20.09.1944
Sameinað þing: 45. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (4860)

103. mál, endurbygging Ölfusárbrúarinnar o.fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. — Fjvn. hefur haft til meðferðar þessa till. á þskj. 295, og er álit hennar að finna á þskj. 333. Eins og þar má sjá, leggur fjvn. eindregið til, að till. verði samþ. með dálitlum orðabreyt. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till. Málið er svo kunnugt, að ekki er þörf mikilla umr.

Fjvn. kallaði á fund sinn samgmrh., fjmrh. og vegamálastjóra. Voru þeir allir sammála um, að hér þyrfti bráðra aðgerða við. Eins og kunnugt er, var fyrir tveimur árum gerð teikning og kostnaðaráætlun fyrir smíði nýrrar brúar á Ölfusá hjá Selfossi rétt ofan við gömlu brúna. Var kostnaðurinn áætlaður 1600 þús. kr., en vegamálastjóri taldi, að nú mundi hann verða eitthvað meiri eða allt upp í 2 millj. kr. Leggur n. eindregið til, að nú þegar í haust verði hafizt handa um undirbúning að smíði þessarar nýju brúar, því að málið þolir enga bið. N. væntir þess og hafði fyrir því vilyrði frá hæstv. fjmrh., að tekin yrði upp í fjárlagafrv. næsta árs þessi upphæð, svo að sú hlið málsins væri tryggð. Sem sagt, n. leggur til, að till. verði samþ. með lítils háttar breyt., sem er miðuð við breyttar aðstæður þar eystra.

Nú er svo komið, að telja má líklegt, að hægt verði að ná Ölfusárbrúnni upp aftur. Er þegar búið að lyfta henni að nokkru leyti, og má gera sér von um, að hægt verði að nota hana eitthvað til flutninga til bráðabirgða. Leggur n. einnig hina mestu áherzlu á, að allt verði gert, sem unnt er, til að koma því verki áfram, svo að hægt verði að gera gömlu brúna nothæfa sem allra fyrst og að hægt verði að nota hana þar til nýja brúin verður fullgerð.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, en óska þess fyrir hönd n., að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. leggur til, og vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni.