14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (4821)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Frsm. 2. minni hl. (Jónas Jónsson):

Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, er ekki mikill munur á till. 1. og 2. minni hl., en 3. minni hl. er, að ég hygg, á annarri skoðun, sem sé að gera ekkert í þessu máli og láta dýrtíðina byrja sinn fulla gang í fyrramálið. Það, sem við hv. 1. þm. Rang. berum fram á þskj. 319, er það, að við sjáum ekki ástæðu til annars en að Alþ. láti halda dýrtíðarráðstöfununum áfram, því að þetta verður að gera, þar til breyting verður á styrjaldaraðstöðu. Við sjáum ekki ástæðu til að tímabinda þetta við 6 eða 7 daga, af því að framkvæmdin er óhjákvæmileg. Væri mynduð stj., sem ekki gerði þetta, en sleppti dýrtíðinni lausri, væri hún dauðadæmd um leið og hún settist. Það, sem mér virðist einkenna afstöðu 1. minni hl., er það, að hann leggi eins konar velvild á þá stefnu. En mér sýnist eðlilegast, að þeir, sem standa að till., gangi hreint til verks og segi: Við ætlum að halda áfram að borga niður verðið, hvaða stj. sem er. Mér fannst hv. þm. Borgf. gera of mikið úr stjórnarskiptunum, sem eru ekki enn orðin, og mér skilst stj. ekki þurfa að segja af sér, hvor till. sem samþ. verður. En stj. hefur aðvarað Alþ. Hún álítur það ekki hentugt sér að stjórna, eftir að dýrtíðinni hefur verið sleppt lausri. En það er ekki búið enn.

En það er eitt atriði annað við það, sem hv. þm. Borgf. minntist á í sambandi við samningsumleitanirnar um myndun stjórnar. Ég er ókunnugur þeim. Ég er ekki í þeirri n., og þær eru ekki ræddar opinberlega á Alþ., en mér skildist undirstaðan vera sú að ganga á hlut bændastéttarinnar. En ég vil nota tækifærið og vara alla við að gera þetta, enda engar líkur til, að af því leiði neitt gott að taka eina stétt út úr og það þá einu stétt, sem ekki hefur komið sér upp félagslegum samtökum til að gera verkföll, ef sú stétt á að fá það þakklæti, að samið verði um, að verð á afurðum hennar verði sett fast í hlutfalli við kaup ákveðins tíma, en kaupið síðan hækkað með strækum, þannig að bændur hafa orðið að búa við þetta hækkaða kaup í sumar. Mér skilst, að þessa nýju stjórn eigi að byggja á því að svíkja það atriði, að verð á afurðum bænda skuli jafnan fylgja kaupgjaldinu og níðast á þessari einu stétt, sem ekki hefur tekið á sig herklæði verkfallanna. Annars álít ég ekkert á móti því, ef meiri hl. Alþ. vill ekki halda áfram að borga dýrtíðina niður, að láta hana koma í fullan gang og bændur fá sitt fulla kaup hlutfallslega við verkamenn.

Ég er ekki sammála hv. þm. Borgf. um það, að aðalatriðið sé stjórnarskipti. Aðalatriðið er, hvenær þjóðin vitkast svo, að hún sjái úrræði til að lækka dýrtíðina, og það er ekki um það að ræða, hvort það er þessi eða hinn ráðh., vegna þess, að ef skipt verður um stj. á morgun og hætti hún að borga niður dýrtíðina, þá er það ekki henni að kenna, heldur Alþ., sem skapaði þessa stjórn. Hæstv. fjmrh. var sá eini, sem talaði skynsamlega um, að þjóðin verði að læra að fara niður stigann, svo að hún standi ekki eins og glópur eftir nokkra daga og geti ekki annað en dáið í sínu eigin hreiðri. Þess vegna er það, að sú atkvgr., sem hér fer fram í kvöld, er kannske ekki merkileg, en hún ætti þó að sýna vilja hv. þm. Í fyrsta lagi eru þeir, sem vilja fresta þessum óförum í aðeins viku, en við viljum ganga hreint til verks að halda verðlaginu niðri, og svo eru þeir fuglar, sem enga till. hafa í þessu máli, en vilja setja allt á höfuðið.