01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (4893)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Það hefur ekki fengizt samkomulag í allshn. um, að Alþ. sjálft tæki á sig ótvíræða ábyrgð á þeim ráðstöfunum, sem í frv. greinir. Ég skal líka endurtaka yfirlýsinguna, sem ég gaf áðan. Mér finnst, þar sem með þessu er verið að móta nýjar reglur eða möguleika til náðunar, að Alþ. sé að fela dómsmrh. einhvers konar dómsvald. Og ég tel þetta mjög erfitt mál. Í framhaldi af því, sem ég sagði, vil ég segja það, að ef frv. verður afgr. í því formi, sem það liggur fyrir, án þess að Alþ. taki sjálft á sig ábyrgðina, þá mun ég taka það til athugunar að nota heimildina alls ekki eða þá út í yztu æsar, eftir því, sem frv. leyfir. Af tilgreindum ástæðum er ég á móti frv. Og mér finnst till. hv. allshn. um skilyrði fyrir náðuninni, að verknaðurinn hafi ekki valdið heilsutjóni, nokkuð fráleit. Það eru fleiri en eitt dæmi til þess, að bifreiðastjórar hafi valdið heilsutjóni án þess að hafa verið ölvaðir eða átt sökina. Menn hafa verið dæmdir í sektir og misst réttindi vegna þessa. Aðrir menn hafa ekið drukknir einsamlir og bíllinn rekizt víða á án þess kannske að valda tjóni á mönnum, svo að það er alger tilviljun, hvort verknaðurinn hefur valdið heilsutjóni eða ekki.

Ég er mótfallinn því, að till. minni verði hnýtt aftan í brtt. n. Ég ætlast til þess, ef Alþ. samþ. hana, að henni verði þá valinn sá staður , sem ég hef ákveðið.