19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (4918)

257. mál, veltuskattur

Magnús Jónsson:

Ég skal nú ekki lengja mikið þetta mál og get nú byrjað dálítið svipað og hv. þm. Str. endaði og sýna með því, hve samvinna er nú góð milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að ég býst við, að það sé hvorki stjórnarandstæðingum né fim. til sérstakrar ánægju að fást við þetta skattafrv. Það auðveldar þeim, sem gagnrýna þetta frv., að þeir munu finna mikinn hljómgrunn, einnig hjá þeim, sem nú veita því fylgi, og það er augljóst, að þegar fara verður svona djúpt í vasa skattþegnanna, er það ekki gert af neinni gleði, heldur af því, að nauðsyn krefur. Yfirlýsing hæstv. fjmrh. um það, að þessi stj. muni ekki endurnýja veltuskattinn, er vottur þess, að hér er um að ræða l. aðeins til bráðabirgða. Hv. þm. Str. sagði t.d. um eignaraukaskattinn, að hann hefði verið með honum aðeins með því skilyrði, að þá yrði um leið komið á breytingum á stjórnarháttum eða fjármálum landsins. Ég hygg, að bæði ríkisstj., flm. og stuðningsmenn hennar séu með þessu frv. hér, með það fyrir augum að veita ríkisstj. og þeim flokkum. sem að henni standa, nokkurn frest og eðlilegan frest til þess að taka þetta vandamál til íhugunar. Ég held varla, að nokkur hv. þm. eða nokkur maður geti vænzt þess, að hæstv. ríkisstjórn, sem nýtekin er við völdum, sé búin að gera áætlun um þá endursköpun. sem gera þarf í ótal efnum. Til þess að stj. geti staðið við fyrri skuldbindingar, þarf að innheimta mikið fé.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér hefur komið þetta frv. nokkuð undarlega fyrir sjónir, og ég get á margan hátt undirskrifað þá annmarka, sem að sjálfsögðu verða á framkvæmd þess, en það, sem gerir það að verkum, að erfitt er um sanngjarna gagnrýni, er að verða að reyna að ná marki, sem erfitt er að fínna aðrar leiðir að. Það er það að innheimta þetta mikla fé, á,n þess að það komi fram í aukinni dýrtíð. Það væri einfalt að taka þessar 10 til 20 millj. kr. með hækkun á innflutningsgjöldum. Það væri auðvelt. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég hefði varla séð að um annað væri að ræða en taka þetta fé með hækkun innflutningsgjalda, sem þannig væri hagað, að mest gjald væri af þeim vörum, sem síður eru nauðsynlegar, en sá kostnaður mundi festast í verðlaginu þegar í stað. (HermJ: Það mætti ákveða að taka ekki tillit til hans frekar en þessa.) Ég held, að það gæti verið erfitt að halda því aðgreindu. Ég geri ráð fyrir, að það verði erfitt í framkvæmdinni að fara þessa leið.

Í sambandi við leið til tekjuöflunar minntíst hv. þm. Str. á leið, er hann taldi vel færa, sem. sé afnám varasjóðshlunninda. Hæstv. fjmrh. sagði, að slíkt mundi ekki nema þeirri upphæð, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. ef þetta frv. verður samþ. Ég hef ekki séð neina rannsókn á þessu, en býst við, að hæstv. fjmrh. byggi á einhverju athuganir sínar um, að þetta mundi nema miklu lægri upphæð, — og af þeim ástæðum væri leið hv. þm. Str. ófullnægjandi til þess að koma í stað þeirra skatta, er hér um ræðir. Ég býst við, að erfitt sé að reikna þetta út, en álít þó, að unnt sé að fá nokkurn veginn yfirlit um það, til þess að sjá, hvort nema mundi verulega miklu minni upphæð, en hins vegar vil ég taka undir það. sem hæstv. fjmrh. sagði, að það er alveg óhæfilegt, ef löggjafinn vildi breyta svo og svo miklu í þjóðfélaginu, ef hann sneri svo við eftir örstutta stund eða leyfði, að farið væri að breyta til aftur.

Hv. þm. Str. sagði, að hlutafélagafyrirkomulagið hér á landi væri þýðingarlítið. Það getur verið, að það ætti að vera strangara en það er nú, en þegar hann var að tala um, að sú breyt. hefði verið gerð á hlutafélögum, að konur og börn gætu keypt hluti og gerzt hluthafar, þá hygg ég, að það séu undantekningar, að hægt sé að halda hluthafafundi í svefnherberginu, og veit ekki til, að slík hlutafélög séu til, og yfirleitt er hlutafélagafyrirkomulagið á allt annan hátt heldur en það. Því verður aldrei neitað. að skattfríðindi þau, sem hlutafélögin hafa fengið, eru engin gjöf frá löggjöfinni, sem næði heldur engri átt. Það er alveg óhugsandi, að hv. Alþ. hafi veitt þessi skattfríðindi, ef löggjöfin teldi sig ekki hafa einhvern hag í því, að hlutafélögin söfnuðu ríflegum varasjóðum. Það þarf ekki að fara langt til þess að sjá, hvílíkur kostur þessu fylgir, t.d. hvílík trygging það er fyrir þá, sem atvinnu hafa við fyrirtækin, að þau hafi svo ríflega varasjóði, að þau fari ekki um koll strax og krepputímar koma, og einnig er auðséð, hvílíkur kostur það er fyrir þjóðfélagið, að fyrirtækin lendi ekki undir þeim kringumstæðum á sínum lánardrottnum, bönkunum, og yfirleitt voru þessi skattfríðindi veitt til þess að forðast þá ógæfu fyrir þjóðfélagið, að atvinnurekstur stöðvist og fyrirtæki fari um koll. Í þeim tilgangi einum hafa þessi félög verið látin fá þessi skattfríðindi fyrir það að leggja fé til hliðar til tryggingar rekstrinum. Þessu hefur því miður ekki verið komið við með einstaklingum, og hef ég leitað mjög mikið eftir aðferð til þess og spurt marga menn, sem eru vel að sér á því sviði, hvort ekki væri unnt að koma því svo fyrir, að einstaklingar söfnuðu einnig fé í varasjóði og gætu fengið fríðindi, en þeir töldu ekki hægt að finna fyrirkomulag til þess. Það er því sama, hvort fjölskylduhlutafélag getur haldið hluthafafundi í svefnherberginu, ef fyrirkomulagið hefur það af verkum, að betur er tryggð atvinna þeirra, sem við það vinna, og lánardrottnar eru betur tryggðir, og því er ekki rétt að hætta þeirri stefnu, og það var ekki röng stefna, þegar hv. Alþ. veitti hlutafélögunum þessi fríðindi. Það yrði því að skoða það mjög vandlega og miklu vandlegar heldur en með því að slá því fram í þingræðu, áður en horfið er frá þessari stefnu, — ekki vegna þeirra, sem eiga í hlutafélögunum heldur sökum þess, að það er heppilegra, að félögin tryggi hag sinn á þennan hátt. Þegar svo þar að auki mundi ekki nást nálægt eins mikið fé úr ríkissjóði með þessum hætti, er augljóst, að þessi leið er ekki fær í staðinn fyrir það tekjuaukafrv., sem hér liggur fyrir. Hv. þm. Str. hafði það eftir hæstv. fjmrh., að það væri venjan, þegar mikil umsetning væri, væri gróðinn mikill, ég tók svo eftir orðum hæstv. fjmrh., að það þyrfti venjulega mikla umsetningu til þess, að gróðinn yrði mikill, þannig að stórgróðafyrirtæki hefðu mikla umsetningu. Hv. þm. Str. sagði, að þetta væri ekki rétt, því að það væru til heildsalar, sem hefðu lítil herbergi og ynnu lítið, en græddu mikið á lúxusvöru. Ég er ekki kunnugur þessu, en gæti trúað því, að það kæmi einhvern tíma upp úr dúrnum, hvort allir þessir mörgu heildsalar hefðu í rauninni grætt svo mikið. Það eru sumar þjóðsögur, sem koma á gang og menn fara að trúa. Það er a.m.k. hér til verðlagseftirlit, sem aukið er ár frá ári og er nú svo orðið, að verðlagseftirlit er með öllum vörum, og fer þá að minnka um gróðann, a.m.k. þeirra, sem vinna lítið. En ég hygg, að margir þessara heildsala vinni mikið, og sumir hverjir græða sjálfsagt mikla peninga, en það er enn ekki kominn sá prófsteinn í ljós, hvort raunverulegur auður hefur safnazt hjá þeim. Ég held, að sú regla sé yfirleitt rétt, að það þurfi mikla umsetningu til þess að safna miklum gróða.

Hv. þm. Str. sagði, að þessi umsetningarskattur kæmi sem refsivöndur á þá, sem reka heilbrigða verzlun. Ég skal ekki segja um það, hversu rétt þessi setning er, en þó að svo væri, þá væri það ekkert einsdæmi í íslenzkri skattalöggjöf, þótt eitthvað svipað kæmi út. Hvernig er með allan tekjuskatt? Kemur hann ekki harðast niður á þeim, sem telja samvizkusamlegast fram? Það er nú gallinn á þeim handhægu tekjustofnum, og það er svo erfitt að tryggja framtölin, að þeir, sem óheiðarlegast telja fram, eru verðlaunaðir, en hinum refsað, sem verða að telja samvizkusamlega, fram. Þetta er rétt, eins og það, að sá hestur er mest notaður, sem hagspakastur er, honum er refsað fyrir það, hversu auðsveipur hann er. Og svona er það með marga skatta, að þeir lenda harðast á þeim, sem á heilbrigðastan hátt færa bækur sínar og reka starfsemi sína, þannig að það er út af fyrir sig ekkert sérstakt við þennan skatt, þótt hann komi illa niður á hinum heiðarlegu.

Annars kom það í ljós hjá hv. þm. Str., þótt að vísu ekki eins greinilega og við umr. hér í gær, að höfuðgremja hans og Framsfl., stjórnarandstæðinga, stafar af því, að þeir halda, að S.Í.S. og kaupfélögin verði fyrir verulegum útgjöldum í sambandi við þennan skatt. Ég verð að segja það, að þegar svo nærri verður að ganga með skatta og nú er nauðsynlegt, þá er ekkert óeðlilegt, þótt ekki sé hægt að hlífa neinum sérstökum, en að vísu verður þessi skattur tilfinnanlegri fyrir þá, sem hefur verið hlíft; þeir finna eðlilega mest til þess. Við höfum oft lesið í blöðunum um það, að einmitt þessi fyrirtæki hafi grætt mjög mikla peninga og safnað stórfé í sjóði sína. Þetta er mikið gleðiefni, og það er að vísu ekkert tilhlökkunarefni að verða nú að láta þau fyrirtæki, sem þannig hafa safnað stórfé, taka þátt í gjöldum ríkisins á fullkominn hátt eins og alla aðra, en það er hins vegar ekkert ósanngjarnt, að þau taki nú jafnan þátt í þessum útgjöldum. Þetta er rétt eins og þegar við á sínum tíma vorum að ná undir skatt þeim stéttum, sem höfðu verið skattfrjálsar áður, að þá kveinuðu þær náttúrlega, mjög undan þessu, en það er ekki nema eðlilegt, að þau fyrirtæki, sem mest hafa notið af sérréttindum, finnist nú þessi skattur harðastur, sem á að koma jafnt niður á þeim eins og öllum öðrum.

Það kom hér til umr., hvort ekki væri ástæða til þess að vísa þessu frv. aftur til n., og var það hv. 1. þm. Eyf., sem spurði, hvort það mundi ekki verða beitt svo mikilli hörku af stjórnarliðinu. að slíkt mundi ekkert þýða. Ef stjórnarliðið vill skoða frv. betur í n., ættu að vera nægar ástæður til þess. Mér finnst alveg fullkomin nauðsyn á, að svona frv. verði aftur vísað til n.; það er borið fram af hv. meiri hl. fjhn. að tilmælum hæstv. fjmrh., alveg óskoðað af nm., og eru þeir óbundnir um frv., eins og grg. þess ber með sér. Það er því alls ekki athugað af n., og ber því fyrst að taka það til umr. og vísa því síðan til n. Kemur þar fyrst til greina eitt atriði, sem mér virðist ágreiningur um. Er um það að ræða, hvort þessi l. eigi að vera óbreytt að því leyti, að veltuskatturinn verði lagður á tekjur þessara fyrirtækja, sem hér um ræðir, á árið, sem fer í hönd. eða á veltu þeirra árið, sem leið. Það kom þegar fram í n. nokkur ágreiningur um þetta. og er þetta eitt af þeim atriðum, sem verður mjög vandlega að skoða. Ég verð að játa það, að ég hef ekki gert þetta mál fullkomlega upp í huga mér. Ég hef hlustað á rök manna, og finnst mér sú uppástunga eðlilegust, eins og frv. mælir fyrir um, að láta skattinn koma á veltu þess tíma, sem í hönd fer, heldur en að seilast til þess sem liðið er. Hins vegar er ég fullkomlega opinn fyrir öllum rökum, sem um það kunna að koma að láta skattinn gilda fyrir liðna árið, en hef ekki enn heyrt svo sterk rök fyrir því, að þau hafi getað snúið mér að svo komnu máli frá því að fylgja till. hæstv. fjmrh. um að láta skattinn koma á veltu ársins 1945, sem í hönd fer. Ég verð að játa, að mér finnst nauðsynlegt að athuga þetta mál nánar, en efast um, að þessi fyrirtæki hafi þannig bókhald, að hægt væri að leggja skattinn rétt á fyrir árið 1944, en hins vegar væri auðveldara að leggja skattinn rétt á fyrir árið, sem í hönd fer, ef fyrirtækin gætu hagað bókhaldi sínu með það í huga, að þennan skatt eigi að leggja á.

Ég tók eftir því við umr. hér, að talað var um, að kaupfélagið á Ísafirði hefði ekki notað sér hámarksálagningu, sem það hafði rétt til, og þess vegna væri hart að leggja þennan veltuskatt á það. Ég tel, að þannig sé ástatt um fleiri slík félög, og tel þetta sönnun fyrir því. að ekki eigi að leggja þennan skatt á liðna tímann. Þessi félög myndu sjálfsagt nota hámarksálagningu sína út í yztu æsar, ef þau ættu að greiða veltuskattinn af veltu liðna ársins. Félögin hafa komizt af og verið rekin þannig, að hagur félagsmanna er sæmilegur og álagning þannig, að ekki hefur verið lagt á fullkomlega það, sem leyfilegt var. Mér finnst því ósanngjarnt að leggja skattinn á eftir á, en slíkar ráðstafanir ættu menn þó að gera, sem eiga að bera þennan skatt, að þeir a.m.k. notuðu þá hámarksheimild, sem verðlagseftirlitið lætur þeim í té, og yfirleitt er ómögulegt að neita því, að það er miklu réttara, að atvinnurekendur viti fyrir fram um, að slíkur skattur eigi að koma, til þess að þeir geti tekið ákvarðanir um það, hvort þeir vilja halda fyrirtækjum sínum áfram eða ekki, eftir að þeir hafa fengið að vita um, að slíkan skatt á að leggja á. Mér finnst því þau rök ekki mjög veigamikil, sem ef til vill má færa fyrir því, að auðveldara sé að leggja þennan skatt á fyrir árið sem leið, heldur en það, sem fer í hönd. Það má að sjálfsögðu deila um það, hvort veltuskattur, sem lagður er á veltu ársins, sem fer í hönd, mundi þrátt fyrir allt koma fram í verði á vörum, og ég gæti vel trúað því. að þegar svona skattur er lagður á í aðeins eitt skipti, þá yrði eftirlit með því erfitt, að það kæmi ekki á neinn hátt þannig fram. Ég er hins vegar sannfærður um það, að enginn skattur. sem lagður er á slík viðskipti, mundi komast nær því en slíkur skattur sem þessi. Ég held t.d., að hækkuð aðflutningsgjöld, sem ekki ættu að koma fram á verði, verði erfiðara að eiga við en þennan veltuskatt.

Ég skal svo ekki ræða miklu meira um þetta frv., sem hér liggur fyrir, en vildi gjarnan minnast á það er hv. þm. Str. var að tala um, að þessi veltuskattur yrði neytendaskattur fyrir þá, sem eru í kaupfélögum, þar sem þeir og kaupfélögin væru eitt og hið sama, og af því að hann telur hættu á að meðlimir kaupfélaganna myndu ef til vill ekki fá neinn arð útborgaðan. Ég verð að segja það, að þetta er afleiðingin af því að vera ekki bara bóndi, heldur einnig kaupmaður, kaupfélögin eru verzlun, sem félagsmenn reka í sameign til þess að græða á henni með hagstæðu vöruverði eða beinlínis með verzlunarágóða, og það er þessi ágóði hjá þeim, sem er hjá þeim eins og hjá hverjum öðrum kaupmanni, sem þarna fer í þennan skatt. Það má vel unna þessum mönnum, sem eru í þessum félögum, að þeir fái einhvern gróða, en þegar skattur er lagður á slíkan gróða, er eðlilegt, að hann komi niður á þeim eins og öllum öðrum kaupmönnum, en neytendaskattur er það ekki, fyrr en hann kemur jafnt niður á þeim, sem eru í kaupfélögum, og þeim, sem eru utan við þau, — í vöruverðinu. Ég býst líka við, að ríkissjóði fyndist skattstofnar hafa horfið, ef allir landsmenn væru gengnir í kaupfélögin og ekki mætti skoða kaupfélögin eins og kaupmenn, sem eru skyldugir til þess að bera þær byrðar, sem verzlun og umsetning yfirleitt ber.

Hv. þm. Str. spilaði hér sína gömlu plötu: það yrði að breyta um, — það yrði að lækka dýrtíðina, — það yrði að skipta um stefnu í fjármálum. Um þetta eru allir sammála, og það er beinlínis meginorsök þess, að núv. ríkisstj. hefur verið mynduð, að það þarf að breyta um. Við höfum heyrt yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem er maður, sem vanalega talar varlega, hann talaði með óvanalegum þunga um það, að það yrði að finna ráð til þess að lækka dýrtíðina, hér var ekki um það að ræða, hversu erfitt það væri, — það yrði að finna ráð til þess. Og um þetta eru allir á einu máli. Þetta frv. er einmitt um það að veita hæstv. ríkisstj. nokkurn frest til þess að gera það, sem hv. þm. Str. sagði, að yrði að gera nú strax, og þykir mér skjóta nokkuð skökku við, þar sem það virtist vera skoðun hans, þegar stjórnarmyndunin varð, að það yrði að bíða með hana til þess að lofa öllu að fara í strand, áður en stjórn yrði sett á laggirnar, og að það ætti að bíða með að breyta um kerfi, þangað til allt væri komið í strand. Ég álít aftur á móti, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið sett á laggirnar sem tilraun til þess að komast að raun um, hvort ekki væri hægt að bjarga fjárhag landsmanna án þess að allt ræki í strand, — hvort ekki væri hægt að koma skipinu fram hjá skerjunum til þess að forða því frá strandi. Þessi tilraun er því gerð í von um það, að hið óvátryggða skip, sem hér um ræðir, reki ekki í strand, og er þess að vænta, að hv. þm. Str., þótt hann hafi ekki getað fellt sig við stjórnarmyndun. að hann leiði stjórnarandstöðuna þannig. að samvinna verði um að koma þessum málum áfram, þótt stundum virðist kveða við annan tón í málgögnum flokks hans.

Ég vil svo að lokum aðeins minnast á eitt atriði í sambandi við ræðu hv. þm. Str., er hann var að tala um. hvað gerðist hér á hv. Alþ. 1934–1935. Ég man svo langt, að þegar ég var í stjórnarandstöðu árin 1927–1930, hjó stjórnarlið Framsfl. svo að okkur í stjórnarandstöðu, að þegar einn vel metinn hv. þm. bar fram brtt. um það að telja upp þau l., sem ættu að vera numin úr gildi, felldi stjórnarliðið till., af því að hún kom frá stjórnarandstöðunni, þótt það að vísu kannaðist við, að till. hefði rétt á sér, en á þessum tíma var hv. þm. Str. ekki kominn á þing.

Og það er mjög gott að hafa sanngjarna stjórnarandstöðu. Hv. þm. Str. taldi, að með þessu gæti svo farið, að menn yrðu að greiða skatt af gróða, sem enginn væri. Það er oft svo. Það er vitað mál, að mörg fyrirtæki verða að greiða skatt. þótt þau svo verði í „undirballance“, svo að það er engin undantekning með þennan skatt.