19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (4916)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. lét í ljós þá skoðun, að heppilegra mundi að leggja veltuskattinn á árið 1944 en árið 1945, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þessi aths. kom mér vitanlega ekki á óvart, því að eins og ég gat um, var ágreiningur um það innan stj. og að því er mér er kunnugt einnig innan Sjálfstfl.

Ég hef að vel athuguðu máli eðlilega aðhyllzt þá skoðun að leggja skattinn á árið 1945, en ekki árið 1944. Ég ætla ekki að fara langt út í umr. um þetta nú, því að ég þykist vita, að tilefni muni gefast til þess síðar. Í frumræðu minni fór ég um það nokkrum orðum, á hverju ég byggði þessa skoðun mína, en skal bæta því við, að ef skatturinn er lagður á veltu ársins 1944, ætla ég, að veitast muni mjög erfitt að komast hjá því að gera frekari undantekningar en gert er ráð fyrir í frv., og ég fyrir mitt leyti áliti það mjög óheppilegt, því að það verður erfitt fyrir þann ráðh., sem þarf að framkvæma lögin, að standa á móti sennilega fjöldamörgum kröfum, byggðum á meiri og minni sanngirni, um að fá undanþágu frá skattinum, ef hann er lagður á eftir á.

Ég skal þó aðeins víkja að því, að það eru ýmsar vörutegundir, t.d. kol, sement og e.t.v. fleiri, sem mjög lítil álagning hefur verið á í heildsölu. Mér er sagt, að kolin muni komast niður í næstum 11/2%, og hljóta þá allir að sjá, að engin sanngirni er í því að leggja þar á veltuskatt. Sama gildir um sement, þar sem álagningin er svo lítil.

Þetta er ein ástæðan fyrir því, að ég beiti mér á, móti álagningu á veltu ársins 1944. Auk þess má segja, að gagnvart skattgreiðendum sé það ótryggari aðferð að koma með þessa háu skatta eftir á. Ef menn vita um skattinn fyrir fram, geta þeir hagað rekstri sínum með tilliti til þess og þá máske sneitt hjá viðskiptum, sem ekki borga sig með skattgreiðslunni.

Þetta skal ég láta nægja hvað snertir aths. hv. 3. landsk.

Ég verð að játa, að undirtektir hv. þm. Str. undir frv. komu mér mjög á óvart. Ég var raunar undir það búinn að fá gagnrýni frá honum og öðrum um einstök atriði frv. Mér er það alveg ljóst, að sum ákvæði þess geta orkað meira eða minna tvímælis, og það undrar mig því engan veginn. þó að skiptar séu skoðanir um sum ákvæði þess, t.d. það. hvort skattinn skuli leggja á fyrir fram eða eftir á. til hvers konar þjónustu hann skuli ná o.s.frv. En hitt kom mér á óvart, að hv. þm. Str. skyldi leggjast á móti heildarstefnu frv. Ég get ekki betur séð en hún sé í fyllsta samræmi við þá skattamálastefnu, sem þessi hv. þm. og flokkur hans hafa beitt sér fyrir á síðustu árum. Ég veit ekki til, að flokkur hans hafi látið ónotuð mörg tækifæri til að minna á, að meiri skatta þyrfti að taka af stríðsgróðanum. Það hefur verið á því klifað í tíma og ótíma, að stríðsgróðamennirnir séu látnir friðhelgir og þeim hlíft við réttmætum álögum. (BSt o.fl.: Þetta er ekki rétt.) Ég vildi spyrja þá framsóknarmenn, sem eru að grípa fram í fyrir mér, hvaða stétt stríðsgróðamennirnir muni helzt tilheyra, ef frá eru teknir stórútgerðarmennirnir. Ég hafði haldið, að þegar stórútgerðarmennirnir eru teknir frá, mundi stríðsgróðamannanna helzt að leita í stétt kaupsýslumanna og iðnrekenda, en það eru einmitt þær stéttir, sem samkv. þessu frv. er ætlazt til að beri byrðarnar.

Hér er aðeins tvennt til. Annaðhvort hafa framsóknarmenn að undanförnu æpt um stríðsgróðann og skattaálagningu á honum aðeins í prettskyni, í því skyni að slá ryki í augu almennings, eða þá þeir verða í höfuðatriðum að ljá þessu frv. fylgi sitt, ef þeir eiga að vera í samræmi við fyrri afstöðu sína í þessu máli. Ég a.m.k. get ekki séð fleiri útgöngudyr. Þeim tjóar því alls ekki, þó að þeir geti bent á agnúa á löggjöfinni, því að það er að sjálfsögðu hægt að gera. En þá er að vinna sameiginlega að því að bæta úr þeim agnúum, og það breytir að sjálfsögðu engu um höfuðstefnu þessa frv., sem, eins og ég gat um áðan, er sú að ná sköttum af stéttum, þar sem um mestu fjársöfnun hefur verið að ræða á undanförnum árum, án þess þó að íþyngja þeim svo með álögum, að hætta sé á, að þær geti ekki innt af hendi þær skyldur, sem þeim eru ætlaðar í þjóðfélaginu. Fæ ég máske tækifæri til að koma nánar inn á . það atriði síðar, þegar ég svara hv. 1. þm. Eyf.

Þegar ég lagði frv. fyrir hér í hv. d., lét ég þess getið, að ég hefði fengið heimild til að gefa þá yfirlýsingu f.h. ríkisstj., að hún mundi, svo framarlega sem hún undirbyggi fjárlög fyrir árið 1946, ekki fara fram á framlengingu á þessum skatti. Hv. þm. véfengdi ekki, að þessi væri ætlun stj., en taldi hins vegar a.m.k. mjög hæpið, að stj. gæti staðið við þessa yfirlýsingu sína. Þetta gaf honum tilefni til almennra hugleiðinga um fjármálaástandið og þá stefnu, sem fylgt hefur verið undanfarin ár, um niðurgreiðslu dýrtíðarinnar í landinu. Ég fyrir mitt leyti sé ekki ástæðu til að taka upp almennar umr. um það atriði. Það er búið að margræða það áður á þessu þingi. En ég get ekki stillt mig um að láta þess getið. að í þessum aths. hv. þm. Str. kom fram mikið ósamræmi. Annað veifið sagði hann, að ómögulegt væri að halda óbreyttri þeirri fjármálastefnu, sem fylgt hefði verið í þessum efnum að undanförnu, og ég er honum alveg sammála um það. Ég fyrir mitt leyti skil ekki, að orðið geti um það mikill ágreiningur. að jafnskjótt og eitthvað hallar undan fæti á einhverju sviði atvinnu- eða viðskiptalífsins, muni reynast ókleift að halda uppi þeim uppbótagreiðslum til framleiðslunnar, sem greiddar hafa verið síðustu ár, og reynslan er raunar búin að sýna okkur þetta alveg áþreifanlega. Þrátt fyrir hið góða fjárhagsástand. sem enn er í landinu, og góða afkomu atvinnuveganna, sýnir reynslan, að mjög erfitt reynist að afla, ríkissjóði nauðsynlegra tekna til að standa við gerða samninga um uppbótagreiðslurnar.

Eg hef bent á það áður og skal endurtaka það nú, að mér finnst fullkomin ósanngirni að ásaka núv. ríkisstj. í þessum efnum. Þetta var þannig útbúið í hendurnar á henni, að hún átti einskis annars úrkosta en halda áfram á þeirri braut, sem áður hafði verið lögð. Það hafði verið samið um uppbætur á þær afurðir s.l. árs, sem ekki voru fluttar úr landi, og stj. gat ekki með nokkru móti annað en staðið við þær skuldbindingar. Það eru því gamlar, en ekki nýjar, syndir, sem stjórnin líður fyrir í þessum efnum.

En annað veifið segir svo þessi hv. þm., að hann sjái enga möguleika til að sleppa við að greiða uppbæturnar. Nú er vitanlega með öllu óhugsandi, að þetta tvennt geti farið saman, — annars vegar að hverfa frá þeirri fjármálastefnu, sem ríkt hefur undanfarin ár, og hins vegar að halda uppi þeim greiðslum, sem marka línu fjármálastefnunnar. Annaðhvort verður því að víkja frá fjármálastefnunni eða uppbótagreiðslunum.

Nú er ég vitanlega ekki undir það búinn að svara því, á hvern hátt verður komizt hjá uppbótagreiðslunum eða framhaldi þeirra. Hv. þm. vita allir, að þessa þrjá mánuði, sem stj. hefur setið, hefur hún haft margt að sýsla, og hygg ég því, að enginn geti lagt henni það út til ámælis, þótt hún sé ekki búin að gera sér ljóst, hvernig leysa beri þetta mikla vandamál. En mér er ljóst, að þessi ráð verður að finna, því að það er rétt, sem hv. þm. Str. sagði, að þeirri fjármálastefnu, sem ríkt hefur á undanförnum árum, verður ekki haldið áfram. hvort sem menn vilja eða vilja ekki. Ég er auk þess ekki fyrir fram sannfærður um, að erfiðleikarnir muni reynast eins miklir og margir virðast halda á því að sleppa frá uppbótagreiðslunum.

Bændur hafa ekki síður en aðrir siðferðilega kröfu til að fá sinn hluta af stríðsgróðanum. Bændur hafa sem betur fer komizt fram úr þeim erfiðleikum, sem þeir lentu í á kreppuárunum. Þeir eru skuldlausir og hafa safnað álitlegum sjóðum, eins og bezt sést á sparisjóðsinnstæðum úti um land. Viðhorfið fyrir bændur er því allt annað nú en það var í stríðsbyrjun, þegar byrjað var að greiða uppbæturnar. Ég efast ekki heldur um fyrir mitt leyti, að hvenær, sem þyngir að muni bændur ekki síður en aðrar stéttir sýna það, að þeir séu tilbúnir til að taka sinn þátt af erfiðleikunum. En sé þessi skoðun rétt, sem kemur fram hjá hv. þm. Str. og ég hef verið að halda fram, að ekki muni reynast kleift að halda áfram með uppbótatilhögunina, þá er þar með fallinn grundvöllurinn undan þeim véfengingum, sem hann bar fram um, að stj. mundi standa við þá skuldbindingu að fara ekki fram á framlengingu á skattinum. Og þessi skattur, sem margt má að finna, horfir allt öðruvísi við, ef treysta má, að hann verði lagður á í eitt skipti fyrir öll og hann sé nokkurs konar viðbótarstríðsgróðaskattur, en ekki skattur, sem standa eigi um ótiltekinn, langan tíma.

Ég hygg, að það hafi aðallega verið þessi tvö atriði almenns efnis, sem hv. þm. Str. gerði aths. um viðvíkjandi þessu frv. Svo bar hann fram nokkrar aths. út af tilhögun skattsins að öðru leyti. Ég skal ekki á þessu stigi fjölyrða mikið um þær aths., það verður sennilega tækifæri til þess að ræða það nánar við 2. umr. frv. Hann lét í ljós þá skoðun, að skatturinn mundi raunverulega lenda á almenningi, á neytendum vörunnar. Ég get ekki séð, að hann hafi fært fram nein frambærileg rök fyrir þessu. Þegar litið er á, skattinn í því ljósi, sem til er ætlazt, sem sé að hann sé viðbótarstríðsgróðaskattur, þá er engin ástæða til að ætla, að tilhneiging verði hjá verðlagsyfirvöldunum til að velta honum yfir á vöruna. Í frv. er skýrt tekið fram, að tilætlunin sé, að skatturinn megi engin áhrif hafa við verðlagningu vara, og það er líka tekið fram, sem ég átt, að orki miklu meira tvímælis, að hann sé ekki frádráttarhæfur við álagningu tekjuskatts. Það er að mínu viti miklu erfiðara að verja það ákvæði, af því að mér dettur ekki í hug að neita því, að þessi skattur er í raun og veru óhjákvæmileg rekstrarútgjöld, sem þessi fyrirtæki hafa, en sýnilega gegnir sama máli um ýmsa aðra skatta, eins og sveitarútsvar. Það er fyrst og fremst að talsverðu leyti ekkert annað en veltuskattur, og auk þess er það óhjákvæmileg rekstrarútgjöld, sem atvinnurekendur verða að hafa. Það er þess vegna alveg sama sanngirni, sem mælir með að gera það frádráttarhæft eins og þennan skatt. Ef hv. þm. Str. skyldi vilja taka upp aths. um að gera báða þessa skatta frádráttarhæfa, þá er ég tilbúinn að tala um það, en ég hef þó enga heimild til að gefa yfirlýsingu f. h. stj. í því efni.

Hv. þm. lagði sérstaka áherzlu á, að þessi skattur hlyti að lenda á þeim, sem verzluðu við samvinnufélögin. Ég hygg, að það sé á misskilningi byggt, af því að hann hafi ekki hugsað þetta mál nægilega vel. Ef skattinum er á annað borð haldið fyrir utan verðlagninguna, þá lendir hann sem neyzluskattur ekki fremur á þeim, sem verzla við samvinnufélögin, en þeim, sem verzla við kaupmenn, — vöruverðið verður í báðum tilfellunum það sama. Hitt er annað mál, að verzlunarhagnaðurinn, sem kaupfélagamenn kunna að fá„ verður að sjálfsögðu minni fyrir það, að skatturinn er lagður á, en þar er um tvennt ólíkt að ræða, hvort hann kemur sem hækkað vöruverð eða sem minnkandi ágóði. Annars er það svo, að þótt þetta lenti á þeim verzlunarhagnaði, sem félagsmenn í kaupfélögunum kunna að hafa, þá er þetta, svo lítið, að þess gætir alls ekki. Maður, sem hefur 10 þús. kr. úttekt í kaupfélagi, og ég hygg, að það megi teljast nokkuð mikil úttekt, fær 100 kr. minni arð, og eins og peningagildið er nú, sér þetta ákaflega lítið á fyrir allan þorrann. Ég held því, að ekki sé ástæða til, sérstaklega þegar á það er litið, hvernig skattalöggjöf okkar er hagað, og litið er á þau skattafríðindi, sem kaupfélögin hafa, fyrir þennan hv. þm. sem talsmann kaupfélaganna að gera mikið uppistand úr þessu. Ég held, að það mundi ekki mælast vel fyrir og ekki þykja mikill þegnskapur, ef mikið veður væri úr þessu gert.

Þá lét hann líka þess getið, sem ég hafði líka ymprað á, þegar ég lagði frv. fyrir d., að skatturinn mundi geta komið misjafnt niður, þ.e.a.s. hann kæmi þyngra á þau fyrirtæki, sem hefðu mikla veltu, en tiltölulega litla álagningu, en þau, sem hefðu litla veltu, en tiltölulega mikla álagningu. Þetta er rétt, en það verður óhjákvæmilega eitthvert ósamræmi að koma fram í þessu, en þegar litið er á heildina, þá ætla ég, að það skipti ekki mjög miklu máli. Reynslan er sú, að um verulegan gróða er ekki að ræða annars staðar en þar, sem veltan er mikil. Víðast er það þó svo með þau fyrirtæki, sem verzlun reka, að þau verzla sumpart með mikilli og sumpart með lítilli álagningu. Þetta er það algenga í kaupmannaverzlun. Af þessu leiðir aftur það, að í það heila tekið verður ekki um verulegt ranglæti að ræða í þessu efni, en eins og ég gat um í gær, er svo um þennan skatt eins og nálega alla aðra skatta, sem á eru lagðir, að þeir koma eitthvað misjafnt niður. Mér þætti gaman, að hv. þm. Str. vildi benda okkur á einhvern skatt, sem ekki gæti í neinu tilfelli komið ranglátlega niður.

Þá ætla ég, að ég hafi minnzt á öll þau atriði, sem verulegu máli skiptu í ræðu hv. þm. Str. Þá skal ég að síðustu víkja örfáum orðum að því, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um þetta mál. Hann gerði fyrst fyrirspurn til mín, hvers vegna ég gerði till. um að vísa málinu til n. Hann lét þau orð falla, að stjórnarflokkarnir hefðu verið svo óvægnir og sýnt svo mikla harðleikni í viðskiptum við andstæðingana og ekkert tekið til greina, sem þeir segðu, og taldi því óþarft að vísa málinu til n. Ég verð að segja, að þessi hv. þm. er ekki eins minnugur í þessu efni sem mörgum öðrum, því að ég hef tekið eftir, að hann hefur sterkt minni um marga hluti. Hann virðist vera búinn að gleyma árunum 1934–1935, þegar hann var í stjórnarflokki og aðrir í stjórnarandstöðu. Hann virðist vera búinn að gleyma, að þeirri reglu var þá fylgt undantekningarlaust, að hver einasta till. stjórnarandstæðinga var drepin, þó að ekki væri nema sjálfsagðar leiðréttingar á lagafrv. Ég held, að það sé óhætt fyrir hann að ganga í gegnum þingtíðindin frá 1934, a.m.k. í Ed., ég held, að hann finni þar eina eða enga till. frá stjórnarandstæðingum, sem náði fram að ganga. Hér er hins vegar daglega verið að samþ. frv. og till. frá stjórnarandstæðingum alveg eins og frá þeim, sem stj. fylgja að málum. Ég hef ekki látið mér detta í hug, að nokkur viðleitni væri í þá átt að beita stjórnarandstæðinga nokkurri harðleikni. Ég hef aldrei heyrt ymprað á því af einum einasta fylgismanni stj., enda getur slíkt siðleysi í þingmálum, sem átti sér stað á þeim árum, ekki orðið til annars en tjóns. Fyrir mér vakir ekki annað, þegar ég fer fram á, að málinu sé vísað til n., en að það fái þar þá athugun, sem er ætlazt til, að hvert þingmál eigi að fá. Að vísu er búið að athuga það talsvert frá ýmsum hliðum, en mér er þó fullljóst, að þar eru ýmis atriði, sem vel getur komið til greina, að þyrfti að breyta, og tel ég sjálfsagt, að þeir, sem stj. fylgja, og alveg eins þeir, sem eru í stjórnarandstöðu, leggi það til, sem þeir álíta bezt.

Þá minntist hv. þm. á, að þessi skattur mundi verða allþungbær fyrir þá, sem hefðu verzlun með höndum. Hann lét þess getið, að hann mundi verða þungur á nauðsynjavörum, sem hann nefndi svo, af því að svo lítil álagning væri á þær. Þegar talað er um nauðsynjavörur, er venjulega fyrst og fremst átti við kornvöru. Ég hef haft opin augun fyrir þessu hvað kornvöru snertir. Sannleikurinn er sá, að álagning á kornvöru hér á landi er alls ekki lítil. Hún hefur verið í heildsölu 10% og í smásölu 30%, og um heildsöluálagninguna verður að geta þess, að um leið og hún var færð upp í þetta, var heildsölum gert að skyldu að liggja með heils árs birgðir, og því verða þeir nokkuð fyrir vaxtatapi og rýrnun á vörunni. Ég get þessa til þess, að það komi fram, að hér er ekki um óhæfilega álagningu að ræða. Samt er þetta svo ríf álagning, að ég ætla, að þeir, sem með þessa vöru verzla, hafi á undanförnum árum haft það góða afkomu, að ekki sé hægt að segja, að það sé stórkostlegt misrétti, þó að nú sé lagður á þá veltuskattur, ekki hærri en hér er farið fram á. Um aðrar nauðsynjavörur er það að segja, að álagningin á þær er mismunandi. Eins og ég gat um í upphafi máls míns, er heildsöluálagningin á sumar þeirra svo lág, að hún mundi ekki þola þennan veltuskatt, en það er tiltölulega lítið af þeim vörum, sem seldar hafa verið í heildsölu. En jafnvel þótt gera yrði undantekningar með þá vöru, mundi það ekki skipta miklu máli fjárhagslega, þó að það væri allmikill ágalli fyrir þá, sem l. ættu að framkvæma, að verða að gera þær.

Þá endurtók hv. 1. þm. Eyf. það, sem hv. þm. Str. hafði sagt, að skatturinn mundi raunverulega lenda á almenningi, og lét þess getið, að eins vel hefði mátt lækka verð á vörum. Þetta mætti til sanns vegar færa á árinu 1945, en ef hann tekur það trúanlegt á annað borð og getur fallizt á, að afkoma þessara atvinnugreina hafi á undanförnum árum verið það góð, að þeim stéttum, sem skatturinn lendir á, mundi ekki vera hættulega íþyngt með honum, þá er þessi röksemdafærsla oltin um sjálfa sig. og ef maður miðar skattgreiðsluna fyrst og fremst við undanfarin ár, þá þýðir ekki að svara því til, að eins vel hefði mátt lækka vörur í verði. Þar að auki er það, að ef þessum skatti verður að ná í ríkissjóð, þó að það gæti haft einhver áhrif á vöruverðið, þá er erfitt að benda á aðra leið skynsamlegri en hér er farið fram á.

Þá lét hv. þm. þess getið, að bent hefði verið á aðra leið til að ná tekjum í ríkissjóð og það miklu meiri en hér er um að ræða, en það er með því frv., sem borið hefur verið fram þing eftir þing, um eignaraukaskatt. Ég get ekki neitað því, að mér þykir undarlegt, að þeir hv. þm., sem eru að bera sig svo illa út af þeirri tiltölulega lágu skattaálagningu, sem hér er um að ræða, skuli treysta sér til í sömu andránni að verja þær skattaálögur, sem fólust í eignaraukaskattsfrv., þar sem gert var ráð fyrir að taka allt að 30% af hreinni eign og gat undir vissum kringumstæðum komizt hærra. Nú veit hv. þm. vei, að eignaraukaskatturinn mundi að miklu leyti lenda á þeim sömu stéttum, sem lagt er til, að skattlagðar verði með þessum frv., sem lögð hafa verið fram í þessari d. Hann mundi nálega einvörðungu, með örfáum undantekningum að vísu, lenda á stórútgerðinni, kaupmönnum og iðnrekendum. en það eru þeir sömu menn og ætlazt er til, að skattlagðir verði með þessu frv. Hins vegar er ljóst, að skatturinn hefði lent á allt öðruvísi. Sá skattur hefði lent einvörðungu á þeim, sem hefðu gert framtöl sín þannig, að eign þeirra hefði komið í ljós, en þessi skattur lendir jafnt á þeim, sem haga framtölum sínum þannig, að eign þeirra kemur ekki fram. Ég er ekki að fullyrða neitt, hve mikil brögð eru að því, að eign manna komi ekki fram í framtölum þeirra, en ég hygg, að erfitt sé fyrir þessa hv. þm. Framsfl. að halda fram við umr. hér á þingi, að eignaraukaskatturinn sé stórum betri en sá skattur, sem hér er um að ræða, svo mikið hefur verið um það talað af þeim sjálfum í blöðum þeirra, að framtölum hafi verið ábótavant, og nú síðast hér á þingi ekki fyrir löngu, að ég hygg, að erfitt sé fyrir þá að snúa nú við blaðinu og halda fram, að eignaraukaskatturinn hefði komið öllu réttlátlegar niður að þessu leyti.

Ég hygg, að það sé sama, frá hvaða sjónarmiði litið er á eignaraukaskattinn, — hann kemur ekki á neinn hátt réttlátlegar niður, auk þess sem hann er frá þjóðhagslegu sjónarmiði svo varhugaverður, að ekki má fara inn á hann. Það má aldrei í kapitalistísku þjóðfélagi taka af mönnum alla hvöt til að eiga eignir. Þá er betra að fara inn á ríkisrekstur. (BSt: Er ekki verið að því nú?) Mér skilst, að hann hafi ekki verið að því síðustu þrjá mánuðina. (BSt: Ég hef aldrei verið með því.) Það hefur nú verið svona upp og ofan.

Þá benti hv. þm. á, að það hefði mátt fara aðra leið til að ná þessum tekjum, en það var með því að afnema þau fríðindi, sem hlutafélög njóta viðvíkjandi varasjóðum, sem þeim er heimilt að leggja í án skattlagningar. Þessu hefur verið margsinnis hreyft áður og fengið misjafnar undirtektir. Fyrst er þess að gæta, að þótt þessi leið hefði verið farin, þá hefðu þær tekjur, sem ríkissjóði hefðu áskotnazt þannig, verið hverfandi litlar samanborið við það, sem ráðgert er með þessu frv., eins og það er nú. Þar af leiðandi hefði ekki verið unnt að láta slíka löggjöf koma í staðinn fyrir þá, sem hér er um að ræða, en auk þess skal ég gjarnan gefa þá yfirlýsingu, að ég hefði aldrei getað fallizt á þá lausn málsins, þó að hún hefði verið fullnægjandi. Það eru ekki nema fá ár, síðan þingið komst að þeirri niðurstöðu, að heppilegra væri að breyta stóratvinnurekstri yfir í hlutafélagsform en láta hann áfram vera einkarekstur, eins og hann var í flestum tilfellum þangað til. Þetta er gert með það fyrir augum. að meiri trygging sé fyrir, að fé festist í félögunum. ef þau eru í hlutafélagaformi, og ýmsar skorður eru reistar við, að fé, sem lendir í varasjóðum, fari þaðan. Fæst því meira öryggi fyrir festu og „soliditeti“ með hlutafélagaforminu heldur en ef látið er skeika að sköpuðu með það, hve mikið fjármagn stendur fast í atvinnurekstrinum. Það verður að ganga út frá því, að ef þingið samþykkir þessi fríðindi hlutafélögunum til handa, þá hafi það vitað, hvað það hefur verið að gera, og hafi þá verið búið að gera upp það dæmi; að heppilegt væri að breyta til á þennan hátt. Eðlileg afleiðing af því varð sú, að nálega allur stóratvinnurekstur með ærnum kostnaði færðist yfir í hlutafélagaform, og virðist mér, að þá væri ekki gætt nægilegs velsæmis í opinberu lífi, ef eftir 2–3 ár væri aftur horfið frá þessari stefnu og hlutafélögin svipt þeim fríðindum, sem skattal. gefa þeim, og þar með svipt burt öllum grundvelli, sem lagður var fyrir því að breyta atvinnurekstrinum í þetta horf, því að vitanlegt er það, að atvinnurekandinn vill í langflestum tilfellum fremur vera sjálfráður með þennan afgang, sem hann kann að hafa af atvinnurekstri sínum, en að láta hann verða að meira og minna leyti bundinn. Það getur náttúrlega verið freistandi, þegar ríkissjóður þarfnast peninga, að grípa til úrræða eins og þessara og hringla til með jafnveigamikið atriði í löggjöf og þetta er. En þó að freistingin sé mikil í þessu efni, verða þeir, sem ráða, að standast hana. Það eru takmörk fyrir því, hve langt má ganga í því að hringla með þessa löggjöf. Það eru takmörk fyrir því, hve langt má ganga í að svipta atvinnuvegina öllu öryggi. Og það eru takmörk fyrir því, hvernig leika má borgarana í þessu efni. Ef hverfa á frá þessu örfáum árum eftir að þessi tilhögun er komin á, þá er það ekkert annað en svik við atvinnureksturinn í landinu. Ég get ekki undir neinum kringumstæðum samþ., að horfið verði frá þessu aftur, nema að mjög vel athuguðu ráði og komizt væri að þeirri niðurstöðu, að stóratvinnureksturinn ætti heldur að vera í höndum einstaklinga í stað hlutafélaga. En hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Þetta er bara tækifærisstefna, sem er kastað fram án nánari yfirvegunar. Ég er þeirrar skoðunar, að þótt þetta geti gefið einhverjar tekjur í ríkissjóð, muni þetta illa borga sig og hefna sín síðar. Þá spurði hv. þm., hvort það mundi þýða að koma fram með nokkrar till. til breytingar á þessu frv. Ég get ekki svarað öðru en því, að ég tel sjálfsagt, að hver skynsamleg till., sem fram kemur, verði athuguð gaumgæfilega, og fer það svo eftir því, hvort hún er talin horfa til bóta eða ekki, hvort hún nær fram að ganga eða verður felld.