01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (4846)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Síðan ég kvaddi mér hljóðs í gær, hefur verið flutt hér brtt. af hæstv. dómsmrh. við frv. Og ég vil nú beina þeim tilmælum bæði til hæstv. forseta og einnig til hv. form. allshn., hvort ekki væri rétt að fresta málinu, svo að n. gæti tekið afstöðu til þessarar brtt. Mér skilst, þar sem hér á hlut að máli sá hæstv. ráðh., sem á að framkvæma það, sem í frv. felst, ef það verður samþ., að ekki sé til of mikils mælzt, að n. fái að athuga málið, eftir að þessi brtt. hæstv. ráðh. er fram komin, og þá það, hvort hæstv. ráðh. hefur ekki á fullum rökum reist þær brtt., sem hann hefur hér flutt, og e.t.v., hvort ekki þyrfti að bæta við þær brtt.

Ég hef lýst því áður, að þetta mál hefur ekki legið fyrir í n. til meðferðar, síðan ég tók þar sæti, svo og, að allt, sem gerzt hefur í málinu, hefur gerzt utan athugunar n.