18.09.1944
Sameinað þing: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (4905)

114. mál, framleiðslutekjur þjóðarinnar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa langa framsöguræðu um þessa till., en get að mestu látið nægja að vísa til grg., sem henni fylgir. Tilgangurinn með þessari till. er að fá hagskýrslur okkar fullkomnari en þær nú eru. Á síðara aukaþinginu 1942 bar ég, ásamt hv. þm. N.-Þ., fram þáltill. í Nd. um útreikning þjóðarteknanna. Þessi þál. var samþ. þar þann 30. marz 1943. Um haustið 1943 var svo lagt fram á Alþ. yfirlit, sem ríkisstj. hafði látið gera, um þjóðartekjurnar árin 1936–1940, en þetta yfirlit var gert með nokkuð öðrum hætti en til hafði verið ætlazt af okkur flm. till. Þetta yfirlit var þannig gert, að taldar voru saman skattskyldar tekjur manna eftir skattskýrslunum, og við það var bætt áætluðum tekjum skattfrjálsra aðila. Það getur að vísu verið gott að fá slíkt yfirlit eftir skattskýrslunum, en það er þó ekki fullnægjandi til að sýna raunverulegar tekjur þjóðarinnar. Betra yfirlit um þær ætti að vera unnt að fá með öðrum reikningsaðferðum.

Ég hef því leyft mér að flytja þessa þáltill. í framhaldi að þeirri þál., sem áður um getur. Þar er gert ráð fyrir því, að reiknaðar verði út tekjur af vöruframleiðslu landsmanna ár hvert. Er til þess ætlazt, að talið verið saman verðmæti allra sjávar- og landbúnaðarafurða, sem framleiddar eru, og einnig þeirrar iðnaðarframleiðslu sem mesta þýðingu hefur fyrir þjóðarbúskapinn. Til frádráttar vöruverðinu komi síðan verð aðkeyptra vara til framleiðslunnar, og jafnframt er ákveðið að telja saman verð þeirra tækja og fasteigna, sem notaðar eru á einhvern hátt til framleiðslunnar, til þess að hægt sé að áætla af þeim hæfilegan fyrningarkostnað, sem einnig dragist frá vöruverðinu. Vöruframleiðsla til útflutnings og notkunar innanlands er sá grundvöllur, sem efnahagur landsmanna byggist á. Það er því lítt viðunandi, að ekki séu til sæmilega nákvæmar skýrslur um magn og verðmæti framleiðslunnar.

Ég óska þess að lokum, að þessari þáltill. verði, að lokinni þessari umr., vísað til síðari umr. og allshn.