18.01.1945
Efri deild: 105. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (4909)

257. mál, veltuskattur

Haraldur Guðmundsson:

Eins og fram er tekið í grg. frv., þá er það flutt eftir tilmælum hæstv. fjmrh., en einstakir nm. hafa óbundin atkv. um frv. og einstök atriði þess.

Það tjáir ekki að leyna því, að þessi aðferð við tekjuöflun fyrir ríkissjóð er að minni hyggju — og ég held vel flestra — svo óæskileg, að það er aðeins af illri nauðsyn, eins og fram kom af ræðu hæstv. fjmrh., að þessi leið er farin og hugsuð aðeins í eitt skipti undir þeim sérstöku kringumstæðum, sem við búum nú við. Ég vil taka undir ummæli hæstv. fjmrh. um það. að það sé engan veginn ætlun ríkisstj. eða þeirra flokka, sem standa að henni, að framlengja þetta frv., þó að það yrði að l., enda hygg ég, að það sé ekki ofmælt, að það væri lítt gerlegt að ætla slíkri löggjöf að verða varanlegri, því að segja má, að þar sé eitt látið ganga yfir réttláta og rangláta, — ef hægt er að tala um rangláta í þessu tilfelli, — sem hefur a.m.k. í skattamálum ekki verið talin æskileg aðferð.

Ég skal ekki gera frv. eða einstök atriði þess að umtalsefni að þessu sinni. Mér þykir þó rétt að taka fram, að höfuðgalla frv. tel ég þann, að þar er gert ráð fyrir, að þetta gjald sé tekið af veltu ársins 1945. Og eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. fjmrh., er mér enn þá ljósara, að þetta er svo stór galli á frv., að hann verður að teljast grundvallaratriði við meðferð málsins.

Ég hygg, og mér fannst það líka á hæstv. fjmrh., að honum virtist, að innheimta skattsins, framkvæmd l., verði stórum auðveldari, ef miðað er við veltu ársins 1944, bæði álagning, eftirlit og framkvæmd. Enn fremur er þess að gæta, að á árinu 1944 var þó nokkur hluti af þeim vörum, sem fór um hendur verzlananna, ekki undir verðlagsákvörðunum, og það er enginn efi á því, að þessi hluti varanna, svo mjög sem ýmsum þykir á skorta, að verðlagseftirlitið hafi uppfyllt þær vonir, sem menn gerðu til þess, að þessi hluti varanna hefur verið stórum arðvænlegri fyrir það, að ekkert verðlagseftirlit var með þeim. Nú aftur á móti mun komið verðlagseftirlit á allar vörur, svo að ekki verður því til að dreifa á árinu 1945, að hægt verði að rökstyðja skattinn með því, sem þó var hægt árið 1944.

Það er augljóst, að ef á að leggja á veltuna 1945, svo framarlega sem ekki er svo langt gengið, að ætlazt sé til, að fyrirtækin starfi með tapi, sem gjaldið eiga að greiða, þá á að vera unnt fyrir verðlagseftirlitið að ná lækkun á vörum, sem svarar því gjaldi, sem hér á að leggja á, og það verða menn að gera, ef á að vera mögulegt að gera þau ákvæði l. að veruleika, að þessi skattur komi ekki fram á vöruverðinu. Það verður ómögulegt að telja fólki trú um, jafnvel þó að það sé satt, að þessi skattur verði aðeins í eitt ár. En ef hann er lagður á veltuna 1944, þá er undirstrikað svo greinilega sem verða má, að þetta er aðeins hugsað sem veltuskattur í eitt skipti. Ég veit, að eftirsköttun lætur ekki vel í eyrum ýmissa, en mér heyrðist hæstv. fjmrh. bera það fram um mál það, sem var á dagskrá næst hér á undan, að þar væri um eftirsköttun að ræða, enda er það ekki hægt nema á þann hátt, því að mörg skip hafa skipt um eigendur, og enn er óvíst um afkomuna á þessu ári. Bæði þessi rök eiga fullkomlega við um þetta mál. Mér virðist því augljóst, að það sama eigi við í báðum þessum tilfellum.

Ég taldi rétt að láta þetta koma fram nú þegar við þessa 1. umr. málsins og vil mega vænta, að þetta verði tekið til fyllstu athugunar á ný í n., sem ég á sæti í, og eins hjá hæstv. stj., sem ég veit. að fylgjast muni vandlega með öllum gangi málsins.