15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (4927)

257. mál, veltuskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég lét þess getið við 1. umr., að ég teldi tvo sérstaka galla á þessu frv. Annars vegar er það, að skatturinn kemur ekki réttilega niður á hina einstöku gjaldendur, sem hann leggst á, miðað við aðstöðu þeirra til að hagnast. Hitt atriðið er það, að skatturinn á, að miðast við veltu ársins 1945, en ekki 1944. og þar með er að minni hyggju þessum málum svo skipað, að engin fullnægjandi trygging er fyrir því, að skatturinn komi ekki fram í verðlaginu eins og venjulegur neyzluskattur, — þrátt fyrir ákvæði 7. gr. frv. og góðan vilja ríkisstj. Með tilliti til yfirlýsingar hæstv. ráðh., að hér sé aðeins að ræða um skattlagning í eitt skipti, og þar sem ætlazt er til, að byrðin lendi á stéttum, sem vitað er, að hafa haft góðar tekjur undanfarin stríðsár, tel ég skattinn í eðli sínu allt annað en skatt af tekjum eins tiltekins árs, heldur sé þetta eignarskattur á eignir þær, sem myndaðar voru í árslok 1944. Þetta kemur einnig fram í orðalagi frv. Hvorki er heimilt að taka tillit til þessa skatts við ákvörðun vöruálagningar né útreikning skatts og útsvars. Þó að frv. ætlist til, að veltuskattur reiknist eftir veltunni 1945, miðast hann ekki við tekjur þess árs, heldur verður að greiðast af núverandi eignum. — Ég skal játa, að ég hefði heldur kosið aðrár leiðir til að taka þann eignarskatt, sem hér um ræðir, en ég hef fallizt á röksemdir hæstv. ráðh. um það, að almennt falli þessi skattur á þær stéttir, sem hafa haft aðstöðu til að hagnast á stríðsárunum umfram flestar aðrar stéttir.

Mér virðist það hins vegar ekki sanngirnismál, að sá, sem hefur mikla veltu og lítið álag, skuli greiða meiri skatt en hinn, sem leggur kannske miklu meira á, en hefur minni veltu.

Afleiðing þess, að ég lít á þennan skatt sem eignarskatt, en ekki skatt á tekjur, er sú, að mér virðist í alla staði eðlilegt, að skatturinn sé lagður á umsetningu ársins 1944 og sé greiddur af þeim eignum, sem til eru í lok þess árs. Ég veit það vel, og var því mjög hreyft hér við umr., að eftirskattur er mjög varhugaverður, og skal ég ekki andmæla því. Æskilegast væri, að skattgreiðendur gætu vitað á hverju ári, hvaða skattar ættu að greiðast, en hinu er ekki til neins að loka augunum fyrir, að við höfum hin síðari ár mjög breytt frá þessari reglu í skattamálum og gerum enn. Við erum nýbúnir að afgr. hér í þessari hv. d. frv. til l. um söluskatt af andvirði ísfisks, sem seldur var erlendis á liðnu ári, og enginn af þeim gjaldendum, sem þar er um að ræða, gat vitað, að þetta gjald yrði lagt á eftir á. Tekjuskattsl. hefur verið breytt hér á undanförnum árum, oft ekki fyrr en í apríl þ. á., sem skatturinn er á lagður, og loks eru svo útsvörin í Reykjavík, sem nema fast að 30 millj. kr. Þau eru hreinn eftirskattur að því leyti, að enginn veit, eftir hvaða mælikvarða þau eru á lögð, fyrr en næstum hálfu ári eftir að teknanna var aflað. Það er því fjarri lagi að segja, að það sé nokkuð ósambærilegt um að ræða, þó að skatturinn af veltu ársins 1944 sé ekki ákveðinn fyrr en að loknu því ári. Þetta er þó ekki nema nokkur hluti þeirra ástæðna, sem ég tel mæla með því, að skatturinn sé miðaður við veltu ársins 1944. og ekki þær veigamestu.

Það, sem mestu ræður um, hversu mikla áherzlu ég legg á þetta, er það, að ég hygg, að það sé ómögulegt að tryggja það. að skattinum sé ekki velt af sér af þeim, sem eiga að greiða hann, á þá, sem vörurnar kaupa, þrátt fyrir góðan vilja ríkisstj. og skýlaus ákvæði l. Ég er alveg sammála því, sem kemur fram í nál. hv. minni hl. n. á þskj. 1109: „En öllum er auðsætt, að ef fyrirtækin geta greitt skattinn með þessu móti, þá gætu þau alveg eins lækkað vöruna jafnmikið og skattinum nemur, og hefur verðlagseftirlitið vald til að þvinga þau til þess.“ Ég hygg, að þetta sé alveg rétt. Ég hygg, að verðlagseftirlitið mundi trauðla beita valdi sínu svo, að fyrirsjáanlegt. væri, að fyrirtæki hafi halla af því að verzla með vörur, sem skattinum næmi, en þann veg er það tryggt, að skatturinn kæmi ekki fram í vöruverðinu. Fyrir mér liggur þannig í málinu: Það, hvort skatturinn verður í eðli sínu eignarskattur á þessa stétt, þennan hóp gjaldenda, sem hann lendir á, eða hvort hætta er á, að það verði neytendaskattur, sem kemur fram í vöruverðinu, þar um ræður, við hvort árið er miðað. og ég tel svo mikinn eðlismun á skattinum í þessum tveimur tilfellum, eftir því hvort ofan á verður, að það gerbreytir stefnu minni til frv., hvort ofan á verður í þessu efni. Ég hef því leyft mér, ásamt hv. 7. landsk. þm., að bera fram brtt. á þskj. 1113, sem lúta að því að tryggja það, að skatturinn verði það, sem mér skilst honum sé ætlað að vera: Sérstakur skattur á hagnað þeirra stétta eða hópa, sem skatturinn tekur til.

Fyrsta brtt. er við 1. gr., um að í staðinn fyrir árið 1945 komi árið 1944, og það er að sjálfsögðu meginefni till. Hitt er afleiðing af henni.

Þá er önnur brtt. þess efnis, að 4. og 5. gr., sem fjalla um álag skatta og innheimtu miðað við árið 1945, falli niður, en í þess stað komi ný gr., sem verði 4. gr., og er þar ger; ráð fyrir því, að skattstjórum eða skattanefndum séu sendar skýrslur um veltu ársins 1944 innan þess tíma, sem ráðh. tilskilur, og síðan sé miðað við þær skýrslur, þegar skatturinn er lagður á, nema ástæða sé til að ætla, að þær þurfi betur að athuga, og er þá farið eftir venjulegum reglum í þeim efnum. Ég hygg, að sú gr. þurfi ekki skýringa við. Hún er eins og tíðkast almennt í þeim efnum.

Þá er lagt til, að 7. gr., sem fjallar um það, að veltuskatt samkv. l. þessum sé óheimilt að telja í kostnaðarverði vörunnar, falli niður. Þar sem við miðum við, að veltuskatturinn sé lagður á veltu liðna ársins, er gr. óþörf. Ef einhver kynni að telja æskilegt, að gr. þessi haldist, til þess að undirstrika enn frekar efni till., þá mætti bæta henni aftan við 9. gr. frv., og hef ég skriflega brtt. um það efni, sem ég ef til vill legg fram,. ef mér finnst ástæða til eftir umr.

4. brtt. er við 8. gr. Samkv. 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að létt sé af samvinnufél. og samvinnusamb. þeirri lagaskyldu að leggja 1% af veltu, sinni í varasjóð á því ári, sem veltuskatturinn er miðaður við. Mér sýnist, að þó að þetta út af fyrir sig sé eðlilegt ákvæði, sé það ekki fullnægjandi til þess, að þeim tilgangi sé náð, sem ég hygg vaki fyrir þeim, sem frv. hafa samið. Sannleikurinn er sá, að eins og viðskiptum kaupfélaga og S.Í.S. er háttað, gæti, að þessari gr. óbreyttri, vel farið svo, að í raun og veru greiddu einstök kaupfélög skatt bæði af heildsölu og smásölu. Það er því lagt til í brtt. okkar, að ef ágóði samsvarar því, sem var næsta ár á undan, þá skuli leggja í sambandsstofnsjóð hinna einstöku kaupfél. jafna upphæð og þau áður fengu, og við ákvörðun ágóða, sem kaupfél. greiða út, skuli ekki mega taka tillit til veltuskattsins. Ég tel, að þetta sé í sjálfu sér eðlilegt, því að að öðrum kosti gætu hin einstöku kaupfél., sem skipta við S.Í.S., þurft að greiða í raun og veru skatt af heildsöluumsetningu og smásöluumsetningu sinni.

Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. drap á það við í. umr., að aðalörðugleikarnir við að miða veltuskattinn við árið 1944 væru þeir, að það væri þá ómögulegt eða mjög erfitt að sýna fulla sanngirni í meðferð beiðna, sem hlytu að koma fram um undanþágu, vegna þess, að sérstaklega stæði á hjá hinum einstöku skattþegnum.

Ég hygg, að það verði ekki auðveldara, þótt miðað sé við árið 1945, þótt segja megi að vísu, að það gefi hinum einstöku fyrirtækjum kost á að breyta til um rekstrarhátt, sem betur henti, er skatturinn er á lagður, svo að hann komi léttar niður en ella.

Þetta hefur tvær hliðar að minni hyggju. Ég álít, að það sé ekki ástæða til þess almennt, að þeim, sem greiða eiga þennan skatt, sé gefinn kostur á að breyta um verzlunarhætti og búa í haginn fyrir sig sjálfa; þannig að skatturinn komi sem minnst við þá. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að mjög erfitt mun að koma í veg fyrir það, en það hlýtur einnig að verða til þess, að skatturinn nær síður tilgangi sínum og verður erfiðari í framkvæmd.

Hæstv. ráðh. drap á eitt sérstaklega, og það var heildsöluverð á kolum. Verði brtt. á þskj. 1113 samþ., þá er ég reiðubúinn að athuga það sérstaklega fyrir 3. umr., og ég hygg, að engir erfiðleikar séu við að sneiða fyrir það, með því að gera örlitla orðabreytingu á 10. gr., þar sem fjallað er um undanþáguheimildir, sem hæstv. ráðh. hefur samkv. lögunum.

Ég skal svo ekki að svo stöddu fara fleiri orðum um þetta, en vil aðeins endurtaka það, sem ég fyrr sagði í ræðu minni, að ég tel, að hvert eðli skattsins verður, sé að ákaflega miklu leyti undir því komið, við hvort árið, 1944 eða 1945, skatturinn sé miðaður, og ég legg svo mikið upp úr þessu, að afstaða mín til frv. mótast af því, hvort verður í þessu efni.