11.09.1944
Sameinað þing: 40. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (4853)

103. mál, endurbygging Ölfusárbrúarinnar o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég ætlaði nú ekki að kveðja mér hljóðs í þessu máli, heldur láta nægja það, sem hv. 1. flm. sagði, sem vitanlega er sagt af kunnugleika og á fullnægjandi hátt, svo langt sem sú skýrsla nær. En vegna ræðu hæstv. samgmrh. segi ég nokkur orð, en alls ekki af því, að hann hafi ekki tekið með nægum skilningi á málinu í meginatriðum, heldur þvert á móti. Og ég er honum þakklátur fyrir, hvað hann tók vel og rösklega í strenginn með þeim, sem fyrst og fremst eiga að vera málsvarar í þessu máli. Er góðra gjalda vert, að ríkisstj. og vegamálastjóri eru þegar komin á stað með nauðsynlegustu aðgerðir. En samt er ástæða til að minnast frekar á nokkur atriði, sem drepið hefur verið á. Um leið og hæstv. ráðh. mælti drengilega að öllu leyti með þessum aðgerðum, þá sagði hann eitthvað í þá átt, að það væri ekki fyrst og fremst framkvæmd brúarsmíðinnar, sem um þyrfti að tala, heldur hvernig útvega ætti peningana. Ég er í rauninni á allt öðru máli, þó að það þyki kannske gapalega sagt af mér. Undir venjulegum kringumstæðum er eftir hlutarins eðli það fyrsta að tryggja peningana og síðan framkvæmd verksins. En það getur stöku sinnum staðið svo alveg sérstaklega á, að það á ekki að spyrja um verð eða útvegun peninga, þar sem er, hvort sem er, einhver peningaleg geta fyrir hendi, sem ekki verður neitað, að hér á sér stað. Verk getur verið svo nauðsynlegt, að það verði að ákveðast og undirbúningi að hraða til framkvæmda á alla lund og peningarnir svo fyrir það að greiðast og útvegast jöfnum höndum við undirbúning og framkvæmd. Þær bráðabirgðaaðgerðir, sem hér er um að ræða, og framtíðarbrúin sjálf eru meðal slíkra aðgerða. Þar er ekki að ræða um, hvað hún kostar, heldur að hún sé gerð með fyllstu forsjá. Þess vegna verð ég að telja, að till. eins og hún er orðuð sé réttlát að öllu leyti, þótt í henni sé látið sitja við það eitt, að ríkisstj. sé heimil greiðsla fyrir þessar aðgerðir. Greiðslan verður að koma. Það væri allsherjar-gjaldþrotayfirlýsing nú á tímabili hinna bólgnu peningaseðla, ef slíkt yrði gert að nokkru álitamáli, þar sem um annað eins nauðsynjamál er að ræða.

Samgöngumálin þarna eystra hefðu verið í betra horfi nú, ef Alþ. hefði sýnt skilning á því máli, sem ég og fleiri fluttum síðast nú fyrir nokkrum missirum, nefnilega um brú á Hvítá hjá Iðu. Sú samgöngubót var nauðsynleg og sjálfsögð, þar sem um slíka meginelfi er að ræða í miðju stóru héraði, bæði vegna læknisvitjana og annars. Ef við hefðum þá brú nú, væri minni krókur að venda þangað með umferðarstrauminn en alla leið að Brúarhlöðum, sem er þar að auki þýðingarlaust eins og stendur, þar eð vegurinn þar efra er ófær. En brúarþörfin við Selfoss hefði auðvitað staðið óbreytt fyrir því. Þegar maður ferðast til og frá um landið, blasa oft við brýr á tveimur til þremur stöðum á sömu ánni í sumum dölum og fjölbyggðum héruðum. Þessi eina brú á jafnstórkostlegu vatnsfalli í meginbyggð stenzt því engan samanburð við það, sem víða er á landinu. Þess vegna standa menn nú eins og þvörur með þarfir sínar báðum megin á bökkum elfarinnar.

Viðvíkjandi orðalagi till., sem ráðh. minntist á, þykist ég vita fyrir mitt leyti, að fyrir flm. vaki það, að áður en hafizt er handa um sjálfar framkvæmdirnar, sé náttúrlega hafin rannsókn og undirbúningur og honum lokið, þó að till. nefni ekki þetta beinlínis. Hér eru aðeins notuð áherzlumikil orð. Um þessa brú má segja, að á því hefur verið nokkur seinagangur, — þó að enginn skuli hafður þar að sök, — um það, sem gera þurfti, síðan hún fór að eldast og reynt hefur meir og meir á hana. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að kveðið sé eindregið að orði, og meðan það er ekki gert á óhæfilegan hátt, er ekki um það að fárast.

Í till. er talað um að taka fullt tillit til um styrkleika brúarinnar, að flutningaþörf hafi verið og sé hraðvaxandi. Það er víst, að þarna þarf alveg sérstaklega að vanda til verks. Teikningin af fyrirhugaðri brú er falleg og gaman að horfa á hana. Má vera, að hún sé gerð af þeirri víðsýni, sem nauðsynleg er, því að þessari brú mun þurfa að ætla meira burðarmagn og kannske á annan hátt en gera þarf ráð fyrir um nokkra aðra brú hér á landi. Það er ekki komin nein niðurstaða um það, hvernig vegagerð skuli háttað austur í framtíðinni. Þetta vil ég segja, án þess að ég sé að gerast boðberi þess, að hin eina framtíðarlausn á samgöngum austur sé járnbraut, en um það heyrast nú ýmsar raddir. En þó að það verði ekki ofan á, þá eru svo miklar samgöngur á þessu svæði, sem nota brúna, og munu verða ekki síður á komandi tíma, að sú brú þarf að verða á sérstakan hátt rammbyggileg.

Ég ætla ekki að lýsa nauðsyn þessa máls frekar í heild, því að það hefur verið svo vel gert af flm. þess. En um leið og ég sezt niður, vil ég þó taka fram eitt stórvægilegt atriði, sem lýtur að bráðaðkallandi þörf. Það eru fjárflutningarnir til Reykjavíkur. Úr sveitunum er flutt lifandi fé til slátrunar og allt yfir Ölfusárbrú. Meðan engin skyndibrú er, falla slíkir flutningar niður, því að flytja fé yfir á ferju í stórum stíl, held ég, að þeir, sem eru málinu nákunnugastir, telji ógerlegt. Ferjan við Selfoss er svo varhugaverð og heimtar svo sérstaklega mikinn kunnugleika, og það er þröngt um vik þarna. En hvað snertir að flytja mjólk og svo menn og farangur þeirra, þá er auðveldara að koma lögum yfir slíka flutninga.

Ég álít rétt, að minnzt sé á það hér, að ef sláturfé er ekki slátrað austur frá og skrokkarnir fluttir, — því að ekki er frystihúsakostur mikill, — þá yrði að hefjast bráðlega handa af hálfu stj., sláturfélagsins og fleiri hlutaðeigenda um ferju annars staðar en á Selfossi, t. d. Kirkjuferju eða Kotferju, sem er hvort tveggja góður ferjustaður.

Þó að ég hafi minnzt á fáein atriði, sem komu mér eitthvað öðruvísi fyrir sjónir en ég hefði helzt kosið, þá kann ég hæstv. ráðh. þakkir fyrir, að hann tók vingjarnlega og með skilningi í þetta mál og lét þess getið, að hafizt yrði nú handa. Það starf þarf að vera samtaka og fjölhliða, ef vel á að fara.