiri hl. allshn: telur, að hér sé um mjög varhugavert mál að ræða, eins og það er úr garði gert. Að vísu má koma til mála að rýmka lögin, en að ákveða, eins og gert er í frv., að allir menn, sem sviptir hafa verið borgararétti, fái aftur borgararéttindi sín án umsóknar, tel ég til lítils sóma fyrir hæstv. Alþ. Ég man t.d., að á það var bent í umr. þá, að bifreiðarstjórar, sem hafa átt sök á dauðaslysum, ættu aftur að fá borgararéttindi.

Í afgreiðslu þessa frv. má ekki gæta fljótfærni. Ég vil fara fram á, að málinu verði vísað aftur til allshn., svo að henni gefist kostur á að ræða málið betur en henni vannst tími til á þeim fimm mínútum, sem hún hafði til umráða í sumar.