05.10.1944
Sameinað þing: 52. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í D-deild Alþingistíðinda. (4920)

114. mál, framleiðslutekjur þjóðarinnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. minntist ekki á, að ég hefði ritað undir nál. með fyrirvara, og skýrði ekki alveg rétt frá gangi málsins. Ég vil því gera grein fyrir mínum fyrirvara.

Hagstofustjóri var kallaður á fund n., og með honum flm., hv. þm. V-Húnv. Flm. var spurður sérstaklega að því, hvort það vekti ekki fyrir honum að fá enn nákvæmari útreikninga á þjóðartekjunum, til þess að hægt væri að ákveða nákvæmlega launin, og viðurkenndi hann, að það væri aðaltilgangurinn, en hagstofustjóri taldi, að ekki væri hægt að ná þessum tilgangi, þó að safnað væri skýrslum, og tók það fram, að þessi aðferð væri ekki eins áreiðanleg og að safna skýrslum eftir framtali, og þar að auki væri engan veginn hægt að gera þetta á þeim tíma, sem ætlaður er í till. En það atriði lagði flm. áherzlu á og taldi, að till. missti annars mjög marks. Hagstofustjóri taldi og, að afar mikið af þessu yrði að vera áætlun, að vísu frá ári til árs, sem ekki skakkaði svo mjög, að ekki mætti byggja eitthvað á því, og viðurkenndi, að þarna mætti fá fróðlegar upplýsingar eins og alltaf í skýrslum, og mælti með því, að þetta yrði gert.

Að fengnum þessum upplýsingum sá ég mér ekki fært að vera sérstaklega með samþ. till. Ég tel hana meinlausa, en gagnslitla, og greiði því ekki atkv. Hér er meira um að ræða auglýsingastarfsemi en mikinn árangur, einkum þar sem því er slegið föstu, að till. nái ekki því aðaltakmarki, sem fyrir flm. vakti.