19.01.1945
Efri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (4919)

257. mál, veltuskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég skal stytta mál mitt, því að ég geri ráð fyrir, að mér gefist síðar kostur á að gera grein fyrir afstöðu minni. Hæstv. fjmrh. sagði, að þessi skattur kæmi á stríðsgróðamennina.

Ég hygg, að við hv. þm. Str. höfum sýnt ljóslega fram á það, að það verður almenningur, en ekki stríðsgróðamenn, sem ber þennan skatt.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ekki væri hægt að ásaka núv. stj. um þetta ástand. Það er að vísu rétt, því að hún er búin að vera svo skamman tíma við völd. En hæstv. ráðh. og stuðningsmenn stj. hafa tekið þátt í stjórnmálum landsins fyrr en nú, og má ásaka þessa ráðh. sem þm.

Það keyrði fyrst um þverbak, þegar stj. var mynduð 1942, og við súpum nú seyðið af því, sem sú stj. gerði.

Hæstv. ráðh. sagði réttilega, að stjórnmálastefnu s.l. tveggja ára yrði ekki haldið áfram lengur. En mér virðist af athöfnum núv. stj., að hún sé sett til þess að viðhalda sömu stjórnmálastefnu og verið hefur undanfarið, en tímans vegna fer ég ekki lengra út í það. Fyrsta verk stj. var að stuðla að því, að kaupgjaldið hækkaði frekar en þörf var á, og nú stuðlar hún að því að hækka laun opinberra starfsmanna.

Hæstv. ráðh. hélt, að ég hefði gleymt því, hvernig stjórnin 1934–1937 hefði komið fram. Það vill nú þannig til, að sama ár og sú stjórn var mynduð kom ég í þessa deild og sat í fjhn. Og ég minnist þess ekki. að n. klofnaði nokkurn tíma þá, og virðist það ekki bera vott um, að við höfum verið ósanngjarnir í garð stjórnarandstæðinga.

Það var að vísu gleðilegt, að hæstv. ráðh. vildi, að fjhn. athugaði þetta mál, en það var líka gert við frv. um nýbyggingarráð. Ég gerði aths. við það frv., sem stj. féllst á, að væri að nokkru leyti rétt, en þá mátti bara alls ekki breyta frv., þegar til kom.

Hæstv. ráðh. kvað þennan skatt mundu koma á tekjur fyrirtækja frá liðnum árum. en eigi á almenning. En mér skilst, að þessi skattur komi á verzlunarveltuna á þessu ári, og jafnvel þótt hann kæmi á veltuna 1944. þá kæmi hann samt á almenning. Og ef heildsalar þola þennan skatt, þá mundu þeir alveg eins þola, að Viðskiptaráð lækkaði vöruna um það, sem því næmi. Hæstv. ráðh. lagði annan skilning í ummæli mín um eignaraukaskattinn en þau gáfu tilefni til.

Ég spurðist einungis fyrir um, hvers vegna tveir stuðningsflokkar stj., Sósfl. og Alþfl., hefðu ekki lagt með eignaraukaskattinum, sem þeir hafa þó áður haldið fram, að væri sáluhjálparlegt atriði. Og þykist ég hafa fullan rétt til að spyrja um stefnubreytingu sem þessa hjá stjórnarflokkunum, þótt ég sé eigi sömu skoðunar.

Hæstv. ráðh. taldi, að veltuskatturinn kæmi niður á sömu aðilum og eignaraukaskatturinn. Það má vera, en hann kemur öðruvísi niður. En það sem ég taldi, að ætti að koma á undan örþrifaráðum sem þessum, var ekki eignaraukaskattur, heldur afnám varasjóðshlunninda hjá einstökum hlutafélögum. Hæstv. ráðh. taldi það ekki nóg, þótt þessi varasjóðshlunnindi yrðu afnumin. En ég álít, að þetta, ásamt öðru, sem við leggjum til, mundi nægja til þess að mæta þeim halla. sem verður á næsta ári.

Hæstv. ráðh. sagði, að hver till., sem fram kæmi, yrði nákvæmlega athuguð. Ég tel nauðsynlegt að afnema þessi hlunnindi sumra hlutafélaga. og ætla ég að gera till. um það í fjhn. og vita, hversu þessi orð hæstv. ráðh. standa. Ég álít, að ýmis hlutafélög hér í Reykjavík standi ekki til neinna þjóðþrifa, svo að það kæmi eigi að sök, þótt varasjóðshlunnindin yrðu afnumin.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þessi skattur yrði ekki endurnýjaður. En hvað á þá að koma í staðinn fyrir þennan skatt að ári liðnu? Ég spurði um þetta í gær, en því var ekki svarað.

Hæstv. ráðh. kvað stj. ekki vera búna að vera svo lengi við völd, að hún væri búin að gera áætlun fyrir framtíðina. En svo lengi er hún búin að sitja og ráðh. hennar að fást við stjórnmál, að þeir ættu að gera sér þetta ljóst, — nema þá, að stj. hugsi sér, að hún verði eigi langlíf, og ætli þá þeirri næstu að ráða fram úr þessu.

Ég minnist í þessu sambandi orða konungs nokkurs í Frakklandi, sem sagði: „Þetta flýtur á meðan ég er við völd, en eftirmaður minn fær að vita af því.“ Þannig hugsar núv. stj. Það hafa komið fram hér frómar óskir um það, að skútan fari ekki í strand, en nú virðist þó sem henni sé stefnt á skerið, en stj. hugsar ef til vill eins og Staðarhóls-Páll kvað: „Skipið er nýtt, en skerið fornt, skal því undan láta.“