14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (4823)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Páll Zóphóníasson:

Ég vil aðeins leiðrétta tvenns konar misskilning, sem komið hefur fram. Í fyrsta lagi er það atriði, að samkomulag sex manna n. nær til 15. sept., 15. sept. er síðasti dagurinn, svo að samkomulagið fellur ekki úr gildi á morgun. Það er ekki fyrr en 16. sept., að nýja verðið kemur, en hitt hafa þó allir talið sjálfsagt. Í öðru lagi vil ég minna hv. þm. G.-K. á eitt atriði og undirstrika það, af því að ég býst við, að það hafi farið fram hjá hv. þm. Hann segir, að þó að till. verði samþ., hafi hún ekkert gildi nema tekna sé aflað jafnhliða, annars sé hún bara leikur eða hálfgert fals. En fyrr á þessu þ., sem nú stendur, flutti hann þáltill. á þskj. 258, og þá stóð ég upp til að benda á þetta sama. Væntanlega áttar nú hv. þm. sig á því, að það stoðar ekki að koma með till. um útgjöld án þess að koma um leið með tekjuöflunartill. móti þessum útgjöldum. Þetta vil ég minna hann á, svo að hann rumskist til meðvitundar um það, hvað rétt er.

Ég skil, að hv. þm. Borgf. hafi haft gaman að því, að hv. fjvn. var ekki búin að skila af sér fjárl. fyrir áramót og varð að fá margendurtekinn frest, en mér og ýmsum öðrum þótti hins vegar skömm að þessu. Þetta vill hann nú, að endurtakist, að gefin sé út á átta daga fresti ný og ný heimild, þangað til búið sé að koma sér saman um grundvöllinn. En ég er ákveðinn með því að fylgja till. óbreyttri.