14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (4827)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég hef skrifað undir nál. 1. minni hl. með fyrirvara, og vil ég nú gera grein fyrir þeim fyrirvara mínum.

Það er kunnugt hér á Alþ., að ég er og hef verið á móti því að greiða uppbætur úr ríkissjóði á þær innlendu framleiðsluvörur, sem neytt er í landinu sjálfu. Ég er þeirrar skoðunar, að það geti alls ekki gengið til lengdar, að ríkissjóður greiði þessar uppbætur. Það hefur verið reiknað út, að ef ætti að halda áfram þessum greiðslum úr ríkissjóði, að viðbættri þeirri hækkun, sem nú á að koma á innlendar framleiðsluvörur samkvæmt lögum og samkvæmt útreikningum 6 manna n., og að viðbættum uppbótum á útfluttar landbúnaðarafurðir, þá mundu þær fjárgreiðslur nema um 30–40 millj. kr. til 1. júlí n. k.

Það er því augljóst, að þetta er braut, sem ekki er fær, þegar ríkissjóður getur varla staðið undir öðrum greiðslum, sem honum ber að inna af hendi.

Annað mál er það, að ég vil ekki setja mig á móti því, að þetta verði greitt til bráðabirgða, á meðan verið er að reyna að koma nýrri skipan á dýrtíðarmálin, en þetta er alveg ófært til lengdar, og fjvn. mun sannfærast um það, er hún fær fjárl. til meðferðar, að þetta er allt of þungt álag á ríkissjóð. Það eru nú uppi raddir um það, að verið sé að halda dýrtíðinni niðri með þessum ráðum, en það er sitt hvað dýrtíð og vísitala. Það er ekkert annað en sjálfsblekking hjá þeim, sem halda, að það fari alltaf saman, því að dýrtíðin er sú sama, þótt vísitalan sé greidd niður með framlagi úr ríkissjóði. Þessi afstaða mín til dýrtíðarmálanna er því alveg óbreytt, en ég mun greiða atkv. með brtt. 1. minni hl., af því að ég kann þeirri lausn heldur betur en því, sem felst í aðaltillögunni. En það er að skoðun minni alveg ófær leið að halda áfram að greiða niður vísitöluna, sem engin áhrif hefur raunverulega á sjálfa dýrtíðina, og þessi atkvgr. mín í fjvn. var aðeins á milli brtt. 1. minni hl. og aðaltill.