03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (4887)

126. mál, opinberir starfsmenn

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég er hv. allshn. þakklátur fyrir góða afgreiðslu á þessu máli, þar sem hún leggur til, að till. verði samþ. óbreytt. Hv. 2. þm. N.-M. hefur sérstöðu í þessu máli, og vil ég víkja að því fáeinum orðum. Það hefur komið fram fyrr, að rétt væri að steypa saman launaákvæðunum og ákvæðum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, og í lagabálki, sem var fyrir þinginu 1935–1936, var þetta í sama frv. Nú hefur orðið sú raun á, að í frv. til launal. eru ekki tekin upp almenn launaákvæði, og lít ég svo á, eins og líka kemur fram í frv., að það sé betra fyrir bæði málin að skilja þau að. Löggjöf um opinbera starfsmenn hefur verið um langan aldur mjög aðkallandi, en einmitt af því, að það hefur verið tengt við launaákvæðin, hefur tafizt að setja þessa nauðsynlegu löggjöf. Sú leið, sem hv. 2. þm. N.-M. bendir á, er óframkvæmanleg, að hægt sé á skammri stundu að semja jafnvandasaman og þýðingarmikinn lagabálk. Til þess þarf mikinn tíma og undirbúning, og næg önnur verkefni eru fyrir hendi. Ég held því, að þetta sé óframkvæmanlegt. Hv. þm. sagði, að sér þætti óhugsandi að ákveða laun opinberra starfsmanna, nema hann vissi, hvaða réttindi og skyldur fylgdu starfinu. Mér finnst, að afstaða hv. þm. ætti miklu fremur að greiða fyrir þessari till., en ekki eins og hann heldur fram að tefja fyrir henni, því að hann vill hafa þennan lagabálk fyrir hendi áður en hann afgreiðir lögin.