01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (4895)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — Áður en gengið er til atkvgr., vil ég gera grein fyrir afstöðu minni til málsins, þótt hv. þm. Snæf. hafi að miklu leyti gert það.

Þegar þetta frv. kom í d., áður en þingi var frestað á sl. ári, þá klofnaði n. um málið. Meiri hl. n. mælti móti því, að frv. væri samþ., en minni hl. mælti með málinu. Eftir undirtektum hér í d. má gera ráð fyrir því, að frv. verði samþ. Á för frv. gegnum þingið, áður en þingi var frestað, var það stöðvað með því að neita um afbrigði, en meirihlutavilji virðist nú vera fyrir frv. Það er kunnugt, að þáv. dómsmrh. (EA) sagði svipað og núverandi dómsmrh., að það væri ákaflega erfitt að fá til sín heimild til að náða og meta þannig í einstökum tilfellum, hvað væri réttar málsbætur o.s.frv. Nú hefur hæstv. ráðh. gefið þá yfirlýsingu, að hann muni annaðhvort nota heimild frv. út í yztu æsar eða ekki. Og þá má segja, að frv. sé í raun og veru tilgangslaust, a.m.k. í mínum augum. Og ef nota á heimildina út í yztu æsar, tel ég það hættulegt og verð á móti frv. Af þeim ástæðum beitti meiri hl., n. sér gegn frv.

Nú vil ég taka það fram, eins og hv. þm. Snæf. hefur áður gert, að brtt. þær, sem fluttar eru, sumpart af n. og nm., eru áreiðanlega til bóta. – Hins vegar get ég skilið afstöðu hæstv. dómsmrh. Það er mjög erfitt fyrir hann að fá til sín menn, svo að tugum og jafnvel hundruðum skiptir, og eiga að gera upp á milli þeirra um málsbætur. Það er bæði erfitt og vanþakklátt verk, svo að afstaða hæstv. ráðh. er mjög skiljanleg. Það má þess vegna segja, að það kunni að vera eðlilegt, að sú náðunarheimild gildi, sem nú er í l., fyrir forseta Íslands, sem sé eftir vissan tíma, frá því að brotið var framið.

Niðurstaðan af því, sem ég hef sagt, er þessi: Ég vil greiða atkv. með brtt., sem fram hafa komið, en að gefinni yfirlýsingu hæstv. dómsmrh., mun ég greiða atkv. á móti frv.