11.09.1944
Sameinað þing: 40. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (4852)

103. mál, endurbygging Ölfusárbrúarinnar o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Mig undrar það ekkert, þótt þm. Reykv. og héraðanna austan fjalls telji sér skylt að láta koma fram á Alþ. till. um, að sem skjótast og bezt verði bætt úr því, að samgöngur geti aftur hafizt með eðlilegum hætti yfir Ölfusá, og er ég að fullu og öllu samhuga þeim um það að láta í ljós ósk mína og vilja um, að þetta geti orðið sem fyrst. En þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, gerir í raun og veru meira en að láta í ljós áhuga á þessu. Hún gerir þetta: Hún skorar á ríkisstj. að láta þegar í stað hefja smíði á nýrri brú, hún skorar á ríkisstj. að byrja og án nokkurs undandráttar að láta fara fram rækilega athugun á bráðabirgðabrú á Ölfusá og enn fremur gera umbætur á Hrunamannahreppsveginum. — Ég tel mér skylt að láta hæstv. Alþ. í té upplýsingar um, hvað þegar hefur verið gert í þessu máli.

Í fyrsta lagi viðvíkjandi smíði nýrrar brúar er það, eins og hv. þm. er sjálfsagt kunnugt, í undirbúningi. Bráðabirgðaáætlanir hafa verið gerðar og uppdrættir að væntanlegri brú. Strax sama dag og þetta slys vildi til, að Ölfusárbrú féll niður, þá var lagt fyrir vegamálastjóra að verða sér úti um þá aðstoð, sem þyrfti, því að verkfræðingar eru tiltölulega fáir hjá vegamálastjóra sem stendur. Honum var falið að verða sér úti um verkfræðilega aðstoð til viðbótar til að hlaða undir brúna og framkvæma nýja brúarsmíði. Vegamálastjóri hefur lagt sig fram um þetta, og er það mál komið á sæmilega góðan rekspöl. En það er ekki nóg að láta í ljós ósk um, að brúin verði smíðuð og gerðir fullkomnir uppdrættir og útveganir á efni, sem nú þegar er verið að. Það þarf meira til. Það þarf peninga til þessara framkvæmda. Það liggur ekki fyrir nákvæm áætlun, en eftir áætlun, sem gerð var í sumar, þarf 1.600.000 kr. til að smíða nýja brú. Það, sem mest liggur á fyrir hæstv. Alþ., er ekki að skora á ríkisstj. að gera það, sem í fullum gangi er, heldur leggja til peninga, svo að mannvirkið verði smíðað.

Hitt atriðið, að láta sem fyrst og án nokkurs undandráttar fara fram rækilega athugun um bráðabirgðabrú, þá er svipað um það að segja, að strax og brúin bilaði, lagði ráðun. til að hefjast þegar handa um að koma á bráðabirgðabrú, og hefur verið unnið að því sleitulaust síðan og með þeim árangri, að fyrir helgi náðist upp einn strengurinn og annar í morgun, og einnig hefur þriðja strengnum, styrktarstreng, verið komið yfir ána. Verður reynt að styrkja strengina og ef til vill síðar settur stólpi undir á grynninguna. Það virðist því vera á allgóðri leið, að heppnast megi að laga Ölfusárbrú svo, að hægt verði að notast við hana að nokkru leyti. Ég fullyrði þó ekkert um þetta, en það er vonandi, að tekizt geti að gera hana þannig, að hún verði a. m. k. nothæf fyrir gangandi fólk. Ef það heppnast, er það að sjálfsögðu öllum ljóst, að þetta munu verða fljótustu aðgerðirnar, sem hægt er að viðhafa til úrbóta um flutninga.

En jafnhliða þessu er verið að framkvæma athugun á því að koma fyrir kláfferju á ána, ef brúin skyldi ekki duga. Og í tilefni af því, að hv. 1. þm. Árn. taldi áðan slíka kláfferju til lítils, þá viðurkenni ég, að ég hef persónulega ekki þekkingu til að dæma um það. En ég hef átt tal við mann, sem býr á árbakkanum og flutningarnir hvíla nú að verulegu leyti á, og hefur hann látið í ljós það álit sitt, að ef brúin kæmist ekki í það stand, að hún dygði til vöruflutninga, þá teldi hann kláfferju það næstbezta. Þetta er í athugun, og að henni lokinni verður ákveðið, hvað gera skuli, og höfð beztu manna yfirsýn um, hvað sé fært og hvað sé bezt.

Ég vildi með þessu hafa skýrt frá því, að athugun og starf er í fullum gangi viðkomandi því, sem fyrri hluti till. fjallar um.

Þriðja atriðið er Hrunamannahreppsvegurinn. Ég heyri á hv. 1. þm. Árn., að honum þykir lítið unnið þar, fátt fólk og fáir bílar. Þetta má svo vera, ég er þar ekki nægilega kunnugur til þess að svara um þetta nú á stundinni. En eftir því, sem hv. þm. upplýsti, er þarna 17 km vegur ófær, og við erum nú bráðum í miðjum september. Þó að settir væru í þetta verk allir menn, sem hægt væri að ná saman eins og stendur, þá efast ég um, að það kæmist svo vel áfram, að til verulegra úrbóta yrði. A. m. k. lít ég svo á, að það eigi að leggja meginkapp á að gera flutningsfært yfir ána, — láta orkuna ganga í það, — en síðan hitt að koma þessum vegi í lag, til þess að hægt sé að flytja þungavörur frá Reykjavík austur. Því að auk þess sem langur kafli vegarins er ófær, eins og hér var lýst, er á annað hundrað km. krókur að fara þessa leið.

Ég hef svo ekki frekar að upplýsa að svo stöddu, en vil endurtaka, að það, sem hér veltur á, til þess að framkvæmdir geti gengið hiklaust með smíði nýrrar brúar, er ekki það að skora á ríkisstj. að undirbúa það mál, því að það er í fullum undirbúningi, heldur að leggja til peninga, svo að mannvirkið geti orðið byggt.